Færslur: 2025 Ágúst
28.08.2025 22:05
Ævintýravika og Landsmót 50+
Vikan 22. - 28. júní var undirlögð af tveimur krefjandi en skemmtilegum verkefnum. Í þó nokkur ár hef ég verið með svokallaðar Ævintýravikur fyrir ung börn á Siglufirði. Þetta eru nokkurs konar leikjanámskeið en þó er áherslan nokkuð önnur en á hefðbundnum leikjanámskeiðum. Aðaláherslan er á útiveru, menningu og sköpun og að kynnast sínu nærumhverfi og hvað það hefur upp á að bjóða. Þessa viku var sem sagt fyrri Ævintýravika sumarsins hjá Umf Glóa, sem ég stýri og þjálfa hjá, og tæplega 20 börn á aldrinum 6-8 ára undu sér vel í ýmsum spennandi ævintýrum undir minni stjórn eins og t.d. fjöruferð, leikjum og þrautum, safnaferð, ferð í skógræktina og fleira.
Seinna verkefnið var svo öllu umfangsmeira; að undirbúa, skipuleggja og framkvæma frjálsíþróttakeppni á Landsmóti UMFÍ 50+ hér í Fjallabyggð. Umf Glói tók að sér að sjá um frjálsíþróttakeppnina og þar sem ég er sá eini sem veit um hvað það snýst stýrði ég þeim hluta og undirbjó. Fékk svo flott fólk með mér í framkvæmdina og allt gekk að óskum. En að koma upp frjálsíþróttavelli var stærsti höfuðverkurinn þó gekk þetta allt upp fyrir rest og allir voru eins sátir og hægt er að vera. Mótið gekk frábærlega fyrir sig í alla staði og gestir ánægðir. Frjálsíþróttakeppnin gekk meira að segja svo vel fyrir sig að ég gat tekið þátt í nokkrum greinum, á hlaupum, og nældi í nokkur gull og nokkur silfur.
![]() |
24.08.2025 17:18
Veisla, 17. júní, bílskúrinn og setrið
Vikan 15. - 21. júní var alveg hreitn ljómandi góð og verkefnin fjölbreytt, svona eins og ég vil hafa þau. Hófum vikuna með veisluhöldum þar sem við fögnuðum útskrift hennar Elínu Helgu okkar úr grunnnámi kennarafræða frá Háskólanum á Akureyri. Var vegleg veisla af því tilefni hjá okkur á Hafnargötunni á Sigló.
Á mánudeginum hófst ferli við að koma bílskúrnum í betra stand og útbúa þar líkamsræktaraðstöðu fyrir okkur hjónin. Hreinsuðum vel til og í vikunni fóru tveir farmar á haugana og tveir á Ljóðasetrið þar sem góssið beið útimarkaðar sem fyrirhugað var að halda síðar um sumarið. Einnig var tekinn góður skurkur í að skafa Ljóðasetrið að utan.
17. júní var haldinn hátíðlegur að venju og líkt og í um 20 skipti áður sá ég um hlaup fyrir Umf Glóa á þessum degi. Ég átti þátt í að stofna félagið árið 1994 og hef verið formaður þess í síðustu 30 ár. Mæting í hlaupið var ljómandi góð og alltaf gaman að sjá brosandi og ánægð börn að hreyfa sig. Var beðinn um að munda gítarinn í hátíðahöldum dagsins og lék og söng eigin lög og annarra í tæpan klukkutíma á ráðhústorginu þar sem hátíðahöldin fóru fram.
Vikuna enduðum við inn á Akureyri þar sem við Stína mín áttum góða stund með börnunum okkar í tilefni af brúðkaupsdegi okkar þessa helgi.
![]() |
21.08.2025 21:13
Ljóðasetur, Landsmót og útskriftir
Önnur vikan í júní var sérlega fjölbreytt og skemmtileg. Hún hófst með fermingarveislu vestur á Barðaströnd og endaði á útskriftum á Akureyri, inn á milli var svo eitt og annað gert.
