Bíldudalur
Bíldudalur stendur við Bíldudalsvog í Arnarfirði sem er stærstur fjarða á Vestfjörðum. Þorpið stendur við rætur Bíldudalsfjalls.
Nýleg mynd af Bíldudal tekin ofan af Otradalsfjalli (Byltu).
Fjallið
Fjallið
gnæfir yfir
þorpinu okkar.
Það teygir sig
alveg upp í himinn.
Það veitir okkur skjól
fyrir vindinum
en það felur líka sólina
á kvöldin.
Ég man
hvað ég var hissa
þegar ég fór fyrst
upp á topp
og sá að fjallið
var flatt að ofan.
Þar var hægt
að koma fyrir
mörgum fótboltavöllum.
Ég var búinn að ímynda mér
að ég þyrfti
að dansa línudans
á brúninni.
Ekki er allt sem sýnist.
(Æskumyndir ÞH)
Sagan
Bíldudalur er í landnámi Ketils Þorbjarnarsonar ilbreiðs sem sagur er hafa numið Arnarfjarðardali frá Kópanesi til Dufansdals. Ketill dvaldi þó ekki lengi í Arnarfjarðardölum en skildi eftir sig nafnið Ketildalir sem eru dalirnir utan við Bíldudal.
Fátt er vitað um upphaf byggðar í Bíldudal en í gömlum heimildum er getið um tvær eyrar í Arnarfirði þar sem búskapur er: Hrafnseyri og Bíldudalseyri.
Kirkja virðist ekki hafa verið í Bíldudal en í kaþólskri tíð mun þar hafa verið bænahús. Hálfkirkja er þar á 14. öld en hún er lögð niður um 1670. Alkirkja Bílddælinga var í Otradal allt fram á tuttugustu öld að ný og glæsileg kirkja var reist á Bíldudal.
Bíldudalskirkja var vígð árið 1906
Frá einokunartímanum (1602-1787) er saga Bíldudalseyrar nátengd verslunarsögu Íslands þar sem Bíldudalur er ein þeirra hafna og kauptúna sem sigla skildi á og stunda verslun. Verslunarsvæðum var þá þannig skipt að til Bíldudals áttu menn að sækja verslun frá Þorskafjarðarbotni að Haga á Barðaströnd og að Langanesi í Arnarfirði að norðan og úr Suðurfjörðum og Ketildölum.
Eftir að einokunarverslunin leið undir lok varð Ólafur Þórðarson Thorlacius á Bíldudal einn þekktasti og umsvifamesti athafnamaður landsins í verslun, útgerð og fiskvinnslu. Hann hóf þilskipaútgerð og sigldi með saltfisk beint til Spánar á flutningaskipi sínu Bildahl.
Frá 1. apríl 1885 var Íslendingum frjálst að stunda verslun að hentugleika. Á þessu tímabili kemur á ný fram mikilvirkur athafnamaður á landsvísu á Bíldudal. Það var Pétur Jens Thorsteinsson sem kaupir eignir Bíldudalsverslunar árið 1879. Þegar Pétur kom til Bíldudals voru þar fá hús. En 1899 voru risin þar 22 íbúðarhús auk 13 annarra húsa og mannvirkja í kringum rekstur Péturs. Um aldamótin voru 20 skip gerð út til fiskveiða frá Bíldudal og auk þess leiguskip til millilandaferða. Atvinna var geysimikil og menn komu hvaðanæfa af landinu í atvinnu og sumir ílengdust. Verkaður saltfiskur frá Bíldudal naut þá mikils álits meðal neytenda í fjarlægum löndum. Aukin umsvif kölluðu á mikinn mannafla. Árið 1891 eru íbúar taldir 73 en ellefu árum síðar eru þeir orðnir 285.
Pétur J. Thorsteinsson var giftur Ásthildi Thoroddssen (systir Theodóru Thoroddssen skáldkonu) og meðal barna þeirra var listmálarinn Guðmundur Thorsteinsson (Muggur) Á Bíldudal er minnisvarði um þau hjónin sem og um Mugg.
Pétur og Ásthildur
Þau standa þarna gömlu hjónin
og fylgjast með lífinu í bænum.
Þetta er bærinn þeirra.
Þau muna tímana tvenna
og fátt kemur þeim á óvart lengur.
Þeim finnst það þó synd
hvernig komið er
fyrir þorpinu þeirra.
Draumar þeirra og væntingar
voru stærri.
