Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Náttborðið

4. jan ´12   Söknuður - Matthías Johannessen
Ljóðabók Matthíasar númer tuttugu og eitthvað, gefin út af Veröld 2011.
Glæsileg bók hjá Matthíasi. Eins og nafnið gefur til kynna eru ljóð bókarinnar ort til einhvers sem er ekki lengur á meðal vor hér á jörðinni. Fyrir rúmum tveimur árum missti Matthías konu sína og ljóð þessarar bókar eru greinilega ort til hennar. Afskaplega falleg ljóð og bera í sér mikla eftirsjá en líka góðar minningar. Fallegar myndir dregnar upp og ljóðin mynda eina samfellda heild þannig að úr verður heilsteypt verk. * * * *

25.des ´11  Einvígi - Arnaldur Indriðason
Bók sem gefin var út af Forlaginu 2011.
Enn dælir Arnaldur frá sér glæpasögunum. Í þetta sinn er það ekki Erlendur sem er aðalsöguhetjan heldur fyrirrennari hans í starfi, Marion Briem. Sögusviðið er Reykjavík árið 1972, nánar tiltekið þegar "Einvígi aldarinnar" fór þar fram, þ.e. skákeinvígi Fischer og Spasský. Unglingsdrengur finnst myrtur í bíóhúsi í Reykjavík og lögreglan hefur rannsókn. Inn í hana blandast átök og njósnir Sovétmanna og Bandaríkjamanna, framhjáhald, drykkfeldur bíógestur, lífseig vinátta, samskipti rannsókarlögreglumanna og svo að sjálfsögðu skákin sem er yfir og allt um kring. Einnig fáum við að fylgjast með baráttu Marions við veikindi sín í æsku. Öllu þessu stýrir Arnaldur af öryggi og sögusviðið og tíðarandinn er vel dregið upp. En það vantar einhvern neista í þetta. Kannski er maður farinn að gera of miklar væntingar til Arnaldar en mér fannst sagan ekki komast almennilega á flug fyrr en síðustu 100 bls. eða svo. Fram að því var allt svona "ósköp venjulegt". * * *

9. des ´11  Líf - Keith Richard
Sjálfsævisaga þessa mikla rokkara, gefin út af bókaútgáfunni Uglu 2011.
Það er óhætt að segja að þessi saga hafi komið mörgum óvart og hefur setið í efstu sætum metsölulista um allan heim. Það sem kemur kannski mest á óvart er að það er bara þó nokkuð vit í kollinum á þessum kalli, þrátt fyrir lífernið, og það sem kemur kannski meira á óvart er að hann skuli yfirhöfuð muna eitthvað eftir síðustu áratugum! Keith hefur svo sannarlega lifað eftir slagorðinu: Sex, drugs and rock´roll, sem löngum hefur fylgt hinu villta hljómsveitarlífi og eru lýsingar hans í bókinni oft á tíðum ansi skrautlegar.
Það var þó fátt sem benti til frægðar og frama þegar hann var að alast upp á Englandi í fátækt og hörmungum stríðsáranna og árunum sem á eftir fylgdu. Fátækt og fjölskylduvandamál, erfið skólaganga, barsmíðar og vandræði. En þegar hann komst í kynni við gítarinn tók lífið breytingum og eftir það var ekki aftur snúið. Keith rekur upphaf Rolling Stones og fyrstu árin þar sem þeir eru að basla við að öðlast frægð með sínum harða Chicago blús sem svo þróaðist út í þá músik sem hljómsveitin er þekkt fyrir. Hann fjallar um fyrirmyndirnar, átök hljómsveitameðlima, ýmsar músikpælingar, ferðalögin, dópneysluna - sem var yfirgengileg og það voru ekki allir sem lifðu hana af eða komust heilir frá henni, lagasmíðarnar, upptökurnar, tónleikaferðalögin, kvennafarið, ástarsamböndin, samskipti hans og Jaggers o.fl. o.fl. Óvenju hreinskilin bók þar sem engu virðist vera skotið undan. Mjög svo áhugaverð lesning, jafnvel fyrir þá sem hafa engan sérstakan áhuga á Rolling Stones. * * * *

2. des ´11  Saga úr síldarfirði - Örlygur Kristfinnsson
Bók sem kom út árið haustið 2011 og er gefin út af Uppheimum.
Önnur snilldarbók frá vini mínum Örlygi. Sem fyrr er það Siglufjörður, síldin og síldarárin sem eru sögusviðið. Sagan er byggð á sönnum viðburðum og segir frá ferð 12 ára drengs og föður hans á árabát frá Akureyri til Siglufjarðar en þangað eru þeir að flytjast búferlum ásamt öðrum fjölskyldumeðlimum. Fjölskyldan missti af skipinu til Vesturheims og ákvað í staðinn að freista gæfunnar á Siglufirði. Þar hafa menn nýhafið síldveiðar og fjölskyldan verður þátttakandi í því ævintýri. Falleg saga á góðri og kjarnyrtri íslensku þar sem ýmis hugtök sem snúa að sjómennsku skipa stóran sess. Bókin er fagurlega myndskreytt með vatnslitamyndum eftir Örlyg sem lyftir henni á hærra plan. Mjög vönduð útgáfa fyrir börn á öllum aldri og upplagt fyrir kynslóðirnar að lesa þessa bók saman. * * * *  

29.nóv ´11  Vegalínur - Ari Trausti Guðmundsson
12 smásögur sem gefnar voru út árið 2002 af Vöku-Helgafelli. Hlaut bókin bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness það ár. Þetta var frumraun Ara Trausta á sviði sagnalistar.
Aldeilis glæsileg byrjun á sagnaferli höfundar, sem er þekktur fyrir vísindastörf sín, skrif  og þáttagerð um jarðvísindi. Mjög áhugaverðar og vel skrifaðar sögur sem eiga það sammerkt að þær segja frá fólki á ókunnum slóðum sem hittir fyrir áhugavert fólk sem hefur mikil áhrif á ferðalanginn. Ari hefur farið víða og er þekktur fjallagarpur eins og sjá má af ýmsum þessara sagna. Höfundur hefur til að bera góða þekkingu á menningu ýmissa framandi landa og kemur henni vel frá sér. Skemmtileg og fróðleg bók sem veitir innsýn i menningu framandi heima en sýnir samt sem áður að innst inni erum við öll manneskjur með svipaðan kjarna þó litarhátturinn og útlitið sé mismunandi. * * * *

16.nóv ´11  Miðilshendur Einars á Einarsstöðum - Erlingur Davíðsson skráði
Bók sem gefin var út af Skjaldborg 1979.
Í bókinni segja 30 manns frá reynslu sinni af því að leita lækninga hjá Einari, sem án efa er þekktasti læknamiðill seinni tíma á Íslandi. Hann tók á móti fleiri hundruð manns á ári að heimili sínu að Einarsstöðum auk þess að svara beiðnum sem fólk sendi honum skriflega. Hann tók auk þess þátt í lækninasamkomum með ótrúlegum árangri. Hann tók því þátt í að koma að lækningu þúsunda manna á ári hverju í tvo til þrjá áratugi. Lýsingar fólksins eru allar á einn veg og lýsa þeim ótrúlega lækningakrafti sem fór í gegnum Einar þegar hann lagði hendur yfir fólk. Varð fólk albata af ýmsum meinum jafnvel samstundis en stundum tók það nokkra daga. Einar tók aldrei neitt fyrir verk sín og vísaði aldrei neinum frá en lifði af búskap, þó ekki væri mikill friður til að sinna þeim störfum. Eiginkona hans á ekki síður hrós skilið því hún gekk svo um hnútana að Einar gæti sinnt þessari köllun sinni, tóm á móti fjölda gesta á hverjum degi og skipulagði heimsóknir til hans og allt gert án þess að fá eyri fyrir. Ekki var hægt að lifa hefðbundnu heimilislífi við þessar aðstæður en þau voru tilbúin að fórna því til að geta sinnt þeim sem þess þurftu. * * *

8. nóv ´11  Hvað segir þitt hjarta - Þórhallur Guðmundsson miðill
Bók sem Þórhallur skrifar til leiðbeiningar fyrir fólk til að hjálpa þeim að rækta eigin garð, þ.e. í huglægri merkingu. Fjallar hann fyrst og fremst um mikilvægi fyrirgefningarinnar, kærleikann, heilun og hugleiðslu. Ágætis handbók fyrir þá sem spá í hina huglægu hlið lífsins. * * * 

4. nóv ´11  Að handan - Grace Rosher
Undirtitill þessarar bókar, sem fyrst kom út á Íslandi 1968, er Bók um lífið eftir dauðann. Ég las 3. prentun sem kom út hjá Hörpuútgáfunni 1998.
Grace Rosher skrifaði þessa bók en sá sem stýrði pennanum var Gordon Burdick, látinn unnusti Grace og skrifaði hann í gegnum hana. Gekk þetta í mörg ár og urðu margir vitni að því. Voru þau orðin svo þjálfuð í þessum samskitpum að það var nóg fyrir Grace að láta pennann liggja á handarbakinu á sér, með oddinn við blaðið, þá skrifaði hann. Grace gat einnig spurt hann spurninga og hann svaraði. Gordon skrifar að mestu um það hvernig lífið er í nýja landinu og ber honum um margt saman við þær lýsingar sem finna má í Sumarlandinu, sem segir frá hér að neðan. Þó er ekki alveg sama hamingjan yfir öllum því breytni þeirra hér á jörðinni skiptir meira máli en kemur fram í Sumarlandinu.  Áhugaverð bók. * * * 