Já, fermingarveisla Frosta Þórs, dóttursonar míns, fór fram í Birkimel á Barðaströnd á sunnudeginum og var gaman að vera með þessum efnilega dreng á þeim degi. Að veislu lokinni var brunað norður á Sigló. Á þriðjudeginum brunuðu Stína mín og Amalía dóttir okkar suður í borgina í læknastúss meðan ég tók á móti leikskólabörnum á Ljóðasetrinu með ljóðalestri, söng og spileríi og seinna um daginn sat ég undirbúningsfund vegna Landsmóts 50+ sem fór fram hjá okkur í Fjallabyggð nokkrum dögum síðar.
Næstu dagar fóru að mestu í undirbúning fyrir Landsmótið; græja frjálsíþróttavöll, því slíkur er ekki til staðar hjá okkur, skipuleggja tímaseðla, setja upp ritarablöð og fleira slíkt. Og svo vinnu á Ljóðasetrinu við að koma betra skykki á allan aukabókakostinn sem við eigum orðið þar, byrja að skafa og mála setrið að utan og taka lóðina í gegn. Einnig sótti ég fund ferðaþjónustuaðila í Fjallabyggð og svo kom einkasonurinn í óvænta heimsókn frá Akureyri og þá var nú hent vænni steik á grillið.
Laugardagurinn var svo stór dagur hjá familíunni. Tvær dætur okkar útskrifuðust frá Háskóla Akureyrar; Elín Helga úr grunnnámi í kennslufræðum og Hrefna sem hjúkrunarfræðingur. Hrefna gat þó ekki verið viðstödd þar sem hún var nýflutt til Minneapolis með eiginmanni og börnum. Yndislegur dagur engu að síður og tvær kjarnakonur fengu nýja nafnbót.
Mynd: Elín Helga, tilvonandi kennari, og stoltir foreldrar.
![]() |
16.08.2025 20:00
Ljóðasetrið og æskuslóðirnar
Fyrsta vikan í júní var nokkurn veginn tvískipt. Fyrri part vikunnar var verið að lenda eftir skólaveturinn og huga og orku beint m.a. að Ljóðasetri Íslands sem ég setti á fót árið 2011 og hef rekið siðan. Var að sinna ýmsum málum þar sem og á heimili og í garði.
Á fimmtudegi brunuðum við Stína mín vestur á Bíldudal, æskuslóðir mínar. Gistum hjá pabba í æskuheimilinu, Birkihlíð, og hittum einnig fyrir Kristínu systir, Nonna hennar mann og fleiri afleggjara þeirra. Áttum mjög góðar stundir saman. Við Nonni hresstum upp á pallinn hjá pabba, það var ekki vanþörf á, og svo tókum við öll þátt í að taka garðinn hjá kallinum í gegn. Svo var að sjálfsögðu farið í kirkjugarðinn til að kasta kveðju á elsku mömmu.
![]() |
14.08.2025 18:31
Endurmenntun, söngur og nýr Íslendingur
Vikan 25. - 31. maí var alveg ljómandi. Hún hófst með rólegum sunnudegi sem fólst aðallega í afslöppun og snatti í kringum Ljóðasetrið. Á mánudeginum héldum við starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga í endurmenntunarferð og leituðum ekki langt yfir skammt að þessu sinni. Á mánudeginum heimsóttum við Framhaldsskólann á Húsavík, fengum kynningu á starfsemi skólans og funduðum með kollegum. Síðan var gist á Narfastöðum í góðu yfirlæti og á þriðjudeginum var Framhaldsskólinn á Laugum heimsóttur þar sem okkur var vel tekið og fundað með starfsfólki. Sáum eitt og annað nýtt og gagnlegt sem nýtist okkur næsta vetur.
Á föstudeginum var óskað eftir okkur Stulla að spila og syngja við opnun sýningarinnar Fegurð fjarða í nýrri menningarmiðstöð í Ólafsfirði sem heitir Brimsalir þar sem samstarfskona mín Ida og hennar fjölskylda heldur úti öflugri starfsemi. Á laugardeginum vorum við Stína mín boðin í sérlega ánægjulega veislu þar sem vinur okkar Jaouad, kokkur á hinum vinsæla veitingastað á Hótel Siglunesi, fagnaði því að hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt eftir 9 ára veru á Siglufirði.