En þau eru stolt
af börnum bæjarins,
þetta eru þeirra börn,
og frúin lætur sér vel líka
þó togað sé í flétturnar hennar
og herran kærir sig kollóttann
þó ungur drengur fái sér sæti
á höfði hans.
(Æskumyndir ÞH)
Pétur gaf út sína eigin mynt. 500 peningur gegn vörum í verslun P. J. Thorsteinssonar
Á þessum árum var kirkjan byggð eins og áður segir, nýtt barnaskólahús var tekið í notkun, byggð var ný bryggja, reist var bakarí ásamt fleiri verslunarhúsum, læknisembætti var stofnsett og svo má áfram telja.
Hér má sjá kirkjuna og við hlið hennar barnaskólahúsið sem Pétur lét reisa
Menningin gleymdist heldur ekki og leiklist var fljótt í hávegum höfð á Bíldudal. Leikrit voru fyrst flutt veturinn 1894-1895 í svonefndu bryggjuhúsi en um aldamótin var reist stórt og glæsilegt samkomuhús fyrir leiksýningar og aðrar skemmtanir, bókasafni var einnig komið á legg og Pétur keypti prentsmiðju til Bíldudals og fékk skáldið Þorstein Erlingsson á staðinn til að ritstýra blaðinu Arnfirðingi. Góðtemplarar störfuðu og málfundafélagið Bíldur stóð fyrir mörgum framfaramálum svo eitthvað sé nefnt.
Leiklistin
Leiklistin
er í loftinu.
Leiklistin
er í blóðinu.
Fullorðna fólkið
lætur ævintýrin gerast
í Baldurshaga.
Okkar ævintýri
verða til í hjöllum og skúrum,
í skólanum og afmælum.
Það læra börnin
sem fyrir þeim er haft.
(Æskumyndir ÞH)
Árið 1903 flytur Pétur Thorsteinsson frá Bíldudal til Danmerkur og árið 1905 selur hann Hannesi Bjarnasyni Stephensen (langafa síðueigenda), verslunarstjóra sínum, hlut í versluninni. Árið 1907 stofnaði Pétur ásamt Thor Jensen og dönskum aðilum svokallað Milljónafélag og lagði hann til þess hlut sinn í Bíldudalseignum. Milljónafélagið hafði nokkur umsvif á Bíldudal, gerði þar m.a. út tvo togara og reisti stórt fiskþvottahús en í það var dælt sjó með vélarafli. Fljótt bar þó á samdrætti á Bíldudal og um áramótin 1913-1914 hætti Milljónafélagið starfsemi sinni þar. Þá keyptu þeir Reykhólabræður Hannes B. Stephensen og Þórður Bjarnason Bíldudalseignir og ráku verslun og útgerð með töluverðum blóma til ársins 1925.
En á Bíldudal, eins og svo mörgum örðum stöðum á landsbyggðinni, hafa skipts á skin og skúri og árin 1915-1935 einkenndust af versnandi lífsafkomu. Afturkippur og stöðnun voru í atvinnulífi, mannvirki gengu úr sér, íshúsið var ekki starfrækt árum saman og aðalhús gömlu verslunarinnar brunnu 16. desember 1929. Brann þar verslunarhúsið, hið stóra íbúðarhús er Thorsteinsson lét byggja ásamt svokallaðri Gömlu búð - um 800 fm svæði.
Bjargráðafélag Arnfirðinga tók við eftir 1925 en verslunarstjóri þess var Ágúst Sigurðsson. Ágúst kaupir síðan Bíldudalseigir árið 1930 og rak verslun til 1938.
Þrátt fyrir erfiðleika og versnandi efnahag var ráðist í það stórvirki að virkja Hnúksá í Bíldudal. Árið 1918 er gangsett 50 kw rafstöð sem þótti stór á sínum tíma. Rafstöðin í Bíldudal er þriðja elsta almenningsveitan á Íslandi.
Aðalrafall Rafstöðvarinnar í Bíldudal og
stöðvarstjóri Hrómundur Sigurðsson um 1920-1930
Árið 1936 ræðst sveitarfélagið í að reisa og reka hraðfrystihús og tveim árum síðar var kaupfélag stofnað.
