Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Sögur úr skólastofunni

Það er margt skondið sem ratar á blaðið þegar blessuð börnin eru að þreyta próf og stundum verða svörin þannig að ekki er annað hægt en að brosa, eða jafnvel skellihlæja.

Hér á eftir koma nokkur dæmi. Sum þeirra eru úr mínu safni, þ.e. sem ég hef safnað saman hjá nemendum mínum í gegnum tíðina, önnur koma héðan og þaðan.

Líffræði dýranna:

Aðaleinkenni hesta er að vera sífellt á kappreiðum.

Ígulker teljast til skólpdýra. Þau ganga á prjónum.

Mörg dýr eru með heitt blóð, en í öðrum er það frosið.


Líffræði mannsins:

Ýmis svör við spurningum um mannslíkamann:
"Líkaminn er byggður upp af beinum, skini, kjöti, vöðvum og innyflum."
"Hjartað heldur manni lifandi."
"Það eru 136 bein í líkamanum."
"Heilinn þarf súrefni og ef maður kafnar og fær ekki skyndihjálp í langan tíma þá skaddast heilinn."
"Hryggurinn nær frá hálsi til rass og er í stykkjum. Hvert stykki er með loftpúða á milli þeirra til að mýkja högg þegar maður hopar."
"Ef hjartað væri ekki þá gætum við ekki andað því blóðið flytur súrefni."
"Líkaminn er allur í vöðvum ef vöðvarnir eru ekki þá verður líkaminn bara aumur."
"Lúngun dæla blóði í hjartað en hjartað dælir blóði í allan líkamann."
"Lungun dæla blóði í hjartað og hreinsa loftið og bír til blóð."

Spurt var: "Hver er munurinn á skyntaugum og hreyfitaugum?"
Svar: Skyntaugar eru lángar og hreyfast lítið sem ekkert. Hreyfitaugar eru stuttar og hreyfast mikið.

Spurt var: "Hvert er hlutverk hvítra blóðkorna?"
Svar: Hvít blóðkorn springa ef maður sker sig og mynda storknunarefni.

Spurt var: "Hvert er hlutverk táranna?"
Svar: Til að þvo augun og drepa sýkla og andskotahluti.

Spurt var: "Hver eru minsstu bein líkamans?"
Svar: Hamar, sleggja og ístað.

Á prófi í 6. bekk var spurt: "Hvers vegna eru reykingamenn yfirleitt hand- og fótkaldari en þeir sem ekki reykja?"
Svar: Reykingamenn eru með kalt blóð.
Annað svar: Reykingamenn þurfa svo oft að standa úti við reykingar.


Kristinfræði:

Eva fæddist strax á eftir Adam. Því er sagt að Adam hafi ekki verið lengi í París.

Á hvítasunnudag sendi Jesú lærisveinum sínum heilan anda.

Kennari í barnaskóla var eitt sinn að hlýða pilti yfir Faðir vorið. Sjálfsagt hefur stráknum legið mikið á því undir lok bænarinnar mátti heyra hann segja; "eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss í hvelli."

Gideonmenn voru í heimsókn í skólanum og einn þeirra lagði út af orðunum: "Hvernig getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?" Þetta er tilvitnun í Nýja testamentið, sem þeir Gideon menn voru að gefa öllum 5. bekkingum, og var ekki ætlunin að nemendur leggðu þarna eitthvað til málanna. Einn guttinn stóðst þó ekki mátið og sagði: "Með því að reykspóla ekki."


Landafræði:

Á tímum landafundanna miklu urðu miklar framfarir í kortagerð enda þurfti góð kort svo að löndin lentu ekki hvert ofan á öðru.

Hæsta fjall á Íslandi ber nafnið Hvannadalshrúgur.

Spurt var: "Stóra Bretland er konungsríki sem skiptist í fjögur ríki. Hvað heita þau?"
Svar: Stóra Bretland og Litla Bretland.