Hreyfði mig eitthvað svolítið þessa vikuna líkt og aðrar, fór m.a. og kastaði spjóti og kringlu, og svo voru skrifaðar nokkrar fréttir að venju og unnið að ýmissi annarri skrásetningu.
![]() |
12.08.2025 08:45
Skógarböð, skólalok og meiri söngur
Vikan 18. - 24. maí var annasöm og viðburðarík, svona eins og vikur eiga að vera. Hún hófst í sælunni í Kjarnaskógi og Skógarböðunum sem við prufuðum í fyrsta sinn, ekki amalegt að svamla um þar, og svo komu börnin í grillveislu í bústaðinn. Verkefnayfirferð, innfærsla einkunna og ýmis frágangur í skólanum og svo útskrift 52 nemenda á föstudeginum, fjölmennasti hópurinn sem útskrifast hefur frá MTR.
Sat fund vegna undirbúnings Landsmóts UMFÍ 50+, sem fór fram hjá okkur hér í Fjallabyggð í lok júní. Ég var í framkvæmdanefndinni og félagið sem ég stýri, Umf Glói, tók að sér að sjá um frjálsíþróttakeppni mótsins og fleira. Mín beið það áhugaverða verkefni að búa til eitt stykki frjálsíþróttavöll og skipuleggja og sjá um frjálsíþróttakeppnina. Hugsaði mér að keppa líka eitthvað sjálfur og rifjaði því upp gamla takta í spjóti og kringlu og tók tvær æfingar í þeim greinum í vikunni.
Áfram var svo sungið af miklum þrótti, líkt og síðustu vikur. Við Stulli kallaðir einu sinni enn til Akureyrar að spila og syngja fyrir dansi hjá Félagi eldri borgara þar sem allir 60+ eru velkomnir. Mikið fjör á föstudagskvöldi, um 100 manns mættu og dansgólfið fullt allt kvöldið. Á laugardeginum var svo endapunkturinn hjá Karlakór Fjallabyggðar þennan veturinn og hann var ekki amalegur. Ósk kom frá kór Langholtskirkju að við mundum halda tónleika með þeim í Bátahúsi Síldarminjasafnsins og var því vel tekið. Kórarnir fluttu bara lög án undirleiks; fyrst við og svo sunnanfólk og svo var sameinast í þrjú lög í lokin. Alveg gæsahúðarmóment á köflum, gestir fjölmenntu og allir kátir. Tvær æfingar voru í vikunni til undirbúnings.
Svo var að sjálfsögðu haldið áfram að skrifa eitt og annað, m.a. einar 14 fréttir í héraðsfréttablaðið Helluna og á nokkrar fésbókarsíður. Einnig var potað niður kartöflum, að þessu sinni útlendum sem ég lét spíra í bílskúrnum þar sem ekki fékkst innlent útsæði.
![]() |
09.08.2025 06:31
Bílskúrssala, söngur og sæla í skóginum
Vikan 11. - 17. maí. Jæja, ætli sé ekki rétt að halda áfram að segja frá fyrri vikum til að ná einhverntíman í skottið á sér! Þessi vika um miðjan maí var fyllt fjölbreyttum og skemmtilegum viðfangsefnum og endaði í sumarsælu.
Sunnudaginn 11. maí vorum við með bílskúrssölu heima hjá okkur á Hafnargötunni og tókst að losna við töluvert af dótaríi sem hafði safnast upp hjá okkur. Síðustu kennsludagar annarinnar í Menntaskólanum á Tröllaskaga voru í vikunni og vildi svo vel til að veðrið lék við okkur þannig að útivera og sprikl litaði þá daga. Var einnig viðstaddur afhendingu Eyrarrósarinnar, sem fór fram í Alþýðuhúsinu á Sigló.