25.okt ´11  Sumarlandið -Guðmundur Kristinsson
Bók sem gefin var út 2010 og prentuð aftur árið eftir.
Bók sem vakti töluverða athygli og fékk þó nokkra umfjöllun. Í þessari bók má finna frásagnir að handa  sem borist hafa í gegnum transmiðla og Guðmundur hefur skráð. Titillinn vísar til næsta tilverustigs okkar, þar sem alltaf er sumar og allt blómum skrýtt. Fjölmargar frásagnir sem komið hafa í gegnum nokkra miðla en þær eru ótrúlega samhljóma um það sem bíður okkar. Sérstök áhersla er lögð á að fjalla um umskiptin frá þessari jarðvist og þegar við vöknum upp í Sumarlandinu. Það sem mér þótti sérstaklega áhugavert er að við erum áfram þjóð á næsta tilverustigi og getum heimsótt aðrar þjóðir, jafnvel með hugarorkunni einni saman. Einnig kom það á óvart að við erum í líkama þegar við vöknum upp aftur og því eru margir sem eru lengi að átta sig á vistaskiptunum. Listir, tónlist og söngur eru helsta dægradvölin í nýja landinu og starf fólk felst í að hjálpa öðrum. Mjög áhugaverð lesning sem allir haf gaman og gott af að lesa. * * * *

22.okt ´11  Þar sem vegurinn endar - Hrafn Jökulsson
Bók sem gefin var út árið 2007 af bókaútgáfunni Skugga og vakti töluverða athygli og hrifningu.
Á forsíðu segir rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir að lestur þessarar bókar sé sannkallaður yndislestur og þar hittir hún naglan á höfuðið. Bókin er skemmtileg aflestrar, vel skrifuð, áhugaverð, fróðleg, þjóðleg, mannleg og ég held ég megi segja falleg. Grunnurinn að sögunni er sveitadvöl Hrafns í Stóru-Ávík á Ströndum, en þangað fór hann fyrst átta ára gamall, og lífið þarna á heimsenda, þar sem vegurinn endar, er töluvert öðruvísi en í Reykjavíkinni. Skemmtilegar, sannar persónur setja svip sinn á söguna og svo dregur Hrafn inn í frásögnina ýmsan þjóðlegan fróðleik sem gerir hana svo ótrúlega djúpa og fróðlega en samt er húmorinn aldrei langt undan. Tengingar milli nútíðar og þátíðar eru margar og allt sett í svo skemmtilegt samhengi. Svo fáum við einnig að kynnast Hrafni og stöðu hans, gleði og sorgum sem hann fléttar inn í söguna. Ég hafði mjög gaman af lestri þessarar bókar og gat vart lagt hana frá mér fyrr en að lestri loknum. * * * *  

21. okt ´11  Maður sem lánaðist - Hallgrímur Sveinsson tók saman
Lítil bók sem inniheldur "Sitt hvað í kringum Vestfirðinginn Jón Sigurðsson forseta" gefin út af Vestfirska forlaginu árið 2011 í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli þessa merkismanns í íslenskri sögu.
Samtýningur héðan og þaðan sem gefur ágæta mynd af þessum fremsta baráttumanni fyrir sjálfstæði Íslendinga. Fæddur og uppalinn á Hrafnseyri við Arnarfjörð en dvaldi megnið af sinni ævi í Kaupmannahöfn þar sem hann sinnti ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Barðist fyrir sjálfstæði þjóðarinnar öll sín fullorðinsár og var í stöðugum samskiptum við menn bæði á Íslandi og í Danmörku þar sem hann ýtti málum áfram, skref fyrir skref. Höfðinglegur í alla lund með snarpar gáfur. Eða eins og Ásgeir Ásgeirsson fyrrverandi forseti sagði um hann: "Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur." * * * 

 

26.sept´11  Öxin og jörðin - Ólafur Gunnarsson
Þessi sögulega skáldsaga kom út hjá JPVútgáfunni árið 2003 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin það ár sem og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana.
Þetta er mikil saga sem byggir á raunverulegum persónum og atburðum. Síðustu ár Jóns Arasonar og sona hans og um leið síðustu ár kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Fjölmargar persónur koma við sögu og fannst mér stundum dálítið erfitt að henda reiður á þeim en helstu persónur afar vel skapaðar af höfundi. Textinn ljóðrænn á köflum, glæsilegar, stuttar náttúrulýsingar en lýsingar af atburðum minntu mann oft á Íslendingasögurnar; stuttar, hnitmiðaðar lýsingar lausar við málskrúð og tilfinningasemi. Afar vel skrifuð og veitir áhugaverða innsýn í þessa merku atburði í Íslandssögunni. * * * *

22.sept´11  Bankastræti Núll - Einar Már Guðmundsson
Í tilefni af því að Einar Már var aðalgestur á ljóðahátíðinni Glóð 2011, hátíð sem ég skipulegg hér á Siglufirði, þá var ekki annað boðlegt en að lesa nýjasta verk kappans. Bókin kom út hjá Máli og Menningu árið 2011 og vakti mikla athygli og umtal, eins og margt annað sem þessi afbragðs rithöfundur sendir frá sér.
Það er erfitt að lýsa þessari bók Einars í fáum orðum, fólk verður eiginlega bara að lesa hana. Mikil ádeila á það sem gengið hefur á í okkar þjóðfélagi undanfarin ár og það sem er enn í gangi. Hann fjallar um ofurvald fjármálaheimsins, um eldfjöllin, banka og byltingar og setur þetta í svo skemmtilegan búning og skemmtilegt samhengi að unun er að lesa. Ólíklegustu tengingar út og suður; Bítlarnir, Eyjafjallajökull, Guðbergur Bergsson, Rannsóknarskýrsla Alþingis og áfram mætti telja. Skemmtileg lesning með alvarlegan undirtón. Svo var náttúrulega magnað að heyra Einar Má lesa upp úr þessu verki sínu sem öðrum á hátíðinni. * * * *

22.ágú.´11  Flognir fuglar - Hallveig Guðbjört Ingimarsdóttir
Ljóðabók frá henni Höllu sem fædd er og uppalin á Bíldudal, bókin kom út 2011 og hefur að geyma safn ljóða frá ýmsum tímum sem hún hefur sett saman við ýmis tækifæri. Bókina gefur höfundur sjálfur út og er hún tileinkuð þorpinu hennar fyrir vestan.
Það var ánægjulegt að lesa þessa bók og margt vel gert í henni að mér fannst. Hugleiðingar um lífið og tilveruna í mótlæti og meðbyr, ástina, sorgina og margt annað. Það er greinilegt að skáldskapargáfan leynist víða meðal Bílddælinga. * * *

8.ágú. ´11  Andorra - Max Frisch
Leikrit af bestu gerð, frumsýnt í Zurich 1961 og hefur verið sýnt um allan heim síðan, allt fram til dagsins í dag.
Mikil ádeila á gyðingaofsóknirnar og þetta "hlutleysi" sem sumir segjast hafa sýnt í þeim ofsóknum og öðrum álíka "hreinsunum" sem beitt hefur verið af miskunnarleysi allt of víða um heiminn. Það er enginn hlutlaus í svona tilfellum eins og sýnir sig vel í þessu sígilda verki Max Frisch sem m.a. hefur verið sýnt hér á Íslandi, en ég held að það sé nú langt síðan síðast. Las verkið fyrst í þýskuáfanga við Fjölbrautaskólann í Ármúla árið 1981, á þýsku náttúrulega, og bókin hefur fylgt mér síðan. Ég hef lesið hana nokkrum sinnum síðan þá, ætli þetta hafi ekki verið fimmta skiptið. Alltaf jafn góð. * * * *

20.júlí ´11  Bókaþjófurinn - Markuz Zusak
JPV útgáfa gaf út 2008 í snilldarþýðingu Ísaks Harðarsonar en bókin kom upphaflega út 2005.
Ótrúlega vel skrifuð og flott bók, sem leitar sífellt á mann að lestri loknum. Gerist í Þýskalandi á dögum nasimans og seinni heimsstyrjaldarinnar og það er sjálfur dauðinn sem er sögumaður, þó hann hafi varla við að færa sálir til annarra heima. Söguhetjan er Lísella, stúlka sem hefur mikið dálæti á bókum en verður að stela þeim til að eignast þær. Hún býr hjá fósturforeldrum sínum sem eru mjög eftirminnilegar og afgerandi persónur og skemmtilegar andstæður. Allt í kring er ógnin og grimmdin, loftárásir, heimsóknir nasista, dauðinn og eyðileggingin. Við þessar aðstæður reynir fólk að lifa sem eðlilegustu lífi með misjöfnum árangri. Mögnuð lesning, þarf helst að lesa hana tvisvar til að njóta hennar og skilja að fullu. * * * * *

28.júní '11  Snjóblinda - Ragnar Jónasson
Glæpasaga gefin út af Veröld 2010 og er önnur bók höfundar.
Spennandi saga þar sem sögusviðið er Siglufjörður, enda höfundur ættaður þaðan og skrifaði hluta sögunnar hér, að ég held. Aðalsöguhetjan er Ari, sem er að ljúka lögregluskólanum, og býðst honum staða á Siglufirði, sem hann ákveður að þyggja. Skilur kærustuna eftir í Reykjavíkinni og heldur norður þar sem dularfullt morð er framið rétt eftir komu hans þangað. Ýmislegt gengur á varðandi rannsókn málsins og í einkalífinu en ekki verður farið nánar út í það hér. Vel byggð saga, spennandi og trúverðug, og persónurnar vel skapaðar. Eina sem truflaði mig var hvað höfundur gerði mikið úr snjónum sem hér er á stundum á Sigló, og innilokuninni vegna takmarkaðra samgangna og hversu mikil áhrif það hafði á sálarlíf sumra persónanna. En reyndar hefur maður nú upplifað að það eru ekki allir sem þrífast hér af þeim sökum. En hvað um það; flott saga og það verður áframhald því næsta bók um Ara kemur fyrir næstu jól og Snjóblinda kom einnig út í Þýskalandi og gerir það gott. Flott og spennandi bók. * * * * 

