Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2025 September

23.09.2025 18:49

Ameríka, Reykjavík, Danmörk

Vikan 3. - 9 . ágúst var ljúf og eitt og annað gert. Skrýtið þó að vera ekki heima á Siglufirði þessa helgi, verslunarmannahelgina, þegar Síldarævintýri er í gangi. Ég bjargaði því líklega frá glötun árið 2019 þegar það hafði ekki verið haldið í 2 ár og ýmsir, m.a. bæjaryfirvöld vildu það út af borðinu. En mér rann blóðið til skyldunnar og talaði fyrir hugmynd að nýrri nálgun á ævintýrið og fékk til liðs við mig kappa sem voru til í að láta slag standa. Úr varð þetta fína Síldarævintýri sem bæjarbúar tóku virkan þátt í og haldnir voru um 40 viðburðir frá fimmtudegi til sunnudags. Hef svo verið í stýrihópi ævintýrisins síðan og tók þátt í undirbúningi og uppgjöri í ár en var ekki við framkvæmdina sjálfa. Það var undarleg tilfinning, en engin eftirsjá, og líklega fyrsta Síldarævintýrið í 30 ár þar sem ég er ekki heima og hef komið fram rúmlega 100 sinnum í heildina á þessum ævintýrum. En nóg um það.

Vikan hófst úti í Minneapolis í Ameríkunni þar sem ævintýrin héldu áfram. Héldum upp á afmæli Orra tengdasonar á sunnudeginum og við Stína tókum að okkur að líta eftir barnabörnunum svo turtildúfurnar gætu farið út að borða í tilefni dagsins. Næstu dagar einkenndust svo af ýmiskonar æðislegri samveru þar sem var verið að leika og sprikla, versla og fara út að borða að ógleymdri heimsókn í Mall of America.

Svo var bara allt í einu komið að heimferð. Flogið heim til Ísalands og hittum þar fyrir elsku Amalíu dóttur okkar sem var á leiðinni í lýðháskóla í Danmörku. Skutluðum henni út á Keflavíkurvöll rúmum sólarhring eftir að við lentum þar og sáum á eftir henni á vit ævintýranna. Já, mikið um ævintýri hjá fjölskyldunni!

 

22.09.2025 14:18

Ameríka og þriðji sextugs fagnaðurinn

Vikan 27. júlí - 2. ágúst var sannarlega viðburðarík og eftirminnileg. Rennt var til Reykjavíkur á sunnudegi og dvalið þar fram á þriðjudag. Hittum þar pabba sem var kominn að vestan til að skipta um bil, Kristínu systur og Nonna og svo Pálu dóttur mína, Þóru og Fíu nýstúdent og fórum út að borða með þeim í tilefni áfangans. 

Svo var komið að stóru stundinni að heimsækja Ameríku í fyrsta sinn. Flugum út með Hrefnu og hennar fjölskyldu, sem er nú búsett í Minneapolis, og ferðalagið gekk að óskum. Næstu dagar voru afskaplega ljúfir fjölskyldudagar þar sem við skoðuðum nágrennið, fengum okkur gott að borða, lékum okkur í saman í ýmiskonar leikjum og íþróttum og skemmtum okkur vel. Föstudagurinn var sérlega eftirminnilegur en þá höfðu Hrefna og co skipulagt afmælisfögnuð fyrir mig vegna 60 áranna í desember. Byrjuðum á hádegishlaðborði á glæsilegum golfvelli og svo var farið í siglingu um fallegt vatn í nágrennninu þar sem við syntum, sulluðum, vorum dregin um á blöðru og fengum okkur gott að borða. Þriðja sinn sem haldið er upp á 60 árin! 

 

14.09.2025 15:55

Ævintýravika, söngur og fjör

Vikan 20. - 26. júlí var Ævintýravika í orðsins fyllstu merkingu því þá var ég með seinni Ævintýraviku Umf Glóa á Siglufirði þetta sumarið. Eins og komið hefur fram í fyrri færslum var ég í hópi stofnenda félagsins árið 1994 og hef þjálfað hjá því síðan og formennsku hef ég gegnt síðan 1995, eða í 30 ár. Ævintýravikan var vel sótt af hressum ungmennum og ýmislegt skemmtilegt brallað að veju eins og t.d. að fara í fjöruna, skógræktina og á söfn. Einnig var farið í leiki, þrautir og fjallgöngu. Allt til að efla ungviðið, auka víðsýni og kynni af nærsamfélaginu.

Laugardagurinn var svo helgaður tónlistinni. Við Stulli sungum og spiluðum á frábærum Trilludegi á Siglufirði, lékum þá lög sem allir þekkja og geta sungið með í rúmar 4 klukkustundir á smábátabryggjunni á Sigló meðan gestir sigldu út á fjörðinn og sóttu fisk á grillið sem Kiwanismenn sáu um. Mikill mannfjöldi og veðrið lék við okkur að mestu.

Að lokinni gleðinni á bryggjunni var pakkað niður og haldið upp í Skagafjörð þar sem við lékum og sungum áfram í 4 klukkustundir til viðbótar á eldhressri árshátíð sem fór fram í hátíðartjaldi og tóku Skagfirðingarnir hressilega undir í söngnum. Það var gott að leggjast á koddann þegar heim var komið.