Á miðvikudeginum vorum við í Karlakór Fjallabyggðar með tónleika á Sjúkrahúsinu á Siglufirði þar sem þakklátir hlustendur fögnuðu okkur vel. Að tónleikum loknum hélt ég á ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar (UÍF) þar sem ég var kosinn aftur í stjórn eftir smá hlé. Hef setið í stjórn þar flest ár frá því sambandið varð til árið 2009, þar af formaður í þrjú ár. Auk þess var ég í rúman áratug í stjórn annars forvera UÍF, Íþróttabandalags Siglufjarðar, og gengdi þar öllum stjórnarstörfum nema formannsembættinu.
Að lokinni kennslu á fimmtudeginum brunuðum við Stína mín beint í bústað í Kjarnaskógi þar sem einmuna veðurblíða lék við okkur og við áttum ljúfa daga. Sinntum skólaverkefnum, ræktuðum skrokkinn, fórum í göngutúra, grilluðum og fengum börnin okkar í mat, kíktum í miðbæinn og ýmislegt fleira.
![]() |
08.08.2025 12:35
Kennsla, ljóð og söngur
Vikan 4. - 10. maí var ljómandi góð. Önnin í skólanum styttist í annan endann svo það var nóg að gera í kennslunni auk þess sem ég skrifaði fréttir af skólastarfinu á heimasíðu skólans en það er eitt af verkefnum mínum í skólastarfinu. Um miðja vikuna tók ég á móti hressum alþjóðlegum hópi nema úr dönskum lýðháskóla og fræddi þá um íslenska ljóðlist, tungumálið okkar og menningu og með fylgdu ljóðabrot, söngur og spilerí.
Við Stulli vorum kallaðir til að vera skemmtilegir og leika fyrir dansi á Kótilettukvöldi eldri borgara í Fjallabyggð sem fór fram í Tjarnarborg á Ólafsfirði. Var skemmtunin mjög vel sótt og mikið dansað. Ég flutti nokkrar frumsamdar vísur og kvað einnig fyrir mannskapinn.
Svo reyndi maður að vera duglegur að hreyfa sig, dytta að garðinum og skrifa fréttir á nokkrar síður í minni umsjá.
![]() |
05.08.2025 16:10
Svo fögur mynd er minning þín
3. maí - Eins og ég hef gert grein fyrir hér í síðustu færslum á blogginu er hugmyndin að taka fyrir eina viku í senn og segja frá þar sem tíminn hleypur alltaf frá manni og ekki gefst tími til að skrifa um hina ýmsu viðburði sem maður tekur þátt í og tilefni er til að segja frá. Síðast var það vikan 27. apríl - 3. maí sem ég sagði frá og þar var ýmislegt í gangi en lokadagur vikunnar þarf að fá sérstaka umfjöllun. Frásögnin endaði á hinu frábæra föstudagskvöldi 2. maí þegar ég hélt upp á 60 ára afmæli mitt í annað sinn og nú með mínu nánasta fólki á suður- og vesturhelmingi landsins. Það var alveg geggjað gaman og yndislegt í alla staði.
En það gafst lítill tími til hvíldar að aflokinni gleði því það þurfti að vakna eldsnemma og bruna norður á Sigló í erfitt en þakklátt verkefni. Þá var minningarathörn um hana elsku Mundý, sem ég starfaði með í áratugi við kennslu og söng, sem kvaddi okkur allt of snemma. Minningarathöfnin fór fram í firðinum hennar, Héðinsfirði, sem skartaði sínu fegursta.
Við Stulli, spilafélagi minn, vorum beðnir um að stýra fjöldasöng við athöfnina og spila svo ljúf lög við erfidrykkjuna. sem fór fram í íþróttahúsinu á Siglufirði að athöfn lokinni. Fjölmennið við athöfnina og erfidrykkjuna sýndi hversu mörg hjörtu þessi einstaka kona snerti á lífsleiðinni með umhyggju sinni og kærleika. Það var yndislegt að fá að taka þátt í að kveðja þessa yndislegu vinkonu mína og ég setti saman smá vísu sem ég flutti í minningarathöfninni.
Svo fögur mynd er minning þín
og minningarnar ylja oss.
Hvíl í friði Mundý mín
mun þér fylgja sólarkoss.
![]() |
- 1