Spurt var: "Hvað er sérstakt við landshætti í eftirfarandi löndum? A) Holland B) Sviss C) Grikkland"
Svar: Hafa öll mafíur hjá sér.
Svar við B): Ljótustu fólk Evrópu.

Spurt var: "Hvað heita Norðurlöndin og hverjar eru höfuðborgir þeirra?"
Svar: Höfuðborg Færeyja heitir Bonn
Annað svar: Höfuðborg Færeyja heitir Helsinki.

Með þessari spurningu átti að kanna vitneskju nemenda um golfstrauminn. "Af hverju er hlýrra hér á Íslandi en norðlæg lega landsins segir til um?"
Svar: Því veðráttan er svo breitileg.
Annað svar: Bæði fáum við smá skjól frá Grænlandi og við erum líka dálítið nálægt Noregi.
Þriðja svarið: Af því að öll hin Norðurlöndin eru dálítið nálægt hornbaug heimsins þar sem sólin fer ekki oft.
Og það fjórða: Ísland er lengra frá heimskautslöndunum en hin.

Þegar spurt var í hvaða löndum nokkrar borgir væru á prófi í 9. bekk varð þetta m.a. útkoman:

Róm er í Napólí.
Róm er í Grikklandi.
Róm er í Ungverjalandi.
St. Pétursborg er í Finlandi.
St. Pétursborg er í Noregi.
Bonn er í Færeyjum.
Dublin er í Sviss.
Dublin er í Þýskalandi


Samfélagsfræði:

Í ástandinu lögðust íslenskar konur lágt, en þó ekki með öllum.

Helstu hlunnindi í sveitum eru sturta og sjónvarp.

Spurt var: "Um hvað snérust þorskastríðin og hverjir áttust við í þeim?"
Svar: Lofthelgi, Bretar og Ísland.

Spurt var: "Hvaða brögð notaði Hitler til að koma sér og Nasistaflokknum til valda?"
Svar: Heimreið.
Annað svar: Gas og sprengjur.

Á samfélagsfræðiprófi voru nemendur beðnir að lýsa því í grófum dráttum hvernig seinni heimsstyrjöldin gekk fyrir sig. Ein lýsingin var svona: "Gekk bærilega þar til bandamenn tóku sig til og byrjuðu að ráðast á og yfirtaka löndin."

Spurt var: "Hver var helsti munur á lífi fólks vestanmengin og austanmegin við járntjaldið?"
Svar: Vestanmegin allt fátækt og drullugt en austanmegin mjög flott og hreint.

Spurt var: Hvað veistu um þessa menn? C) Winston Churchill
Svar: Hann fann upp Winston sígaretturnar.

Spurt var: "Hvað er sérstakt við fámennasta ríki Evrópu?"
Svar: Það hefur lélegan þjóðsöng.

Við spurningunni Hverjar eru skýringarnar á hinum góðu lífskjörum í Evrópu? Sem var á samfélagsfræði prófi hjá 9. bekk voru ýmis skondin svör t.d. þessi:
"Norðurlandaráð, allir vinir eða flestir, mikil atvinna."
"Góðar avinnuleisisbætur og allskonar bætur."
"Góð sambönd, góð viðskipti."
"Það er svo migið af öllu þar."
"Mikið fólk, mikil atvinna."

Spurt var: "Nefndu dæmi um bættar samgöngur í Evrópu á síðustu árum?"
Svar: Norðurlandaráð og EES
Annað svar: Það er komið t.d. ESB

Spurt var: "Hvaða tungumál eru töluð í eftirfarandi löndum?"
Svar: Sviss - sænska.
Annað svar: Færeyjum - sænska.
Það þriðja og besta: Skotlandi - skoska með enskum slettum.

Í samfélagsfræði í 6. bekk var verið að rifja upp umfjöllun um Snorra Sturluson. Einn drengurinn var spurður hvar Snorri hefði haft aðsetur. Drengurinn greip um höfuð sér og hugsaði stíft. Sagði svo eftir mikla umhugsun: "Það var ekki í Kattholti ...."