Árið 1938 kaupir Gísli Jónsson (1889-1970) alþingismaður Bíldudalseignir og átti staðinn þar til 1953 er hann með gjafabréfi afhenti Suðurfjarðahreppi lóðir þær og lendur er þá voru enn óseldar. Gísli rak verslun og útgerð á Bíldudal fram á miðjan fimmta áratuginn. Á þeim tíma reisti hann og rak m.a. rækjuvinnslu og fiskimjölsverksmiðju en hann var upphafsmaður Matvælaiðjunnar á Bíldudal sem framleiddi m.a. hinar frægu Bíldudals grænar baunir og Bíldudals handsteiktar kjötbollur.
Þessi ár voru tími endurreisnar og uppbyggingar í sögu Bíldudals en sú endurreisn fékk skjótan og hörmulegan endi með Þormóðsslysinu 18. febrúar 1943. Með vélskipinu Þormóði fórst nær tíundi hver íbúi Bíldudals - blómi staðarins.
Á tímabilinu 1950-1970 fór íbúum Bíldudals fækkandi og var það fyrst eftir þann tíma að ástandið fór batnandi með tilkomu nýrra báta og tækja.
Á bryggjunni
Í rökkrinu á veturna
í froststillunni
var gaman
að fara niður á bryggju
og sjá rækjubátana
koma að landi.
Heyra hrópin og köllin
finna lyktina
af pústandi vélunum
og nýveiddri rækjunni.
Hetjur hafsins
með frostbitnar kinnar
landa afla dagsins
og brosa út í annað.
Stór ígulker
pétursskip og smáfiskar
vekja athygli
okkar krakkanna.
Ég hafði alltaf gaman
af undrum náttúrunnar.
(Æskumyndir ÞH)
Fiskvinnslan á Bíldudal starfaði af krafti á sjöunda og áttunda áratugnum og í nokkur ár var skuttogarinn Sölvi Bjarnason gerður út til veiða frá Bíldudal. Nú hin síðari ár hefur landvinnsla á fiski aðallega snúist um söltun og þurrkun og útgerð smábáta er stunduð. Rækjuver hefur starfað með hléum og verslun hefur að mestu snúist um matvöru og helstu nauðsynjar. Nokkur smáfyrirtæki eru starfandi sem leggja upp úr þjónustu og smáiðnaði.
Bíldudalur má í mörgu muna sinn fífil fegri. Þar efldist verslun í krafti náttúrulegra aðstæðna og einokunar sem smám saman fjaraði út eftir því sem frelsi í verslun óx og góðar hafskipahafnir risu vítt um landið. Þá tók við tímabil fiskveiða og fiskverkunar, þéttbýli myndaðist á undraskömmum tíma, lýðurinn var frelsaður úr ánauð bænda, iðnaður komst á laggirnar og skáld sóttu jafnvel til hirðar, tímabil sem byggðist á útgerð og stóð alla 20. öldina en virðist hafa lokið í raun þegar stjórnsýsla landsins batt nýtingu þessarar fornu auðlindar Arnfirðinga og þjóðarinnar að mestu við einstaklinga á nýjan hátt.
Áhugaverðir staðir og náttúran
Í Arnarfirði er mikil náttúrufegurð og margir áhugaverðir staðir að heimsækja
Fyrst ber þó að nefna að á Bíldudal er einstök veðurblíða þar sem staðurinn er í skjóli fyrir veðri og vindum sem leita inn Arnarfjörðinn.
Sumardagur
Einn
af þessum
heitu sumardögum.
Sólin skín skærar hér.
Lognið er kyrrara og
hitinn er meiri en annars staðar.
Við förum fram að Ósi.
Vöðum í ánni,
syndum í hylnum,
veiðum hornsíli,
eltumst við ála og silungsbröndur.
Leggjumst svo
með forugar tærnar
undir kirkjugarðsvegginn
og látum sólina baka okkur.
Njótum þess að vera til
hér og nú.
Fortíðin
er að baki okkar
og framtíðin
er óskrifað blað.
Verður hún
eins og þessi dagur?
(Æskumyndir ÞH)
Selárdalur
Ef keyrt er gegnum Bíldudal og út Arnarfjörðinn að vestanverðu, út í Ketildali, ber margt markvert fyrir sjónir. Ber þar hæst Selárdal sem er ystur Ketildala sem í byggð hafa verið. En á leiðinni út í Selárdal er eitt og annað sem vert er að skoða. Í Hringsdal hafa fundist stórmerkileg kuml frá 10. öld, fyrst sumarið 2006 og aftur sumarið 2007. Í kumlunum hafa t.d. fundist sverð, öxi og skjaldarbóla við hlið beinagrindanna. Næstu ár verður eflaust leitað áfram í Hringsdal því búist er við að fleiri forngripir séu þar fólgnir í jörðu. Uppi eru hugmyndir um að setja þarna upp einhverskonar sýningu á þessum gripum þegar fram líða stundir.
