Færslur: 2025 Júlí
21.07.2025 18:48
Annar í sextugsafmæli!
Vikan 27. apríl - 3 maí var bara nokkuð frábær. Hún hófst með Vortónleikum okkar í Karlakór Fjallabyggðar og fóru þeir fram í Siglufjarðarkirkju. Skemmtilegt prógram, bæði án undirleiks og með hljómsveit, og var mæting tónleikagesta ljómandi góð. Við vorum bara nokkuð grobbnir með okkur karlarnir. Svo tók við kennsla í MTR næstu daga og einhver fréttaskrif og útivist.
Að kvöldi þess 1. maí lékum við Stulli svo á skemmtilegum þjóðbúningadansleik í Miðgarði í Skagafirði og að honum loknum pikkuðu Stína mín og Amalía yngsta dóttirin mig upp og við brunuðum í borgina því mikið stóð til. Þann 21. desember sl. var ég svo lánsamur að ná 60 ára aldri og var því fagnað með opnu húsi á heimili okkar Stínu á Siglufirði. Þar mættu margir og fögnuðu með okkur. En þar sem tímasetning fæðingardagsins er ekki alveg sú heppilegasta til ferðalaga, svona þremur dögum fyrir jól, þá var ákveðið að hafa fagnað síðar fyrir mitt nánasta fólk á suður- og vesturhelmingi landsins.
Sú gleði var föstudaginn 2. maí sl. og hýsti Hrefna dóttir mín, Orri, hennar ektamaður, og börnin þeirra þrjú gleðskapinn sem fram fór í Garðabænum. Til leiks mættu einnig systkini mín þrjú og þeirra fylgdarlið, Pála elsta dóttir mín með sitt fólk (nema Fíu sem var að dimmitera) og svo kom að sjálfsögðu stórkaupmaðurinn og ættarhöfðinginn faðir minn að vestan.
Úr varð veisla af bestu gerð, ljúfar veitingar, frábær félagsskapur, söngur og gleði. Til að kóróna gleðina mætti Björn Thoroddsen, stórfrændi, með gítarinn og flutti Bítlasyrpu fyrir “afmælisbarnið” og TOB tríóið (Tóti, Orri og Bjössi), sem var myndað á staðnum, tróð upp og flutti þrjú lög. Amalía, dóttir okkar, söng svo Yesterday af innlifun og Logi bróðir stal senunni, eins og venjulega, í flutningi sínum á All of me, við undirleik Orra, eftir orð sem hittu í hjartastað frá systkinum mínum.
Yndislegt kvöld með mínu fólki sunnan- og vestanlands og Stína mín sá um að allt gengi vel fyrir sig og að allir færu saddir og sáttir úr húsi.
![]() |
||
|
18.07.2025 12:56
Eitt og annað gert um páska
Vikan 20. - 26. apríl var í rólegri kantinum. Páskadagur þann 20. og að sjálfsögðu lambasteik á boðstólum fyrir stórfjölskylduna. Þessir páskar sérkennilegir að því leyti að ekkert var skíðað þar sem frúin fór í krossbandaaðgerð árinu áður og átti enn að taka það rólega en svo var líka lítið um snjó. Veðrið gott og tíminn m.a. nýttur til að fara í vorverkin í garðinum og stunda ýmiskonar aðra útivist sem og til samskipta við familíuna.
Líf var á Ljóðasetrinu um páska að venju. Eyfirski safnadagurinn fastur liður á sumardaginn fyrsta þar sem þó nokkrir gestir litu inn sem og í páskaopnuninni. Svo var unnið að skýrslugerð fyrir Umf Glóa sem ég átti þátt í að stofna árið 1994 og hef verið formaður og þjálfari þar síðustu 30 ár. Æfing var hjá Karlakór Fjallabyggðar sem ég hef sungið með síðustu tvö ár og við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, tókum okkar vikulegu æfingu. Við komum fram sem tvíeykið Stulli og Tóti og það hefur verið nóg að gera hjá okkur síðan við hófum formlegt samstarf 2023.
Svo var verið að skrá og skrifa. Ritaði 8 fréttir, þar af 4 í héraðsfréttablaðið Helluna sem kemur út einu sinni í mánuði hér í Fjallabyggð en ég hef skrifað fréttir í það í rúm 30 ár. Fyrst eingöngu íþróttafréttir en síðar ýmiskonar tíðindi af mannlífi, menningu og íþróttum.
![]() |
17.07.2025 07:53
Helstu tíðindi - Viku fyrir viku
Maður leggur alltaf af stað með góðum hug að blogga um þau viðfangsefni sem maður er að fást við hverju sinni og segja frá einhverju skemmtilegu. Svo er tíminn bara svo fljótur að líða og hleypur frá manni trekk í trekk og allt í einu eru liðnar vikur eða mánuðir án þess að hér séu sett inn einhver tíðindi. En nú á að taka þetta föstum tökum og segja frá hverri viku fyrir sig og birta mynd eða myndir með. Við hefjum leik frá síðasta bloggi, sem var víst um miðjan apríl!
Vikan 13. - 19. apríl hófst á Akureyri þar sem við gistum eina nótt á hóteli. Höfum verið dugleg við þetta undanfarin tvö ár eða svo þar sem börnin þrjú sem við Stína eigum saman eru nú öll búsett þar. Hittum þessar elskur allar sem og listafólkið Loga bróður og Billu konu hans sem voru þar í sýningarferð. Fengum okkur mat og drykk með listafólkinu.
Við Stína störfum bæði við Menntaskólann á Tröllaskaga, þann frábæra skóla, og nú var komið páskafrí þar. Þá var tími til að sinna aðeins Ljóðasetrinu, sem ég stofnaði og stýri hér á Siglufirði, áður en brunað var í Borgarfjörðinn þar sem við dvöldum í tvær nætur í frábærum félagsskap góðra vina. Blíðuveður, mikil útivera, góður matur og rólegheit.
Að venju var unnið að ýmiskonar skrásetningu í vikunni, bækur skráðar á Ljóðasetrinu og skrifaðar 8 fréttir á fésbókarsíður verkefna sem ég tengist.
Mynd: Vinahópurinn í blíðunni við Langá.
![]() |
- 1