25.júní ´11  Sjöundi himinn - James Patterson, Maxine Paetro
Týpískur amerískur reifari sem hélt manni alveg ágætlega við efnið, en var gleymdur svo að segja um leið og maður lokaði bókinni. Fjallaði um unga brennuvarga sem voru að fá útrás fyrir einhverjar undarlegar kenndir. Ágætis afþreying en ekkert meir. * * 

24.maí ´11  Hreinsun - Sofi Oksanen
Margverðlaunuð skáldsaga gefin út af Máli og menningu 2010.
Mögnuð saga nokkurra kynslóða í sömu fjölskyldunni. Ógn, ofbeldi og örvænting allt um kring. Fyrri kynslóðir upplifa heimsstyrjaldir og allar þær hörmungar sem þeim fylgja, þær síðari ógnir hins vestræna heims í dag, skipulagða glæpastarfsemi, mansal og hörmungarnar jafn skelfilegar þar þó í minni skömmtum séu. En ástin og manngæskan spilar einnig mikla rullu í bókinni til mótvægis við illskuna. Fanta vel skrifuð og stíllinn persónulegur. Maður var smá tíma að ná sambandi við söguna og átta sig á aðstæðum en eftir það var erfitt að leggja bókina frá sér. Góð lesning. * * * *

16.maí ´11  Hugsanabókin - Guðbergur Bergsson
Bókin ber undirtitilinn - Sjötíu hugleiðingar- og er gefin út af JPV útgáfu árið 2002.
Stuttar og hnitmiðaðar hugleiðingar um lífið og tilveruna, allt og ekki neitt. Ljóðrænn texti, hnyttinn en jafnframt beittur á köflum. Skemmtileg, stutt lesning. * * *

5. maí ´11  Of Mice and Men - John Steinbeck
Las þessa klassísku sögu í þriðja sinn á ensku í rútu á leiðinni á Öldungablakmót í Vestmannaeyjum. Sagan kom fyrst út árið 1937, vakti strax mikla athygli og varð sígild fyrr en varði. Fljótlega kom út leikrit höfundar af sömu sögu og hefur það verið sýnt við miklar vinsældir um allan heim síðan jafnt hjá áhuga- sem atvinnuleikhúsum. Ég man enn eftir uppfærslu leikfélagins Baldurs á Bíldudal á þessu verki frá árinu 1971, þá var ég aðeins á 7. ári, og hvaða áhrif verkið hafði á mig, pabbi og Öddi frændi voru að sjálfsögðu í aðalhlutverkum og hafa sjaldan verið betri. Þetta er einföld saga en geysilega sterk og persónurnar svo vel skrifaðar að aðdáun er, enda er Steinbeck einn af mínum uppáhalds höfundum. Gleði og sorg, vonir og væntingar, ást og hatur, gott og illt, leikið á allar helstu tilfinningar lesenda af snilld. * * * * *

28.apr ´11  Páfinn situr enn í Róm - Jón Óskar
Bók þessi kom út hjá Almenna bókafélaginu 1964 og ber hún undirtitilinn Ferðaþankar. Hér segir Jón Óskar frá ferðum sínum og dvöl annars vegar við ítölskunám í Rómarborg og hins vegar í Sovétríkjunum gömlu. Skemmtilegar lýsingar hjá Jóni á fólki og borgum og pólitíkin er ekki langt undan. * * *

10.apr ´11  Vestfirskar konur í blíðu og stríðu - Finnbogi Hermannsson
Bók sem kom út hjá Vestfirska forlaginu 2010 og hefur að geyma æviágrip og frásagnir rúmlega 10 vestfirskra kvenskörunga frá ýmsum tímum. Finnbogi segir sjálfur í inngangi að þessi skrif séu fyrst og femst hugsuð til að vekja athygli á þessum konum og eftir lesturinn sæki fólk sér frekari upplýsingar um þessar kjarnakonur sem hér segir frá. Svo bendir Finnbogi einnig réttilega á að konur verði oft útundan í svona skrifum þ.e. meira er skrifað um karlpeninginn og hvað hann tekur sér fyrir hendur. Ágætis lesning um áhugaverð lífshlaup kvenna sem ekki kölluðu allt ömmu sína. * * *

18.feb ´11 Stórkostlegt líf herra Rósar - Ævar Þór Benediktsson
Undirtitill þessa smásagna - örsagnaheftis er ... og fleiri sögur af ótrúlega venjulegu fólki. Þetta er fyrsta bók höfundar, sem er nýútskrifaður leikari, og kom út hjá bókaútgáfunni Nykur árið 2010.  Leiftrandi ímyndunarafl einkennir sögurnar í þessari bók og mjög skemmtilegt og öðruvísi ímyndunarafl. Undarlegar fléttur, stórundarlegar aðstæður og atburðir hjá venjulegu fólki, sumt fólkið er þó með undarlegar hneigðir og framvinda þessara stuttu sagna kemur sífellt á óvart. Efnilegt byrjendaverk og ekki ólíklegt að maður lesi meira eftir þennan höfund í nánustu framtíð. Það verður einnig spennandi að sjá hvernig þetta fjöruga ímyndunarafl reynist leikaranum Ævari Þór, og kannski leikskáldinu. Þessi bók fær * * *

12.feb ´11 Meistarar og lærisveinar - Þórbergur Þórðarson
Bók sem kom út hjá Forlaginu árið 2010 og er eftir Stóra ævisögulega handritinu. Handrit sem Þórbergur skyldi eftir sig og hefur gengið undir nafninu Stóra handritið, en var reyndar ekki svo mjög efnismikið, tæpar tvær skrifaðar stílabækur. Handritið er talið uppkast að 3. bindi skáldævisögu höfundar og gerist á árunum 1913-1925.  Þórbergur átti eflaust eftir að vinna frekar í handritinu því hann sendi ekkert frá sér nema laga og snurfusa aftur og aftur en þó er mikill fengur í því, það er mjög skemmtilegt aflestrar og ber öll einkenni höfundarins. Handritið skiptist í rúmlega 20 kafla sem fjalla um eitt og annað sem á daga hans dreif, hugðarefni, persónur sem hann kynntist o.fl.  Sérstaklega áhugavert þótti mér að lesa kaflann þar sem hann fjallaði um ljóðagerð sína, en hún var uppreisn gegn hefðbundunum yrkisefnum, rómantík og væmni, og vakti hún umtal og hneykslan eins og stefnt var að. Mjög skemmtileg og fróðleg bók. * * * *

7.jan ´11  Eiðurinn - Þorsteinn Erlingsson
Ljóðabálkur Þorsteins um Ragnheiði biskupsdóttur og ástamál hennar, ég las 5. útgáfu sem gefin var út af Helgafelli 1974.  Bálkur þessi er saminn upp úr aldamótunum 1900 og kom fyrst úr 1913. Þessa þekkta ástarsaga er hér í skemmtilegum búningi góðskáldsins Þorsteins. Lýsir hann vel aðdragana að kynnum þeirra Ragnheiðar og Daða og ýmsu sem gekk á í kringum þau.  Vel ort en orðfærið kannski nokkuð torskilið á köflum nema maður þekki söguna þeim mun betur.  Lestur þessarar bókar gerir það eiginlega að verkum að mann langar einmitt að kynna sér hana betur. Bálkurinn endar svo nefnilega, að ég held, í sögunni miðri meðan allt leikur enn í lyndi, en þannig held ég nú ekki að hún hafi endað. Í formála kemur fram að Þorsteini hafi ekki endst aldur til að klára verkið.  Hann hafði dreymt Ragnheiði rétt fyrir andlát sitt og vissi hvernig síðasti hlutinn átti að vera en lést aðeins fjórum dögum síðar áður enn hann náði að setja lokin á blað.  Skemmtilegur lestur. * * * 

4.jan ´11  Svar við bréfi Helgu - Bergsveinn Birgisson
Þriðja bók höfundar, gefin út af Bjarti 2010.  Bergsveinn var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsögu sína Landslag er aldrei asnalegt árið 2003 og get ég vel skilið af hverju ef hún er eitthvað í líkingu við þessa.  Þetta er hreint út sagt yndisleg bók, uppfull af húmor, frábæru orðfæri og skemmtilega fléttaðri sögu.  Ég skellti oft upp úr við lestur hennar og höfundur sýnir svo sannarlega fram á hversu rík íslenskan er af skemmtilegum og fallegum orðum. Höfundur hefur umgengist mikið sagnamenn af Ströndum og sækir orðfæri og frásagnargáfur til þeirra og það er ekki leiðum að líkjast. Glæsilegur og lifandi stíll, geggjaður og skemmtilega gamaldags húmor og afbragðs lesning. * * * * *

