Færslur: 2025 Ágúst
08.08.2025 12:35
Kennsla, ljóð og söngur
Vikan 4. - 10. maí var ljómandi góð. Önnin í skólanum styttist í annan endann svo það var nóg að gera í kennslunni auk þess sem ég skrifaði fréttir af skólastarfinu á heimasíðu skólans en það er eitt af verkefnum mínum í skólastarfinu. Um miðja vikuna tók ég á móti hressum alþjóðlegum hópi nema úr dönskum lýðháskóla og fræddi þá um íslenska ljóðlist, tungumálið okkar og menningu og með fylgdu ljóðabrot, söngur og spilerí.
Við Stulli vorum kallaðir til að vera skemmtilegir og leika fyrir dansi á Kótilettukvöldi eldri borgara í Fjallabyggð sem fór fram í Tjarnarborg á Ólafsfirði. Var skemmtunin mjög vel sótt og mikið dansað. Ég flutti nokkrar frumsamdar vísur og kvað einnig fyrir mannskapinn.
Svo reyndi maður að vera duglegur að hreyfa sig, dytta að garðinum og skrifa fréttir á nokkrar síður í minni umsjá.
![]() |
05.08.2025 16:10
Svo fögur mynd er minning þín
3. maí - Eins og ég hef gert grein fyrir hér í síðustu færslum á blogginu er hugmyndin að taka fyrir eina viku í senn og segja frá þar sem tíminn hleypur alltaf frá manni og ekki gefst tími til að skrifa um hina ýmsu viðburði sem maður tekur þátt í og tilefni er til að segja frá. Síðast var það vikan 27. apríl - 3. maí sem ég sagði frá og þar var ýmislegt í gangi en lokadagur vikunnar þarf að fá sérstaka umfjöllun. Frásögnin endaði á hinu frábæra föstudagskvöldi 2. maí þegar ég hélt upp á 60 ára afmæli mitt í annað sinn og nú með mínu nánasta fólki á suður- og vesturhelmingi landsins. Það var alveg geggjað gaman og yndislegt í alla staði.
En það gafst lítill tími til hvíldar að aflokinni gleði því það þurfti að vakna eldsnemma og bruna norður á Sigló í erfitt en þakklátt verkefni. Þá var minningarathörn um hana elsku Mundý, sem ég starfaði með í áratugi við kennslu og söng, sem kvaddi okkur allt of snemma. Minningarathöfnin fór fram í firðinum hennar, Héðinsfirði, sem skartaði sínu fegursta.
Við Stulli, spilafélagi minn, vorum beðnir um að stýra fjöldasöng við athöfnina og spila svo ljúf lög við erfidrykkjuna. sem fór fram í íþróttahúsinu á Siglufirði að athöfn lokinni. Fjölmennið við athöfnina og erfidrykkjuna sýndi hversu mörg hjörtu þessi einstaka kona snerti á lífsleiðinni með umhyggju sinni og kærleika. Það var yndislegt að fá að taka þátt í að kveðja þessa yndislegu vinkonu mína og ég setti saman smá vísu sem ég flutti í minningarathöfninni.
Svo fögur mynd er minning þín
og minningarnar ylja oss.
Hvíl í friði Mundý mín
mun þér fylgja sólarkoss.
![]() |
- 1