Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2025 Desember

30.12.2025 12:53

Jólasöngur, safnafólk og ljóðagerð

Fyrstu tvær vikur desember voru annansamar og skemmtilegar. Allt á fullu hjá okkur í Karlakór Fjallabyggðar við að undirbúa jólatónleika sem voru þann 11. des í Siglufjarðarkirkju. Fimm æfingar þessa 10 daga áður en að tónleikunum kom svo allt small þetta vel saman þegar á hólminn var komið. Fengum kvennakórinn Hytturnar með okkur, stofnaður í haust, svo úr urðu hátíðlegir og skemmtilegir jólatónleikar og aðsóknin frábær.

Við Stína renndum inn á Akureyri og sóttum bráðskemmtilegan hausthitting safnafólks á Norðurlandi eystra. Byrjað í Minjasafninu og svo haldið í Flugsafnið, gott spjall, skemmtilegt hópefli, sögustundir og góður matur auk áhugaverðra safngripa og samstarfsaðila. Sat einnig fund hjá stjórn UÍF, Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar.

Í ljóðadeildinni voru nokkur verkefni. Heimsótti 1. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og flutti nemendum Æskumyndir mínar með myndastuðningi að vestan og svo komu nemendur 8. - 10. bekkjar í heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga til að taka þátt í hinni árlegu ljóðasamkeppni ljóðahátíðarinnar Haustglæður. Þar var ég búinn að stilla upp málverkum eftir nemendur MTR og grunnskólanemarnir notuðu þau sem kveikjur að ljóðum eftir að ég hafði gefið þeim góð ráð í ljóðasmíðinni. Hver bekkur stoppaði í s.s. 45 mínútur og úr urðu 70 ljóð sem dómnefnd fer svo yfir og þau bestu verða verðlaunuðu. Endapunkturinn í ljóðamálunum var að fylgjast með rafrænni úthlutunarhátíð þar sem fjármagni úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra var úthlutað og fékk Ljóðasetrið þar 1.7 milljón til rekstarins á næsta ári. Frábærar fréttir og hæsti rekstarstyrkur sem setrið hefur fengið í gegnum þessa áætlun. 

Í skólamálunum var einnig nóg um að vera. Annasamir síðustu kennsludagar annarinnar, þó veður hafi sett nokkuð strik í reikninginn, síðasti kennsludagur var 11. desember og við tók námsmat næstu daga og glæsileg sýning á verkum nemenda var svo laugardaginn 13. des. Var hún vel sótt. Einnig fór starfsfólk skólans saman á jólahlaðborð.

Endapunkturinn á seinni vikunni var laufabrauðsgerð og kleinubakstur heima hjá okkur á Hafnargötunni með Elínu Helgu dóttur okkar og tengdamömmu. Skemmtileg samverustund.

 
 
 

27.12.2025 13:41

Halló Akureyri

Vikurnar 16. - 29. nóvember voru skemmtilegar, tónlistin allsráðandi og mikið verið inn á Akureyri vegna hennar og til að hitta börnin. Hefðbundin kennsla í Menntaskólanum á Tröllaskaga báðar vikurnar, æfingar með Karlakór Fjallabyggðar á mánudögum og með Stulla spilafélaga mínum á föstudögum og svo skrifaðar fréttir á ýmsa miðla flesta daga. 

Við Stulli spiluðum inn á Akureyri báðar vikurnar; í þeirri fyrri á balli hjá 60+, einu sinni sem oftar, mikið fjör þar að vanda og í seinni vikunni í þrítugsafmæli og þar ver heilmikið fjör líka. Í seinni vikunni skelltum við í Jólatríó í MTR, ég og tveir nemendur, og spiluðum jólalög í einu hádeginu fyrir nemendur og starfsfólk.

Frúin átti afmæli í seinni vikunni og áttum við góðar stundir með börnunum okkar inn á Akureyri í tilefni þess, fórum út að borða og gistum. Fórum einnig á jólahlaðborð á Kaffi Rauðku á Sigló með Síldarævintýristeyminu þar sem mér voru þökkuð góð störf þar sem ég hef ákveðið að láta gott heita með að koma að undirbúningi og skipulagi þeirrar hátíðar. Mun þó nokkuð örugglega koma fram á hátíðinni nokkur ár í viðbót. Rifjaði það upp í einhverri færslu hér að ég hef komið fram á 20 Síldarævintýrum alls rúmlega 100 sinnum. 

 

 

 

17.12.2025 10:47

Dansiball, ljóð og höfuðborg norðursins

Vikurnar 2. - 15. nóvember voru þéttar af ævintýrum og fjöri, svei mér þá. Hefðbundnar vinnuvikur í Menntaskólanum á Tröllaskaga, ef svo má að orði komast því enginn dagur er jú eins í kennslunni, en allt gengur vel hjá okkur á þessum líflega og frjóa vinnustað þar sem nemendur sem starfsfólk er alltaf að læra eitthvað nýtt. 

Í fyrri vikunni tók ég á móti nemendum úr 2. og 3. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar á Ljóðasetrinu og fræddi þá um íslenska ljóðlist og nokkur ljóða- og tóndæmi fylgdu með. Flottir krakkar og áhugasamir sem allir voru leystir út með bókagjöf til að ýta undir lestur. Voru þessar heimsóknir liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem ég stýri nú 19. árið í röð. Að lokinni kennslu á fimmtudegi renndum við Stína svo til Reykjavíkur þar sem við Stulli spiluðum fyrir dansi á sprellfjörugu balli hjá Félagi harmonikkuunnenda og á laugardagskvöldinu vorum við í skemmtilegu matarboði hjá vinafólki okkar. Svo var verslað í borginni og heilsað upp á afkomendur og ættingja.