31.des´10  Blóðhófnir - Gerður Kristný
Ljóðabók sem vakið hefur mikla athygli og aðdáun.  Þetta er fjórða ljóðabók Gerðar, gefin út af Máli og menningu 2010.  Í bókinni yrkir Gerður um jötnameyna Gerði Gymsdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti til Jötunheima handa húsbónda sínum. En hún er treg til vistaskiptanna.  Þetta er efni hinna fornu Skírnismála fært í nýtt og nútímalegt form.  Listilega vel gert og samtíma fólki vel skiljanlegt. Mikil átakasaga, full af trega og harmi.  Knappt form einkennir frásögnina og gerir það að verkum að ljóðið talar mjög sterkt til manns, hreint og beint, enginn afsláttur, engar málalengingar.  Glæsilegar myndir og líkingar dregnar upp.  Glæsileg smíð hjá Gerði. * * * *

30.des.´10  Furðustrandir - Arnaldur Indriðason
Enn ein bókin frá Arnaldi um lögreglumanninn Erlend, gefin út af Vöku-Helgafelli 2010.  Hér er Arnaldur heldur betur kominn á skrið á ný, síðustu 2-3 bækur hans hafa ekki alveg staðið undir væntingum, en þessi er alveg mögnuð.  Þetta er mikið meira en reifari, eða glæpasaga, þetta er alvöru skáldskapur sem heldur manni hugföngnum alla leið.  Það er mjög erfitt að leggja bókina frá sér því Arnaldi tekst alltaf að enda hvern kafla þannig að maður bara verður að lesa áfram.  Það er ótrúlegt hvernig honum tekst að halda manni hugföngnum yfir mannshvarfi sem átti sér stað fyrir mörgum áratugum og hvernig hann nær að blanda sorg og missi aðalsöguhetjunnar inn í söguna.  Með því kastar hann einnig nýju ljósi á Erlend sem persónu og gefur skýringar á oft einkennilegu háttalagi hans.  Mögnuð bók, mögnuð saga. * * * * *

26.des.´10  Svipmyndir úr síldarbæ - Örlygur Kristfinnsson
Bók sem gefin er út af Uppheimum 2010 og segir af skemmtilegum og áhugaverðum persónum á síldarárunum á Siglufirði.  Þessi bók eftir félaga minn Örlyg er á allan hátt hin athyglisverðasta.  Hér segir af 17 þekktum persónum sem áttu sín bestu ár í kringum síldarævintýrið mikla á Siglufirði og einnig af mannlífinu á tveimur vinnustöðum og einu húsi hér í bæ. Bókin er skemmtilega skrifuð; blanda af staðreyndum, blaðaskrifum og sögum af viðkomandi og úr verður lifandi og skemmtileg lýsing af þessum persónum.  Bestar þóttu mér svipmyndirnar af Norgör, Guðmundi góða, Jóa Bö og Hannesi Beggólín.  Eitthvað af þessu hafði maður heyrt áður t.d. af Steini Steinarri og fánamálinu og maður kannaðist við ýmsar sögur sem sagðar eru af fólkinu í bókinni, en þær eru margar góðar.  Það er vonandi að þetta sé aðeins byrjunin á rithöfundarferli Örlygs því hann á fullt erindi á þessum vettvangi. * * * *

25.des.´10  Úr dagbókinni - Sverrir Gíslason frá Hábæ
Gefin út af bókaforlaginu Gýgjarsteinn árið 2010. Minningabrot frá liðnum árum er undirtitill þessarar bókar og aðalefni hennar eru dagbókarfærslur Sverris frá þeim tíma þegar hann tók sig til á gamalsaldri og fór í enskuskóla til Southampton.  Þatta var árin 1999 og 2001 og dvaldi hann þar í mánuð í senn með sér mun yngri nemendum sem komu víða að úr veröldinni.  Einnig eru hér minningarbrot frá Ísafirði þegar Sverrir var á unglingsaldri sem og ljósmyndir og brandarar (svolítið sérstök blanda) og sagt frá óveðri sem gekk yfir landið 1981. Áhugaverð bók að ýmsu leyti og sérstaklega fannst mér skemmtilegar lýsingarnar af fyrri ferð bóndans til Southampton og hvernig hann sá heiminn með augum íslenska sveitamannsins.  Það er gaman að svona útgáfum sem gefnar eru út af hugsjón og bjartsýni. * * *

24.des.´10  Raddir úr fjarlægð - Ingvi Þór Kormáksson
Smásagnasafn tónlistarmannsins Ingva Þórs, fyrsta prentverk höfundar að ég held.  Gefið út af Sögur ehf. árið 2010.  Bókin byrjar rólega, fyrstu tvær sögurnar voru allt í lagi, ekkert meira en það, fannst mér. En svo fór að færast fjör í leikinn, óvæntir atburðir, óvæntar kringumstæður og fléttur í stuttum og hnitmiðuðum sögum og húmorinn aldrei langt undan. Sumt af þessu kunnar aðstæður sem gætu hent hvern sem er, aðrar svolítið súrrealískar en bara skemmtilegri fyrir vikið og höfundur er laginn við að koma manni á óvart í lokin.  Áhugaverð og skemmtileg lesning af smásögum eftir íslenskan höfund, það er eitthvað sem maður sér ekkert of mikið af. * * *

22.des.´10  Lífskúnsterinn Leifur Haraldsson - Daníel Ágústínusson
Lífsferill, kveðskapur og minningabrot ýmissa manna um þennan sérstaka mann.  Bók gefin út af Hörpuútgáfunni 1996.  Sérlega áhugaverð saga um mann sem eg þekkti ekki áður.  Mann sem var í vinfengi við ýmsa af skáldum landsins og annað áhugavert fólk.  Daníel var æskuvinur Leifs og hélst vinátta með þeim alla tíð og segir hann frá lífsferli hans.  Leifur var sérstæður í útliti og málhaltur en frægur fyrir orðheppni sína, skörp tilsvör og snjallar vísur sem flugu víða. Maður sem stóð fast á sínum skoðunum, skarpgáfaður og vel lesinn en átti erfiða ævi. * * *   

20.des.´10  Dagur kvennanna ástarsaga - Megas og Þórunn Valdimarsdóttir
Handrit sem legið hefur óhreyft í 18 ár kom loks út 2010 hjá Uppheimum.  Saga sem hefst á Kvennafrídaginn mikla.  Lofar góðu í byrjun, mjög sérkennilegt en skemmtilegt orðalag og berort eins og höfunda er von og vísa.  En síðan verður þetta eitthvað allt of mikið rugl, fyrir minn smekk, og óþarflega mikið fyrir neðan beltisstað.  Vonbrigði. * *

4.okt. ´10  Minningabók - Vigdís Grímsdóttir
Ljóðabók gefin út af Iðunni 1990.  Hjartnæm og virkilega góð ljóðabók frá Vigdísi, sem hefur getið sér gott orð fyrir skáldsögur sínar en er greinilega ekki síðri þegar ljóðin eru annars vegar.  Falleg ljóð með tregablandinn undirtón sem ylja manni um hjartarætur. * * * *

27.sept. ´10  Láttu loga drengur - Ingólfur Jónsson frá Prestsbakka
Eina skáldsaga höfundar, kom út 1966, en auk þess sendi hann frá sér nokkrar ljóðabækur, smásögur og sögur og ævintýri fyrir börn. Áleitin saga en máluð nokkuð dökkum litum, sem er hlið á höfundi sem ég kannast ekki við. Vakti nokkra athygli á sínum tíma því menn þóttust þekkja þarna einhverjar fyrirmyndir í lifanda lífi. Fjallar um dekkri hliðar mannlífsins og vald peninganna yfir fólki. Fín lesning. * * *

18.sept. ´10  Hótelsumar - Gyrðir Elíasson
Skáldsaga frá þessum virta höfundi.  Gefin út af Forlaginu 2003.  Stutt og vönduð skáldsaga frá Gyrði.  Segir frá manni sem stendur í skilnaði og leitar á æskustöðvarnar til að ná áttum. Látlausar lýsingar og einhvern veginn liggur meira í orðunum en þau segja.  Það er alltaf einhver undirliggjandi spenna í sögunni þó það gerist kannski ekki svo margt. Gyrðir kann þessa list öðrum fremur. En mér fannst vanta meira kjöt á beinin.  Sagan byrjar vel þegar söguhetjan er að taka akvörðun, flytja sig um set, koma sér fyrir, kynnast nýju fólki en svo vantar eitthvað meira (svona fyrir minn smekk) og í lokin erum við skilin eftir í lausu lofti.  Vel skrifuð og áhugaverð en .. * * *

10.sept ´10  Ljóðtímaskyn - Sigurður Pálsson
Ljóðabók eftir hinn kunna höfund, gefin út af Forlaginu 1999.  Virkilega vönduð og góð bók hjá Sigurði. Ljóð sem fá mann til að hugleiða lífið og tilveruna á nýjan hátt, til hvers meira er hægt að ætlast af einni bók. Sum ljóðin kalla á fleiri lestra en einn og þú verður ekki svikinn af því að lesa þau aftur og aftur og finna á þeim nýja fleti og dýpri skilning.  * * * *

4.sept. ´10  Túlípanafallhlífar - Sigurbjörg Þrastardóttir
Ljóðabók Sigurbjargar sem kom út hjá JPV Forlaginu árið 2003.  Þessi bók fannst mér virkilega góð.  Frábærar lýsingar, leiftrandi húmor, áleitin ljóð og alvarleg, erótísk, allt í bland.  Ferksleiki og skemmtilegt orðaval. Góð lesning, aftur og aftur.  * * * *