 
 

 

   

13.09.2025 19:10

Hjólaævintýri, Ljóðasetur og lax

Vikan 13. - 19. júlí var að mestu helguð rekstri og umsjón Ljóðaseturs Íslands, sem ég stofnaði árið 2011 og hef rekið síðan. Komið var að málningarvinnu utanhúss eina ferðina enn á þessu um 100 ára gamla steinhúsi. Fóru allnokkrir klukkutímar í að skafa og mála og svo var setrið einnig opið fyrir gesti og gangandi sem vildu forvitnast um þennan merka arf okkar ljóðlistina. Setrið vel sótt og ég tók upp gítarinn og flutti gestum eigin lög við ljóð ýmissa skálda tvisvar sinnum þessa daga. 

Um miðja vikuna skelltum við Stína okkur í skemmtilegt ævintýri; hjóluðum inn í Fljót og gistum á sveitahótelinu Sóta. Vorum um 2,5 klst. á leiðinni, ekki á rafmagnshjólum og margar brekkur á leiðinni sem tóku vel í lærin. Þegar komið var í Fljótin var látið líða úr sér í heita pottinum og sundlauginni á Sólgörðum og svo var ljúffeng þriggja rétta máltið áður en lagst var til svefns og svo hjólað heim á leið um hádegi næsta dag. Ljómandi skemmtilegt ævintýri.

Á fimmtudegi brunaði Stína mín svo í Laxárdal í Þingeyjarsýslu þar sem hún var næstu vikuna að vinna í veiðihúsi og hafði bara gaman af meðan ég sinnti ljóðlistinni.

 

 

02.09.2025 21:46

Bílskúrinn og Ljóðasetrið

Vikan 6. - 12. júlí var óvenju einföld og tiltölulega róleg. Fyrri hlutinn fór í að klára að taka bílskúrinn í gegn. Klára að skrapa, mála og sparsla veggi og gólf og koma svo fyrir líkamsræktartækjum svo við Stína getum ræktað kroppana næstu misserin. Leit bara ljómandi vel út þegar verki var lokið á miðvikudegi.

Fimmtudagurinn var fyrsti formlegi opnunardagurinn á Ljóðasetrinu, sem ég stofnaði og rek hér á Siglufirði, þetta sumarið. Ágætis rennerí þar og á laugardeginum vorum við með útimarkað í blíðunni við setrið og fjöldi fólk leit við og keypti varning af ýmsu tagi til styrktar rekstri Ljóðasetursins. 

Svo var að sjálfsögðu unnið við fréttaskrif á ýmsar síður, skráningu af ýmsu tagi og hugað að undirbúningi fyrir Síldarævintýrið 2025. 

 

01.09.2025 20:45

Landsmót, bílskúr og Bíldudals grænar!

Vikan 29. júní -  5. júlí var viðburðarík eins og fyrri vikur sumarsins. Lokadagur Landsmóts 50+, hjá okkur hér í Fjallabyggð, var á sunnudeginum og ég stýrði áfram frjálsíþróttakeppni, sem nú var innanhúss, og svo hinni stórskemmtilegu grein stígvélakasti. Það gekk vel að fá starfsfólk svo ég gat tekið þátt sjálfur og náði mér í 3 gullverðlaun og svo silfur í frumraun í stígvélakastinu. Gaman, gaman og framkvæmd mótsins í heild gekk að óskum. Næstu tveir dagar fóru svo í frágang á velli og búnaði og skráningu úrslita.

Þá var tekið til hendinni í bílskúrnum, penslar og rúlla á loft og veggi og skrapa gólf, áður en lagt var í hann vestur á firði á fimmtudeginum því bæjarhátíðin okkar Bílddælinga, Bíldudals grænar ..., var yfirvofandi og þá lætur maður sig nú ekki vanta. Við hjónin brunuðum vestur og Amalía, yngsta dóttir okkar með. Hittum þar fyrir ættingja og vini í stórum bunkum á frábærri, fjölbreyttri og fjölmennri hátíð sem fór mjög vel fram. Kom aðeins fram á einum viðburði á hátíðinni að þessu sinni en þó í þremur atriðum. Þetta var liðurinn Í túninu heima sem náði nýjum hæðum við æskuheimilið Birkihlíð þetta árið.

Ég hóf leik með nokkrum æskumyndaljóðum og tveimur frumsömdum lögum, þá tók Óliver Logi systursonur minn við með þremur frumsömdum rapplögum og svo sungum við Amalía saman tvö lög og fengum hina fjölmörgu gesti til að syngja með okkur. Þá var komið að Loga bróður með gamanmál áður en bílddælskir söngvasveinar, og ég með, sungu nokkur bílddælsk lög. Þá færðist nú heldur fjör í leikinn og enn meir þegar nokkrir Fjallabræður drösluðu píanóinu úr stofunni og út á pall þar sem leikið var og sungið af hjartans list við undirleik Halldórs Gunnars. Stundin endaði með því að Logi bróðir klifraði upp á píanóið og söng All of me í anda Megasar og þá áttu margir erfitt með sig. Eftirminnilegt! 

 

 

  • 1
Flettingar í dag: 304
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 186656
Samtals gestir: 33963
Tölur uppfærðar: 18.10.2025 13:38:35