Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2025 Apríl

13.04.2025 18:07

Nóg um að vera og tveir áfangar á tónlistarsviðinu

Já, það hefur verið nóg um að vera á hinum ýmsu sviðum að undanförnu. Starfið í Menntaskólanum á Tröllaskaga gengur að óskum með mínu frábæra samstarfsfólki. Færri komast að en vilja í þennan skóla, flestir nemenda eru þó fjarnemar vítt og breitt um landið og heiminn. Vildum gjarnan fá fleiri staðnema og vonandi kemur þeim til með að fjölga á næstu árum. Höfum fengið margar góðar heimsóknir á síðustu vikum m.a. 10. bekkinga frá Dalvík og úr Fjallabyggð, kennara frá Danmörku og Grænlandi sem eru með okkur í samstarfsverkefni og svo 4 kennara frá Frakklandi sem voru að kynna sér starfshætti okkar og skólabraginn.

Nóg hefur verið um að vera í tónlistinni og þar hafa 2 skemmtilegir áfangar náðst á liðnum vikum. Ég hef nú komið fram rúmlega 1600 sinnum til að flytja tónlist frá því að tónlistarferillinn hófst árið 1978 og hef flutt rúmlega 1200 lög. Helstu viðburðir síðustu vikur hafa verið dansleikir á Akureyri, í Svarfaðardal og á Ólafsfirði með honum Stulla, koma fram með Vorboðakórnum frá Siglufirði, heimsækja ljóðaklúbb á Hornbrekku og flytja þeim ljóð og lög og taka á móti hópi á Ljóðasetrinu og þar fylgir alltaf einhver músik. Einnig tók ég upp grunna að tveimur lögum hjá vini minum og tónlistarsnillingi Elíasi Þorvaldssyni.

Fyrir utan þetta hefur eitt og annað verið bardúsað sem fyllir lífið gleði og ánægju. Alltaf eitthvað verið að skrifa; fréttir á ýmsar síður, nokkrar vísur hafa orðið til, ýmis skrásetning í gangi og einhverjar gamansögur hafa verið festar á blað. 

Myndin er af fyrstu hljómsveitinni minni, sem hét Brestur. Hér er hún að spila í Baldurshaga á Bíldudal á 17. júní 1979 og þarna erum við bekkjarbræðurnir á fimmtánda ári. Gísli Ragnar lék á gítar og söng, ég spilaði á trommur og söng og Helgi Hjálmtýs plokkaði bassann.

 

   

  • 1
Flettingar í dag: 112
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 53
Gestir í gær: 10
Samtals flettingar: 123524
Samtals gestir: 28401
Tölur uppfærðar: 26.4.2025 09:22:11