28.ágúst ´10  Himnaríki og helvíti - Jón Kalmann Stefánsson
Skáldsaga eftir hinn virta höfund Jón Kalmann, gefin út af Bjarti árið 2007. Fyrsta bókin sem ég les eftir höfundinn.  Mikil örlagasaga sem gerist á Vestfjörðum fyrir um 100 árum síðan. Magnaðar lýsingar á baráttu vestfirskra sjómanna við óblíð náttúruöflin þar sem þeir sækja björg í bú á opnum árabátum.  Mannlýsingarnar litlu síðri og sagan ljóslifandi og mjög góð. Fannst hún þó aðeins tapa fluginu undir lokin en hélt manni þó svo sannarlega við efnið allt til loka. Jón er frábær stílisti og sumar setningarnar þannig að maður varð að lesa þær a.m.k. tvisvar þær voru svo flottar.  * * * *

22.ágúst ´10 Meðan þú gefur - Gunnar Dal
Sérkennileg ljóðabók frá Gunnari Dal.  Gefin út af Fjölva 1996.
Í þessari bók reynir Gunnar sig á japönskum hækum, eða þríhendum, eins og hann vill kalla formið upp á íslensku.  Margt er hér afskaplega vel gert og innihaldsríkt hjá Gunnari Dal, eins og hans er von og vísa, og mikill boðskapur fólginn í ýmsum þessarra þríhenda sem birtast í bókinni. En aðrar þótti mér lítið varið í og höfðu lítið að segja mér.  Kannski ekki nema von því þríhendurnar voru rúmlega 160 að tölu og erfitt að láta þær allar innihalda vísdóm lífsins.  Að mínu mati hefði verið óhætt að hafa þær aðeins færri, en hér var margt gott að hugsa um og lesa upphátt. emoticon emoticon emoticon

20.ágúst ´10 Blálogaland - Sigurbjörg Þrastardóttir
Fyrsta ljóðabók þessarar ágætu skáldkonu.  Gefin út af Forlaginu 1999.
Þar sem Sigubjörg var væntanlegur gestur ljóðahátíðarinnar Glóðar sem ég sé um hér á Siglufirði þá ákvað ég að kynna mér svolítið betur kveðskap hennar.  Sigurbjörg vakti strax með þessari fyrstu ljóðabók sinni athygli fyrir vandaðan kveðskap og athyglisverð efnistök og var auðvelt að sjá af hverju.  Ljóðin þó misgóð og mis vel skiljanleg en mörg þeirra áleitin og innihaldsrík.  Áhugaverð bók og áhugaverð skáldkona.  emoticon emoticon emoticon

17.ágúst´10  Únglingurinn í skóginum - Halldór Laxness
Úrval ljóða Halldórs með myndum íslenskra listamanna, gefin út af Vöku-Helgafell árið 1997.
Stóðst ekki mátið að taka þessa á bókasafninu eftir lestur blöðungsins eftir Steindór Sigurðsson á dögunum (sjá hér aðeins neðar).  Steindór var mikið á móti hinni nýju stefnu sem tekin var í íslenskri ljóðlist á árunum í kringum 1930 og fór hann ófögrum orðum um þær æfingar í ljóðlist sem Halldór haf'ði frammi í ljóðabók sinni sem hann gaf út um þetta leyti og margir fylgdu í kjölfarið.  En þessi nýja bylgja víkkaði svo sannarlega hið íslenska ljóðasvið og út úr því kom margt gott.  Ljóð Halldórs eru mörg hver afskaplega falleg og stíll hans sérstakur.  Sum alþekkt og sungin víða t.d. Maístjarnan og Vöggukvæði - Hvert örstutt spor ..., önnur minna þekkt en ekki síðri.  En maður getur vel ýmindað sér hvað sagt var um sum þeirra þegar þau komu út og íslenska þjóðin vön stuðlum, höfuðstöfum og rími í svo að segja öllum kveðskap.  Útgáfan er glæsileg, fallegar myndir eftir marga af okkar þekktustu listamönnum og kveðskapurinn góður.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
17.ágúst´10  Ferskeytlan - Ýmsir höfundar
Vísur og stef frá ýmsum tímum er undirtitill þessarar safnbókar sem kom út hjá Almenna bókafélaginu 1993.
Safn ferskeytlna frá ýmsum snillingum þjóðþekktum sem minna þekktum og einnig eru nokkrar ferskeytlur sem flogið hafa víða en ekki er vitað hverjir höfundarnir eru.  Það er alltaf gaman að lesa og heyra góðar og vel ortar ferskeytlur hvort sem þær innihalda lífsspeki, frásögn af atburði eða mannlýsingu eða eitthvað annað.  Margar afbragðsgóðar í þessari bók. emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
16.ágúst´10  Húsin og göturnar - Kristján Þórður Hrafnsson
Önnur ljóðabók höfundar en auk þess hafa birst eftir hann ljóð í blöðum, tímaritum og safnritum.  Gefin út af Almenna bókafélaginu 1983.
Ágætis bók og hugleiðingar í jafnt háttbundnu sem frjálsu formi.  Uppistaðan ástar- og tregaljóð til stúlkunnar sem skáldið á eða átti.  Fallegar myndir dregnar upp og fjölbreyttar hugmyndir.  Góð bók. emoticon emoticon emoticon
 
15.ágúst´10  Korn - Álfheiður Kristveig Lárusdóttir
Enn ein ljóðabókin, þessi kom út 1974 og eru eftir unga skáldkonu, flest ljóðanna ort er hún var um 15 ára.  Gefin út af Helgafelli.
Miðað við aldur skáldkonunnar eru mörg ljóðanna óvenju góð og bera vott um sérkennilega hugkvæmni og ótvíðræða skáldskaparhæfileika. Bókin byrjar mjög vel en þynnist fljótt út að mínu mati, svipuð viðfangsefni, einsleitt orðalag og eitthvað sem vantar uppá svo ljóðin gangi upp þegar líður á bókina.  En án vafa gott byrjendaverk, veit ekki hvort höfundur sendi frá sér fleiri bækur.
emoticon emoticon
 
15.ágúst´10 Þrír kapítular í tólf versum - Steindór Sigurðsson
40 síðna blöðungur sem ég rakst á í Kolaportinu og þótti áhugaverður.  Líklega gefið út af höfundi sjálfum árið 1948.
Undirtitill þessa blöðungs er Um ljóðskáld og ljóðagerð og er einn anginn af þeim deilum sem spruttu upp í kringum 1930-40 þar sem tekist var á um íslenskan kveðskap.  Hér deilir höfundur á íslenska nútímaljóðlist og gerir það á skemmtilega uppskrúfaðan og kaldhæðinn hátt.  Menn eins og Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson fá það óþvegið fyrir ljóðagerð sína og þau áhrif sem þeir höfðu á yngri skáld.  Hreinstuðlað og fagurrímað skal það vera og innihaldið þannig að maður skilji það. Ekki tekur svo betra við þegar hann fjallar um Stein Steinarr, Sigfús Daðason og fleiri ungskáld sem voru þarna að koma fram.  Mjög fróðleg og skemmtileg lesning og gaman að sjá hversu mikið hjartansmál kveðskapurinn var ýmsum á þessum árum.  Blöðungur sem gaman er að eiga á Ljóðasetrinu og verður örugglega einhverntíman tekinn upp og lesið úr honum fyrir gesti þegar fjallað verður um moderinstana og íslenskan nútímakveðskap yfirleitt.
  
12.ágúst´10 Þú sem hlustar - Jón Óskar
Ljóðabók sem gefin var út 1973 hjá Almenna bókafélaginu. Líklega 5. ljóðabók höfundar en hann sendi einnig frá sér smásögur, skáldsögu og endurminnigabók. Ekkja Jóns gaf Ljóðasetrinu þessa bók líkt og fleiri bækur höfundar.
Önnur ljóðabókin sem ég les eftir höfund.  Yrkisefnin af ýmsum toga en ádeiluljóð nokkuð áberandi. Höfundur deilir á óréttlæti heimsins og stríðsbrölt, vísindamenn heimsins og peningamenn sem nota auð sinn og tækni til að senda menn til tunglsins og smíða stríðstól í stað þess að hjálpa þeim sem eru í neyð.  Höfundur vísar til Bob Dylans og eitt ljóðið er samið við lagið Blowin in the wind.  Þarfar ábendingar sem eiga jafn vel við í dag sem þegar þau voru ort. Einnig falleg ástarljóð og hugleiðingar um lífið og dauðann sem og tvær ljóðaþýðingar úr frönsku. Góð bók sem ég hef grun um að vaxi við hvern lestur. emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
9.ágúst´10   Nóttin á herðum okkar - Jón Óskar
Þriðja ljóðabók Jóns, kom út 1958.  Glæsileg bók, innihald jafnt sem útlit en listmálarinn Kristján Davíðsson gerði teikningar í bókina og hannaði útlit.  Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá, ekkja höfundar, færði Ljóðasetrinu þessa bók að gjöf ásamt fleirum eftir mann sinn.
Mörg kyngimögnuð ljóð í þessari bók og hinar sérstæðu endurtekningar Jóns njóta sín vel. Ádeiluljóð, ástarljóð, ættjarðarljóð en allt með sínum hætti. Bókin vakti aðdáun, umtal og deilur þegar hún kom út, útlit og byltingarkennd myndskreyting fældi jafnvel venjulega lesendur frá en innihald og útlit vakti aðdáun annarra.  Bók sem hefur staðist tímans tönn ákaflega vel og er unun að lesa og handfjatla.  Fyrsta bókin sem ég les eftir Jón Óskar en örugglega ekki sú síðasta.
 emoticon emoticon emoticon emoticon