Hér má sjá sverð við hlið eins hugbúans
En þá að Selárdal. Hann er merkur sögustaður og þar hefur margt stórmennið búið.
Seldælir kallaðist ein höfðingjaættanna á Sturlungaöld og var ættin runnin frá Selárdal í Arnarfirði. Seldælir áttu goðorð í Arnarfirði og Dýrafirði. Þekktastur Seldæla var Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri í Arnarfirði (Hrafnseyri).
Kirkja og prestssetur hefur lengst af verið í Selárdal og þótti hann um langan aldur meðal merkustu brauða landsins. Árið 1907 var Selárdalsprestakall lagt niður og Selárdalssókn lögð til Bíldudalsprestakalls.
Núverandi kirkja í Selárdal er reist árið 1861 en á 100 ára afmæli hennar var hún að heita má smíðuð upp að nýju. Í henni eru margir merkir munir.
Meðal þekktra presta sem sátu Selárdal var séra Gísli Jónsson (1515-1587), síðar biskup í Skálholti og einn af frumkvöðlum siðaskiptanna. En kunnastur presta sem setið hafa í Selárdal er séra Páll Björnsson (1621-1706). Hann var einn lærðastur Íslendinga á 17. öld og felstum fjölhæfari. Hann stundaði þó ekki eingöngu prestskap og er hann talinn brautryðjandi á sviði fiskveiða því hann var fyrstur Íslendinga til að stunda fiskveiðar af þilskipi og því merkur maður í atvinnusögu landsins. Þrátt fyrir lærdóm sinn og hagnýta þekkingu var séra Páll barn síns tíma og trúði á galdra og galdraásóknir. Kom þar til, meðal annars, að kona hans var haldin langvinnri taugaveiklun og geðbilun sem kennt var göldrum. Voru alls fimm manns brenndir til bana í Selárdal vegna mála sem af þessu spunnust.
Í Selárdal er fæddur Jón Þorláksson (1744-1819), oftast kenndur við Bægisá, eitthvert merkasta skáld 18. aldar. Faðir hans séra Þorlákur Guðmundsson sat Selárdal.
Hannibal Valdimarsson (1903-1991) alþingismaður og ráðherra bjó í Selárdal og rak búskap þar um árabil. En hann ólst upp í Bakkadal í Arnarfirði.
Í Brautarholti í Selárdal bjó Samúel Jónsson (1884-1969) oft nefndur listamaðurinn með barnshjartað. Hann var sérstæður listamaður og í Brautarholti standa hin stórmerkilegu verk hans, höggmyndir og byggingar. Lítið hefur verið hugað að viðhaldi þessara merku verka í tímans rás og um tíma leit úr fyrir að verkin eyðilegðust en undanfarin ár hefur verið unnið að varðveislu þeirra og þau færð í upprunalegt horf.
Unnið að viðgerðum á byggingum og listaverkum Samúels Jónssonar
Ljónin hans Samúels í Selárdal
Gísli Gíslason á Uppsölum í Selárdal varð þjóðkunnur eftir heimsóknir Ómars Ragnarssonar til hans í þáttunum Stiklur þar sem kom fram að Gísli hafði lifað og starfað mest alla 20. öldina án þess að nýta sér þægindi eins og rafmagn og vinnuvélar. Tilsvör hans við spurningum Ómars voru á vörum landsmanna næstu mánuði og jafnvel ár.
..og hér er kappinn sjálfur
| ||
|
Dynjandi (Fjallfoss)
Dynjandi er í botni Arnarfjarðar og er að mínu mati einn allra fallegasti foss landsins
Gaman er að ganga upp að fossinum, sjá hann í návígi og heyra drunurnar þá skilur maður betur nafngiftina. En maður verður ósköp smár við þennan tilkomumikla foss þar sem hann fellur niður bergið stall af stalli
Dynjandi er stærsti foss Vestfjarða og fimm minni fossar eru fyrir neðan hann þar til áin nær til sjávar. Einn þeirra heitir Göngumannafoss og er hægt að ganga á bak við hann.