Að lokinni kennslu seinni vikuna var brunað á Akureyri þar sem við komum okkur fyrir í herbergi hjá Patreki syni okkar sem leigir íbúð þar. Verður það athvarf okkar í höfuðborg norðursins næstu mánuðina þar sem dvalartími okkar þar er sífellt að lengjast. Stafar það af því að börnin okkar Stínu eru nú öll búsett þar og verkefnum mínum í ljóða- og tónlistardeildinni hefur einnig fjölgað töluvert á þeim slóðum seinustu árin. Áttum þar góðar fjölskyldustundir og aðrar, kannski ekki alveg eins ánægjulegar, í verslunum; byrjað að huga að jólagjöfum og slíku. 

Í ritunardeildinni var einnig eitthvað að gera. Skrifaði nokkrar blaðsíður í handritið að sögu íþróttalífs í Arnarfirði, skemmtilegt grúsk og ýmislegt áhugavert sem kemur upp úr dúrnum, svo var fréttavaktin á sínum stað varðandi íþrótta- og skólamál. 

Á myndinni má sjá nemendur 2. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar með bækurnar að lokinni heimsókn á Ljóðasetrið

 

      

14.12.2025 12:40

Ljóðasetur, söngur og félagsmál

Vikurnar 19. okt. - 1. nóv. voru nokkuð hefðbundnar þannig séð. Sinna vinnunni í Menntaskólanum á Tröllaskaga og svo ýmsum verkefnum á menningar- og félagsmálahliðinni. Ljóðasetrið nokkuð tímafrekt fyrri vikuna þ.s. ég var að vinna að stórri umsókn um rekstrarstyrk og svo kom skemmtilegur hópur Veraldarvina í heimsókn og fékk fræðslu um íslenska ljóðlist og einhverja skemmtun með. Sat einnig formannafund félaga innan Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar þessa viku og gerði grein fyrir ferð okkar hjóna á Sambandsþing UMFÍ sem við sátum fyrir hönd UÍF í Stykkishólmi.

Tónlistin á sínum stað að venju; æfingar með Karlakór Fjallabyggðar á mánudögum og á föstudögum með Stulla spilafélaga mínum. Við Stulli skemmtum á grillkvöldi eldri borgara í Fjallabyggð sem haldið var í Tjarnarborg á Ólafsfirði. Ég flutti nokkrar vísur og limrur meðan á borðhaldi stóð, við Stulli stýrðum fjöldasöng og lékum svo fyrir dansi.

Eitthvað var skrifað að venju; fréttir á síður UÍF, Ljóðasetursins og mína eigin á fésbókinni og einnig á heimasíðu MTR og í héraðsfréttablaðið Helluna, samtals 14 fréttir. Svo dustaði ég rykið af handriti um íþróttalíf í Arnarfirði sem ég var kominn ágætlega af stað með fyrir nokkru og ætla nú að setja endurnýjaðan kraft í að klára og stefni að bókarútgáfu árið 2027.

 
 

 

07.12.2025 14:00

Hatursorðræða, Umfþing og ljóðasýsl

Vikurnar 5. - 18. okt. voru annasamar og land lagt undir fót. Í skólanum þar sem ég kenni, Menntaskólanum á Tröllaskaga, var svokölluð miðannarvika dagana 6. - 10. okt. þar sem hefðbundin kennsla er sett til hliðar meðan kennarar vinna að námsmati og nemendur sinna öðrum verkefnum. Að þessu sinni tókum við að okkur þrír kennarar að búa til og kenna vikuáfanga um hatursorðræðu, ekki vanþörf á á þessum síðustu og verstu. Nemendur stóðu sig frábærlega þessa viku og skiluðu innhaldsríkum og metnaðarfullum úrlausnum um þetta samfélagsmein sem hatursorðræða er.

Á fimmtudeginum heimsótti ég vinnustofu Sjálfsbjargar á Siglufirði og flutti þeim góða hópi sem þar var nokkur ljóð og lög við góðar undirtektir. Að lokinni kennslu á föstudegi var svo brunað í Stykkishólm þar sem við hjónin sátum Sambandsþing Ungmennafélags Íslands sem fulltrúar Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar. Þetta var nokkuð átakaþing þar sem deilt var um skiptingu lottótekna en önnur mál leyst í bróðerni. Alltaf gaman að hitta félaga úr hreyfingunni og rifja upp góðar stundir á keppnisvellinum sem og úr starfinu. Svo var brunað heim aftur á sunnudegi og við tók ný hefðbundin kennsluvika.

Fimmtudaginn 16. okt. var svo haldið til Akureyrar þar sem ég tók þátt í skemmtilegu ljóðakvöldi á fimmtudagskvöldinu og næstu tveir dagar voru nýttir inn á Akureyri til að vera með afkomendum, versla og vinna. 

Að auki voru þessr tvær vikur hefðbundnar vikulegar æfingar með Karlakór Fjallabyggðar og svo með Stulla spilafélaga mínum. Skrifaðar á annan tug frétta á ýmsar síður og eitthvað var reynt að rækta kroppinn. 

Myndin er frá ljóðakvöldi á Akureyri

 
  • 1
Flettingar í dag: 19
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 371
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 217289
Samtals gestir: 35245
Tölur uppfærðar: 19.1.2026 03:50:40