Færslur: 2025 September
01.09.2025 20:45
Landsmót, bílskúr og Bíldudals grænar!
Vikan 29. júní - 5. júlí var viðburðarík eins og fyrri vikur sumarsins. Lokadagur Landsmóts 50+, hjá okkur hér í Fjallabyggð, var á sunnudeginum og ég stýrði áfram frjálsíþróttakeppni, sem nú var innanhúss, og svo hinni stórskemmtilegu grein stígvélakasti. Það gekk vel að fá starfsfólk svo ég gat tekið þátt sjálfur og náði mér í 3 gullverðlaun og svo silfur í frumraun í stígvélakastinu. Gaman, gaman og framkvæmd mótsins í heild gekk að óskum. Næstu tveir dagar fóru svo í frágang á velli og búnaði og skráningu úrslita.
Þá var tekið til hendinni í bílskúrnum, penslar og rúlla á loft og veggi og skrapa gólf, áður en lagt var í hann vestur á firði á fimmtudeginum því bæjarhátíðin okkar Bílddælinga, Bíldudals grænar ..., var yfirvofandi og þá lætur maður sig nú ekki vanta. Við hjónin brunuðum vestur og Amalía, yngsta dóttir okkar með. Hittum þar fyrir ættingja og vini í stórum bunkum á frábærri, fjölbreyttri og fjölmennri hátíð sem fór mjög vel fram. Kom aðeins fram á einum viðburði á hátíðinni að þessu sinni en þó í þremur atriðum. Þetta var liðurinn Í túninu heima sem náði nýjum hæðum við æskuheimilið Birkihlíð þetta árið.
Ég hóf leik með nokkrum æskumyndaljóðum og tveimur frumsömdum lögum, þá tók Óliver Logi systursonur minn við með þremur frumsömdum rapplögum og svo sungum við Amalía saman tvö lög og fengum hina fjölmörgu gesti til að syngja með okkur. Þá var komið að Loga bróður með gamanmál áður en bílddælskir söngvasveinar, og ég með, sungu nokkur bílddælsk lög. Þá færðist nú heldur fjör í leikinn og enn meir þegar nokkrir Fjallabræður drösluðu píanóinu úr stofunni og út á pall þar sem leikið var og sungið af hjartans list við undirleik Halldórs Gunnars. Stundin endaði með því að Logi bróðir klifraði upp á píanóið og söng All of me í anda Megasar og þá áttu margir erfitt með sig. Eftirminnilegt!
![]() |
- 1