5.ágúst´10   Töfrataflið - Ýmsir
Smásagnasafn 11 samtíma barnabókahöfunda gefið út af Félagi íslenskra bókaútgefenda í tilefni af viku bókarinnar 2002.
Nýjar sögur úr ýmsum áttum eftir nokkra af okkar þekktustu barnabókahöfundum undanfarinna ára t.d. Aðalstein Ásberg, Andra Snæ, Guðmund Ólfasson, Iðunni og Kristínu Steinsdætur, Sigrúnu Eldjárn o.fl.  Fjölbreytt umfjöllunarefni en það vakti athygli mína hve þjóðsögurnar eru nærri, tröll, álfar og huldufólk koma t.d töluvert við sögu. Annars þótti mér sögurnar yfirleitt mjög góðar en þó var óþarflega drungalegur blær yfir sumum þeirra, það hefði alveg mátt vera aðeins meiri gleði og gaman á þessum síðum. emoticon emoticon emoticon 
   
27.júlí ´10    Ljóð á ráði - Andrés Eiríksson
Bók sem Ljóðasetrið fékk að gjöf, áritaða af höfundi, en hann var hér á ferð og las úr bókinni.  Ljóðaútgáfan Ofstuðlar gaf út 2010.
Afskaplega skemmtileg bók aflestrar, uppfull af húmor og útúrsnúningum, þó innihaldið sé misjafnt af gæðum eins og gengur og gerist.  Snúið út úr ýmsum þekktum textum og ljóðum s.s. Lóan er komin, Konan sem kyndir ofninn minn, Hann elskaði þilför hann Þórður, Gunna var í sinni sveit o.fl.  Fyrsta ljóðabók höfundar.  Fín til upplestrar á góðri stund.  emoticon emoticon emoticon

22.júlí ´10    Heimsókn á heimaslóð - Böðvar Guðmundsson
Ljóðabók sem Elín Helga dóttir mín færði mér eftir ferð hennar til Rvk.  Gefin út af Iðunni 1989.
Bókin er ljóðaflokkur um Íslandsferð þar sem skáldið gerir upp við land og sögu á sinn persónulega hátt. Fínasti lestur og skemmtilegar lýsingar.  Tvíeggjaðar lýsingar og kaldhæðni sjaldan langt undan.  Mér fannst sérstaklega gaman af Vísum um Reykholt - þar rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér.emoticon emoticon emoticon 
 
23.apríl ´10  Prestavísur - Ýmsir
Bók með vísum um og eftir presta.  Sr. Sigurður Guðmundsson vígslubiskup tók saman og gaf út árið 1995.
Þessi bók gymir hluta af vísnasafni sem sr. Sigurður hefur safnað að sér í rúma hálfa öld þar sem prestar eru umfjöllunarefnið og/eða þeir semja vísurnar.  Hverri vísu fylgir skýring á tilefni hennar.  Margir höfundar koma við sögu en þó eru tveir mest áberandi; sr. Hjálmar Jónsson og sr. Jón Einarsson.  Margar vísurnar mjög góðar og hnyttnar en mér finnst sr. Hjálmar bera af í hópnum.  Hann á margar ansi góðar og er húmoristi fram í fingurgóma.  Bók sem gaman var að glugga í.   emoticon emoticon emoticon 

20.apríl ´10  Frá Bjargtöngum að Djúpi -Ýmsir
Fyrsta bókin úr þessum bókaflokki Vestfirska forlagsins og ber hann undirtitilinn Mannlíf og saga fyrir vestan.  Gefin út árið 1999.
Fyrsta bókin úr þessum bókaflokki sem ég les.  Hef áður gluggað í þessar bækur af handahófi þegar ég hef komist í tæri við þær.  Las þessa þó ekki spjaldanna á milli en megnið af henni þó.  Mjög áhugaverðar frásagnir af mönnum og málefnum af Vestfjörðunum og lýsing á búsháttum í innilokuðum fjörðum yfir vetrartímann og hvaða aðferðum fólk beitti við að afla matar og nálgast nausynlega hluti.  Las helst það sem skrifað var um heimaslóðirnar, Bíldudal og nágrenni, og voru það nokkrar áhugaverðar frásagnir.  Flestar eftir Hafliða Magnússon, sem nefndur er "Skáldið" fyrir vestan auk þess sem viðtal er við kappann.  Fín lesning, áhugaverð að mörgu leyti og góð leið til að halda utan um atburði og manneskjur sem annars mundu falla í gleymskunnar dá þegar kynslóðirnar kveðja hver af annarri.  emoticon emoticon emoticon 
 
2. apríl ´10   Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar 2. - Þórbergur Þórðarson
Annar hluti af einni mikilvægustu ævisögu sem gefin hefur verið út á Íslandi.  Þriðja útgáfa, prentuð 1977 og gefin út af Máli og Menningu.
Í þessum hluta segir Árni frá prestsskap sínum á Snæfellsnesi og kynnum sínum af fólkinu þar.  Ekki fær fólkið þar háa einkunn hjá prófastinum og notar hann mörg orð, mörg dæmi og margar lýsingar til að færa sönnur á hversu fólkið á Snæfellsnesi var illa innrætt að mörgu leyti.  Sérstaklega hafði það gaman af að tala illa um presta og aðrar áberandi persónur á þessu landssvæði.  Þótti það sjálfsagt að ljúga upp á fólk og bera út um það róg og alls ekki mátti leiðrétta þær sögur sem af stað voru settar þó fólk vissi vel að þær voru uppspuni einn.  En eins og Bólu-Hjálmar segir þá eru til gimsteinar sem glóa í mannsorpinu og svo var einnig á Nesinu og kynntist Árni því fólki vel og lýsir samskiptum sínum við það fólk af mikilli alúð.  Mikið um frásagnir af ýmiskonar fólki í þessum hluta ævisögunnar, auk lýsinga á yfirskilvitlegum atburðum, alþýðulækningum, búsháttum og síðast en ekki síst deilum Árna við sveitunga sína, málaferli og þrætumál.  Árni kynnist konuefni sínu, giftist og hleður niður börnum en getur ekki haft þau öll hjá sér vegna fátæktar.  En ótrúlega lítið er fjallað um fjölskyldu hans, prestsstörfin og það sem stendur honum næst.  Merkileg lesning á allan hátt uppfull af húmor, þjóðlegum fróðleik og lýsingu á tíðarandanum.  emoticon emoticon emoticon emoticon

15. mars ´10  Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar 1. - Þórbergur Þórðarson
Ein allra merkilegasta og mikilvægasta ævisaga sem gefin hefur verið út á Íslandi og höfuðrit meistara Þórbergs.  Þriðja útgáfa, prentuð 1977 og gefin út af Máli og menningu.
Hreint út sagt ótrúleg lesning.  Hér segir frá uppvaxtar árum sr. Árna í Árnessýslu og skólaárum í Reykjavík.  Frábær lýsing á lífi og störfum fólks á seinni hluta 19. aldar.  Ótrúlega nákvæmar lýsingar, stundum aðeins of, á hinum ýmsu verkum við sveitastörf, á uppeldisaðferðum, híbýlum fólks og fleiru og fleiru.  Ómetanleg heimild um íslenskan hugmyndaheim á þessum tíma.  Auk þess lýsingar á þjóðþekktum persónum s.s. Einari Ben, Jóni Sigurðssyni, Gvendi dúllara, Símoni Dalaskáldi, Hannesi Hafstein o.fl.  Í bókinni setur meistari Þórbergur sig í spor sr. Árna og lifir sig svo inn í litríka og viðburðarríka ævi hans að það er eins og Árni sjálfur mæli hvert orð.  Heilu samtölin eru hér rakin og ýmsir viðburðir, stórir sem smáir, raktir í ótrúlegustu smáatriðum.  En lesturinn verður samt aldrei þurr og leiðinlegur, því báðir hafa þessir menn óhemju mikla kímnigáfu og eru stórmagnaðir sögumenn.  Skyldulesning öllum Íslendingum sem vilja vita hvaðan þeir koma.  emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon

2.mars ´10  Frá morgni til kvölds - Hannes Jónasson
Merkileg ljóðabók eftir merkilegan mann sem Ljóðasetrinu var fengin að gjöf fyrr í vetur.  Gefin út af börnum höfundar á Siglufirði 1957.
Hannes Jónasson var bóksali á Siglufirði og bjó þar og starfaði fram efir tuttugustu öldinni.  Fyrsta ljóðið í bókinni er samið 1917 og er líklega það elsta en það yngsta með ártalinu 1952.  Hannes yrkir um lífið og tilveruna, náttúruna þá sérstaklega vorkomuna og vetrarhörkurnar, sem og um eitt og annað sem á hug hans leitar.  Er mörg áhugaverð og ljúf ljóð í þessum anda hjá Hannesi.  Einnig eru þarna áhugaverð ljóð sem eru samin fyrir ákveðna atburði og flutt þar t.d. við fyrstu setningu Gagnfræðaskólans, við vígslu sjúkrahússins á Siglufirði, vegna aldarafmælis Siglufjarðar o.fl. Einnig má finna þarna eftirmæli eftir góða og gegna Siglfirðinga.  Ég held að þetta sé eina ljóðabókin sem gefin hefur verið út með kveðskap Hannesar.  Í bókmenntaþættinum Kiljunni í vetur fjallaði Bragi bóksali einmitt um Hannes og þessa ljóðabók hans og auk þess son Hannesar, Jóhann, sem einnig var gott skáld.  Þessi bók mun sóma sér vel í siglfirsku deildinni á Ljóðasetrinu.  emoticon emoticon emoticon 

