Færslur: 2025 Október
30.10.2025 17:50
Fjölskyldan í fyrirrúmi
Vikan 7. - 13. september hófst með því að við Stína brunuðum að sunnan og norður á Sigló á sunnudeginum. Svo tók við hefðbundin kennsluvika og daglegt líf í bland við smá fréttaskrif, garðvinnu og annað stúss. Á föstudeginum brunuðum við nokkur úr Menntaskólanum á Tröllaskaga á Sauðárkrók og kynntum okkur starfið á starfsbraut skólans, ánægjuleg og fróðleg heimsókn.
Seinni part föstudags kom Patrekur sonur okkar frá Akureyri og við svifum í að setja upp sturtuklefa í íbúðinni hans hér á Sigló svo hún yrði sölu/leigu vænni. Tengdapabbi betri en enginn í að koma öllu heim og saman. Patrekur gisti og daginn eftir kom svo Elín Helga okkar og Dabbi hennar einnig og grillað var ofan í mannskapinn. Góð fjölskyldustund. - Mynd: Patrekur
![]() |
28.10.2025 16:29
Ljóð, kastþraut og nýtt félagsheimili
Fyrsta vikan í september var heldur tíðindaríkari en sú síðasta í ágúst. Hófst með rólegum sunnudegi og svo kennslu í MTR fram að föstudegi, einnig unnið að fréttaskrifum og ýmiskonar skráningu að vanda. Heimsótti einnig ljóðaklúbb á dvalarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði á mánudeginum (sjá mynd) og flutti þeim eigin lög við ljóð ýmissa skálda, var það fyrsti viðburðurinn í ljóðahátíðinni Haustglæður sem ég stýri nítjánda árið í röð.
Eftir kennslu á fimmtudegi brunuðum við Stína svo suður. Erindið var aðallega að spila og syngja á dansleik en eitt og annað gert í leiðinni. Á föstudeginum héldum við á Selfoss og gistum næstu tvær nætur hjá Kristínu systur og Nonna. Brá mér á annað frjálsíþróttamót, að þessu sinni Kastþraut Óla Guðmunds, sem ég þjálfaði á sínum tíma, fór það fram á Selfossi. Keppt í 5 kastgreinum og samanlagður árangur réði sætum. Gekk mjög vel í spjótinu, bætti mið þar töluvert frá því vikunni áður og á sem fyrr langbesta árangur Íslendings í mínum aldursflokki með 800gr spjótinu, kúlan fór líka ásættanlega langt, kringlan síður og sleggjukastið og lóðkastið gekk eins og við var að búast í fyrstu tilraun svona á gamals aldri. Mjög skemmtilegt og félagsskapurinn góður.
Dansleikurinn fór svo fram í Goðalandi í Fljótshlíð. Við Stulli kallaðir til yfir þvert landið til að skemmta frábærum hópi og var fjörið allsráðandi. Goðaland félagsheimili nr. 57 sem ég spila í og staður nr. 226 á um 47 ára ferli í músikinni.
![]() |
26.10.2025 15:03
Skóli, rækt og spjót
Vikan 24. - 30. ágúst var frekar tíðindalítil, svei mér þá. Kennsla og skipulag hennar í aðalhlutverki, svona í upphafi skólaárs. Flottir nemendur og gott starf í Menntaskólanum á Tröllaskaga, starfsandi afbragðs góður og verkefnin mín í starfi fjölbreytt. Einmitt eins og ég vil hafa þau. Önnur verkefni vikunnar voru fyrsti fundur nýrrar stjórnar UÍF, Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar, þar sem ég á nú aftur sæti eftir nokkurra ára hlé, að skrifa fréttir á ýmsa miðla sem fyrr og að rækta kroppinn í ræktinni í bílskúrnum.
Svo tók ég mig til og mætti á frjálsíþróttamót á Akureyri og rifjaði upp gamla takta, Landsmót 50+ sem við héldum hér í Fjallabyggð síðasta sumar kveikti neistann til að taka upp þráðinn á því sviði. Ég keppti í kringlu og spjóti og keppt var með hefðbundinni þyngd áhalda, þ.e. 2kg kringlu og 800gr spjóti. Ég náði 6. besta árangri Íslendings frá upphafi í mínum aldursflokki í kringlunni og langbesta árangrinum í spjótinu. Gaman að því!
Á mótinu hitti ég fyrir systursyni mína, þá Nóa og Frosta, sem einnig unnu til verðlauna á mótinu.
![]() |
15.10.2025 14:44
Kennsla hefst og nýtt félagsheimili
Vikan 17. - 23. ágúst leið hratt og eitt og annað gert. Kennsla hófst í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem við hjónin störfum bæði. Þessa önn kenni ég tvo áfanga á starfsbraut, sé um fréttaskrif á heimasíðu skólans, er sérlegur menningarfulltrúi hans og sé um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli, sem sagt í ýmis horn að líta. Stína mín starfar svo sem þroskaþjálfi á starfsbraut. Alltaf gott þegar lífið dettur í rútínu þó frjálsræðið sé auðvitað dásamlegt líka.
Dyttaði að Ljóðasetrinu einn seinni part, var duglegur í bílskúrsræktinni okkar og tók líka eina spjótkastsæfingu, skrifaði 8 fréttir á ýmsa miðla, renndum inn á Akureyri með bílinn í viðgerð og til að hitta börnin okkar þar og versla. Skiptum einnig um tvær rúður hjá okkur í Hafnargötunni, Patrekur smiður, sonur okkar kom og veitti hjálparhönd og helgin endaði svo með því að við Stulli spiluðum á fjörugum dansleik fyrir hressan hóp húsbílaeigenda og var hann í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsýslunni, fyrsta skipti sem ég kem fram í því félagsheimili. Alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum.
![]() |
09.10.2025 08:54
Heim, í skólann og út í Hrísey
Vikan 10. - 16. ágúst var svona í rólegri kantinum. Keyrðum heim á Sigló á sunnudeginum og næstu dagar fóru í að ná áttum eftir Ameríkuferðina, sinna garðvinnu, undirbúa sig fyrir haustönnina í Menntaskólanum á Tröllaskaga, þar sem ég kenni, og ýmsum hugðarefnum öðrum. Svo var bara allt í einu komið að því að skólastarf hæfist að nýju. Tveir vinnudagar í MTR í lok vikunnar þar sem allt starfsfólk mætti til skrafs og ráðagerða og lagði línurnar fyrir veturinn.
Að loknum skólapælingum á föstudeginum var brunað með honum Stulla inn á Ársskógsströnd og þaðan siglt út í Hrísey þar sem við lékum fyrir dansi um kvöldið á skemmtilegri danshátíð sem þar var haldin þessa helgi. Frábær hópur að spila fyrir sem dansaði frá fyrsta tóni til þess síðasta. Tókum líka nokkur lög með Rúnari Þór Péturssyni sem var með tónleika áður en við byrjuðum að spila og lukkaðist það ljómandi vel. Dansleikir helgarinnar fóru fram í hinu sögufræga félagsheimili Sæborg þar sem Lilla, amma hennar Stínu minnar, kom í heiminn árið 1927!
![]() |
- 1