Bókmenntir:

Spurt var á bókmenntaprófi í 6. bekk: "Hvað merkir orðið sammæðra?"
Svar: Að nokkrar mæður eigi sama barnið.

Spurt var hvort útlit ákveðinnar bókmenntapersónu væri í samræmi við innrætið á prófi í 9. bekk. Eitt svaranna var svona:
"Nei hann er leiðinlegur að innan en skemmtilegur að utan."


Íslenska:

Grasekkjumaður er ekkill sem þjáist af heymæði.

Í heimanámi í íslensku átti að botna eftirfarandi: Betur sjá augu ..... Faðir var að aðstoða drenginn sinn við heimanámið og stóð það eitthvað í drengnum að botna málsháttinn. En svo allt í einu birti yfir honum og hann sagði: "Betur sjá augu en eyru." En áttaði sig svo á vitleysunni og fór að skellihlæja.


Málfræði:

Spurt var á málfræðiprófi í 5. bekk; "Hvað nefnast íbúar Húnavatnssýslu einu nafni?"
Svar: Sýslumenn.
Annað svar: Húnvettlingar.

Danska:

Hér kemur ein óborganleg þýðing, sem ég veit nú reyndar ekki hvort er sönn, en hún er það góð að ég læt hana flakka.

Þýðið eftirfarandi setningu: "Katten skynte sig og klatrede op í træet."
Þýðing: Kötturinn skeindi sér og klíndi því í tréð.


Enska:

Þýðingar vilja stundum verða svolítið skrautlegar þegar farið er að geta í eyðurnar og stafsetningavillur geta breytt merkingu svo um munar. Hér koma nokkur dæmi:

He dosen´t like garlic, water or the sun. He drinks blood and turns people into bats. He is not a real person.
"Honum líkar ekki við krakka, hvað er sól. Hann drekkur blóð og breiðir yfir fólk. Hann er ekki róleg persóna."

It is in the same family as the whale.
"Þeir eru í sömu fjölskyldu og kvalir."
"Þeir eru í sömu fjölskyldu og við."

Dolphins are very friendly.
"Höfrungar eru mjög ógnvekjandi."

They can live in captivity.
"Þeir geta lifað á landi."

He gazed at the back of her head.
"Hann greip í andlitið á henni."


Sund:

Eitt sinn þegar ég var að kenna sund hjá 5. bekk drengja gaf ég þessi fyrirmæli: "Næst á að synda 10 ferðir þversum."  Drengirnir æddu af stað kappsfullir, allir nema einn.  Hann hímdi við bakkann og horfði á mig spurnaraugum.  Svo spurði hann:  "Tóti, hvernig er þversund?" 


Starfskynningar:

Eftirfarandi lýsing er frásögn af gráslepputúr sem  nemandi í 9. bekk fór í sem starfskynningu. Þessi túr mun líklega seint gleymast og drengurinn varð ekki sjómaður, ég skil ekki alveg af hverju!

"Við lögðum á stað klukkan 7:00 og við komum í land kl. 13:00. First ældi ég svo svaf ég svo ældi ég svo van ég við að blóðga og hreinsaði úr fiskinum svo ældi ég svo vann ég svo ældi ég og svo fórum við í land."


Prentvillupúkinn:

Kennurum geta líka orðið á mistök eins og nemendum. Innsláttavillur geta verið ansi meinlegar.

Hér kemur eitt dæmi frá síðuhöfundi.

Á íþróttafræðiprófi ætlaði ég að biðja nemendur að nefna fjögur dæmi sem sanna það að áfengi og íþróttir eiga ekki saman. En útkoman varð þessi:

"Nefnið fögur dæmi sem sanna það að áfengi og íþróttir eiga ekki saman."

Flettingar í dag: 158
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96321
Samtals gestir: 24414
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:55:54