27.feb ´10   Vinjettur V  -  Ármann Reynisson
Fimmta bókin í þessu safni Ármanns, gefin út af ÁR - Vöruþingi 2005.
Ég hef lesið nokkrar af þessum bókum Ármanns og líkað ágætlega.  Fyrsta bókin þótti mér áhugaverð og mjög góð en síðan fannst mér heldur draga úr gæðunum með hverri bók en hér finnst mér Ármann ná sér á strik aftur.  Hafði ég nokkuð gaman af lestri þessara sagna þar sem umfjöllunarefnið er héðan og þaðan.  Kirkjur og atburðir sem gerast í þeim eru þó nokkuð áberandi í bókinni og dæmisögur í anda biblíunnar.  Hér er þó mikið málað svart eða hvítt þ.e. menn eru vondir eða góðir, fallegir eða ljótir og sögurnar enda annaðhvort mjög illa eða mjög vel.  Þetta virkar stundum dálítið hjákátlega á mig a.m.k.  En annars er margt með ágætum hér.  emoticon emoticon emoticon

19.feb ´10   Hrunadansinn - Matthías Johannessen
Bók sem gefin var út í tilefni að 80 ára afmæli höfundarins þann 3. janúar 2010.  Bókafélagið Ugla gaf út.  Bókina fékk tilvonandi Ljóðasetur að gjöf frá einum hollvina þess.
Magnað verk og glæsileg útgáfa því með bókinni fylgir geisladiskur með flutningi stórleikarans Gunnars Eyjólfssonar á kvæðabálknum sem er innihald þessarar bókar.  Bálkurinn var fyrst birtur í Morgunblaðinu 12. apríl 2006 og kom einnig út á bók það ár.  Gunnar hefur víða flutt bálkinn af fingrum fram af sinni alkunnu snilld og hvarvetna hefur hann og innihald bálksins vakið mikla athygli.  Í verkinu lýsir Matthías ævi sinni og sögu Íslendinga stormi samtímans og stríði auk þess að gera upp við ýmsa hugmyndafræði og trúarbrögð.  Athyglisvert er að bálkurinn er ortur "fyrir hrun" eins og nú er sagt því í honum koma fram ýmsar skírskotanir til samtímans sem vekja kvíða hjá skáldinu um ógnir sem við eigum í vændum - tanna níðhöggs, fjármagns og ofsagróða.  Það væri sannarlega áhugavert að heyra og sjá Gunnar flytja þennan kjarnyrta skáldskap.  emoticon emoticon emoticon emoticon
   
17.feb ´10   Vopnin kvödd - Ernest Hemingway
Jæja þá eru það heimsbókmenntirnar.  Ein höfuðskáldsaga Hemingways í þýðingu Halldórs Laxness.  Kom fyrst út hjá Máli og menningu 1941.  Þessi útgáfa sem ég las var sú fyrsta sem kom út í kilju og var það árið 1999.
Þetta er aðeins annað verk Hemingways sem ég les, það fyrsta var Gamli maðurinn og hafið sem ég hafði mjög gaman af.  Hinn knappi stíll höfundarins er hér allsráðandi og er sannarlega bæði sérstakur og áhrifaríkur enda reyndur margir að feta í fótspor hans en með misjöfnum árangri.  Þýðing Halldórs vakti mikla athygli og jafnvel deilur þegar bókin kom fyrst út á Íslandi í hans þýðingu enda gekk Halldór mjög langt í að ná hinum knappa stíl höfundarins.
Sagan gerist á Ítalíu í fyrri heimsstyrjöldinni og er jöfnum höndum saga stríðsátaka og ástarsaga, margir segja einhver magnaðasta ástarsaga aldarinnar.  Ekki ætla ég nú að dæma um það en bókin var sannarlega athyglisverð og hélt manni við efnið.  Í raun var ástarsagan athyglisverðari en stríðslýsingarnar að mínu mati enda rauði þráðurinn í gegnum bókina.  Orðfærið er svolítið sérstakt og skringileg orð úr safni þýðandans skjóta upp kollinum við og við.  Samtöl í bókinni gátu orðið svolítið ruglingsleg því maður var ekki alltaf alveg klár á hver var að segja hvað m.a. vegna hins knappa stíls sem einkennir alla söguna.  Nokkrar magnaðar lýsingar má finna í bókinni þar sem orðin ryðjast fram í mörgum stuttum setningum hverri á fætur annarri og ná þannig fram miklum og sérstökum áhrifum sem erfitt er að lýsa.
Bók sem sannarlega er þess virði að lesa og er örugglega ekki verri í annað sinn.emoticon emoticon emoticon emoticon 
    
3.feb  ´10    Ævisaga Einars Benediktssonar - Jónas Jónsson
Bók þessi var gefin út af Þingvallaútgáfunni árið 1955 og það var sjálfur Jónas frá Hriflu sem ritaði.
Ævisaga þessi er ekki mikil að burðum en gefur góða mynd af þessum merka manni og merka skáldi.  Maður með stórt íslenskt hjarta, stóra drauma, mikla hæfileika og mikið skap.  Maður sem var á undan sinni samtíð en blés þjóðinni kjark og þor í brjóst með kjarnmiklum kveðskap sínum, þori og dug.  En einkalífið gekk ekki sem best og athafnamaðurinn Einar Ben náði ekki að láta drauma sína um virkjun fallvatna, lagningu lestarteina og fleira verða að veruleika þó hann fengi erlenda fjármálamenn með sér.  Ísland og Íslendingar voru ekki tilbúnir að detta inn í vélaöldina svona einn, tveir og þrír og Einar átti sér öfundarmenn sem unnu gegn honum.  En ljóðin hans lifa og mörg þeirra eru meðal þess besta sem ort hefur verið á íslenska tungu, tungumálið sem hann dáði og tilbað.
Ævisaga þessi er stutt og hnitmiðuð og meira lagt upp úr kostum og afrekum Einars en göllum hans og vonbrigðum.  Nokkuð er um óþarfa endurtekningar í bókinni sem er nokkur galli.  emoticon emoticon emoticon 
  
24. jan ´10  Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr - Sigfús Daðason
Skáldið Sigfús Daðason setti saman þessa bók um kollega sinn, meistara Stein Steinarr.  Kom út hjá Reykholti 1987.
Í þessari bók hefur Sigfús valið efni úr ýmsum áttum til að varpa ljósi á persónu Steins sem og skáldsins Steins. Rekur hann ævi hans og segir frá þróuninni í skáldskap hans auk þess sem birtar eru ýmsar heimildir um hann og frásögur.  Einnig getur hér að líta úrval texta eftir þetta merkilega skáld bæði í bundnu máli og lausu og eitthvað af því birtist í fyrsta sinn á prenti í þessari bók.  Bókin gefur góða mynd af skáldinu þó ekki sé kafað djúpt að þessu sinni.  Skemmtilegar frásagnir og blaðagreinar frá Steini auk margra af hans bestu ljóðum.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
2. jan ´10    Bíósaga Bndaríkjanna - Jónas Knútsson
Bók um draumaverksmiðjuna í Hollywood kom út hjá Bókaútgáfunni Sögur 2009.
Bók sem ég las meðfram bókinni hér að neðan á nokkrum vikum enda báðar nokkuð miklar að burðum.  Þessi bók var nokkuð öðru vísi en ég reiknaði með en samt sem áður hin fróðlegasta lesning.  Ekki mikið fjallað um myndirnar og leikarana sem slíka heldur frekar um kvikmyndagerðarmennina, ástandið í Bandaríkjunum á hverjum tíma og áhrifum þess á bíómyndirnar og öfugt, þ.e. áhrif bíómyndanna á ástandið og menninguna hverju sinni.  Mjög ítarlegt rit og gefur góða heildarmynd af þróun kvikmyndagerðar í Bandaríkjunum og öðrum hlutum heimsins að hluta til.  Sérkennilegt orðalag, og orðaval, sem og undarlegar líkingar skemma nokkuð fyrir lestrinum að mínu mati, t.d. virðist höfundinum vera sérlega illa við framsóknarmenn og félagsfræðinga a.m.k. er ýmsum ónytjungum í röðum kvikmyndagerðarfólks líkt við þetta fólk!!  Skil ekki alveg hvað það kemur kvikmyndasögunni við!!  En hvað um það um margt hin áhugaverðasta lesning.  emoticon emoticon emoticon emoticon

29.des ´09  Í kompaníi við Þórberg - Matthías Jóhannessen
Hina frábæra samtalsbók Matthíasar við Þórberg Þórðarson rithöfund sem koom út hjá Almenna Bókafélaginu 1989.
Glæsileg lesning og ótrúlega vel skrifuð samtalsbók við snillinginn Þórberg.  Gefur góða sýn á lífsviðhorf Þórbergs og hans einstöku persónu.  Orðfar og tilsvör skáldsins þannig að maður veltist um af hlátri oftar en ekki og leiftrandi frásagnir hans eru magnaðar.  Bók sem gaman var að lesa.  Bókin er í raun tvískipt, fyrri hlutinn er samtalsbókin Í kompaníi við allífið sem kom út þegar meistarinn var sjötugur, árið 1959, og inniheldur hún fjölmörg samtöl sem Matthías átti við Þórberg á árunum 1958 og 1959.  Seinni hlutinn kallast Enn um Þórberg og þar birtast samtöl sem þeir félagar áttu saman fimm árum síðar sem og ritgerð þar sem Matthías segir frá kynnum þeirra.
emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon

26.des ´09  Í forheimskunarlandi - Pétur Gunnarsson
Seinni hlutinn af sögunni um Þórberg Þórðarson.  Gefin út af JPV útgáfu 2009.
Bók sem stendur fyrri hlutanum lítt að baki.  Frábærlega skrifuð og gefur góða mynd af tíðarandann allt frá byrjun seinni heimsstyrjaldar til dánardægurs Þórbergs 1974.  Einstök mynd er dregin upp af þessum stílsnillingi sem Þórbergur var og gerð grein fyrir þeim sem hann umgekkst mest sem og ýmsum sögulegum atburðum.  Heldur miklu púðri þó varið í umfjöllun um sósíalismann að mínu mati en það var hina eina rétta stefna að mati Þórbergs þó ekki hafi þó spilast úr henni eins og hann vildi og sá fyrir sér.  En lífssólófía Þórbergs er einföld og falleg og svo sannarlega þess virði að tileinka sér ýmislegt úr henni.  T.d. það að láta ekki markaðsöflin spila svona með okkur og margt sem hann skrifaði um hina botnlausu græðgi sem hrjáir margan mannin er nú aldeilis komið fram á Íslandi í dag.  Góð lesning, fróðleg og hægt að læra af henni.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
24.des ´09  Í fátæktarlandi - Pétur Gunnarsson
Fyrri hlutinn af þroskasögu rithöfundarins og stílsnillingsins Þórbergs Þórðarsonar.  Gefin út af JPV útgáfu 2007.
Einstaklega skemmtileg bók þar sem einn ritsnillingurinn og húmoristinn skrifar um annan af sama meiði.  Frásögnin byrjar þar sem Þórbergur kemur til höfuðborgarinnar og ætlar sér að verða rithöfundur sem gengur brösulega.  Á einhverju þarf víst að lifa og ekki mikið um vinnu í Reykjavík þessa tíma, hvað þá vinnu sem gefur eitthvað í aðra hönd, og Þórbergur ekki mesti verkmaður sem gengið hefur á þessari grundu, hann var meira fyrir það að hugsa!  Skrautleg kvennamál blandast fljótlega inn í söguna og hinar og þessar persónur þekktar sem óþekktar.  Miðbær Reykjavíkur suðupottur listamanna sem höfðu mikil samskipti og þá helst í Unuhúsi eins og frægt er orðið.  Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þegar hún kom út og Morgunblaðið kaus hana bestu bók ársins og þá átti hún svo sannarlega skilið.  frábærlega skrifuð og mikil rannsóknarvinna liggur að baki hjá Pétri í ýmsum gögnum og bókum, margt sem ekki hefur áður sést á prenti eða verið á vitorði fólks um líf og störf Þórbergs.  Glæsileg bók. emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
23.des ´09  Hljómagangur - Jón Hjartarson
Ævisaga tónskáldsins og popparans Gunnars Þórðarsonar gefin út af Bókaútgáfunni Æskunni 2008. 
Merkileg saga og skemmtileg lensning.  Gunnar er sá maður úr poppinu sem hefur nú ekki beint verið að trana sér fram í fjölmiðlum í gegnum árin, hæverskur og rólegur, snillingur á tónlistarsviðinu og hefur samið fleiri dægurperlur en flestir aðrir og hvorki fleiri né færri en 600 lög eftir hann hafa verið gefin út.  Bláu augun þín er fyrsta lagið hans sem kom út og síðan hafa þau komið hvert af öðru með ýmsum hljómsveitum og söngvurum og mörg hver innibyggð í íslenska þjóðarsál. En eitt og annað hefur á daga hans drifið sem áhugavert er að lesa um; poppárin í Keflavík, heimsfrægð sem ekki varð, vímuefnanotkun, ástarævintýri, samskipti við ýmsa tónlistarmenn og ekki síður það sem hann hefur verið að fást við undanfarin ár þ.e. að semja klassíska tónlist. emoticon emoticon emoticon emoticon 
  
21.des ´09  Þá verð ég farinn - Hafliði Magnússon
Smásögur úr sarpi sveitunga míns að vestan, alþýðulistamannsins Hafliða, sem er ótrúlega fjölhæfur listamaður og hefur hann sent frá sér skáldsögur, gamanvísna- og smásagnakver, samið söngleiki og leikþætti, haldið málverkasýningar, teiknað í blöð og bækur, spilað fyrir dansi, samið lög og texta svo eitthvað sé nefnt.  Ekki að ósekju að hann gengur undir nafninu "Skáldið" fyrir vestan.  Bókin er gefni út af Vestfirska forlaginu á þessu ári, 2009.
Oftast er það húmorinn sem ræður ríkjum í skrifum Hafliða en hér er róið á önnur mið að mestu og er það gott hjá Skáldinu að sýna á sér nýja hlið.  Sögur úr ýmsum áttum sem gerast í nútímanum, spennusögur, ástarsögur og ævintýri.  Erótík og rómantík ekki langt undan, undarlegir atburðir og skemmtilegar persónur.  Ágætlega gert hjá Liða og sögurnar dúkka upp í kollinn á manni næstu daga eftir lesturinn. emoticon emoticon 
 
21.des ´09  Hálmstráin - Magnús Sigurðsson
Smásögur sem fléttaðar eru saman á skemmtilegan hátt af þessum unga höfundi.  Gefin út af Uppheimum 2008.
Bók sem kom skemmtilega á óvart þó efni sagnanna höfðaði misjafnlega til manns.  Þetta er fyrsta bók höfundar, fágaðar stíll og sérstakur.  Bókin fjallar um glímu höfundar við ritlistina í sólríkri borg við Miðjarðarhaf en inn blandast sögur frá æskuárunum, flókin ástarmál og fleira.  Skemmtileg lesning, alltaf áhugaverð og hélt manni við efnið. emoticon emoticon emoticon 
 
8. des ´09   Kvæði - Jakobína Sigurðardóttir
Ljóð þessarar merku skáldkonu í bók sem gefin var út af Heimskringlu 1960.
Margt góðra ljóða í þessari bók.  Eldheit ættjarðarljóð samin í skugga hersetu og inngöngu í Nató, en einnig fallegar náttúrulýsingar úr vestfirsku landslagi, ljóð til fjölskyldumeðlima og fleira.  Mikill þungi undir niðri og skáldinu liggur mikið á hjarta.  Haganlega samið og fram sett. emoticon emoticon emoticon

14. nóv ´09 Að norðan - Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
Fimmta ljóðabók þessa skáldjöfurs og kom hún út 1936, útgefandi er Þorsteinn M. Jónsson.
Mörg gullkorn hér eins og von var, brennandi rómantík og ástir, þjóðsögurnar, félagslegt réttlæti, náttúrulýsingar og ýmislegt fleira kemur við sögu.  Við lestur sumra ljóðanna stendur maður á öndinni, sérstaklega þykir mér ástarljóðin mögnuð í þessari bók, t.d. ljóðið Nú veit ég ..., alveg magnað.  Svo er þarna líka ljóðið Þú komst í hlaðið o.fl. o.fl góð.  emoticon emoticon emoticon emoticon

4. nóv ´09   Undir hamrinum - Jón frá Pálmholti
Ljóðabók, sú fjórða frá höfundi og sú fyrsta sem ég hef séð og lesið eftir hann.  Gefin út af Ísafoldarprentsmiðju 1973.
Óhefðbundin ljóð, ljóðabálkar og nokkur þýdd ljóð eru innihald þessarar bókar.  Margt vel gert en ég átti erfiðast með að ná tengingu við ljóðabálkana í byrjun bókarinnar, stöku ljóðin mörg hver mjög góð og ljóðaþýðingarnar áhugaverðar eftir skáld frá ýmsum löndum.  emoticon emoticon emoticon

2. nóv ´09   Lífið er skáldlegt - Jóhann Hjálmarsson
Ljóðabók, sú ellefta frá þessu afkaastamikla skáldi, gefin út af Iðunni 1978.
Þriðja bókin sem ég les eftir Jóhann og sú sem mér hefur gengið best að ná tengingu við.  Falleg ljóð sem og nokkur ágeng, nokkur ort í orðastað fimm ára stúlku (dóttur höfundar ?) og eru þar skemmtilegar hugmyndir.emoticon emoticon emoticon

31. okt ´09  Mér líður vel Þakka þér fyrir - Ingi Steinar Gunnlaugsson
Þessa bók færði höfundur Ljóðasetrinu á síðustu ljóðahátíð hér á Siglufirði.  Þetta er önnur ljóðabók hans, kom út hjá Hörpuútgáfunni 1999.
Vandaður og hnitmiðaður kveðskapur sem gott og gaman er að lesa.  Skemmtilegar myndir og hugmyndaríkur kveðskapur sem þó er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að skoða vel því á bak við grínið og kaldhæðnina, sem stundum bregður fyrir, er alvara en höfundur kemur efninu þannig frá sér að hún er alltaf áhugaverð.  Fallegar náttúrumyndir, ástin og undirliggjandi tregi setja mynd sína á efni þessarar bókar sem mér féll sérstaklega vel við.  emoticon emoticon emoticon emoticon

30. okt ´09  Lestin til Lundar - Njörður P. Njarðvík
Ljóðabók sem gefin var út af Iðunni 1973.
Áhugaverð og fjölbreytt yrkisefni, náttúrulýsingar, ádeiluljóð, innhverf ljóð auk pælinga um tíma og rúm. Vel gert, teiknar upp skýrar myndir, fær mann til að hugsa um misskiptingu lífsgjafanna og horfa svoltítið inn á við.  emoticon emoticon emoticon

28. okt ´09   Siglfirskar þjóðsögur og sagnir - Þ. Ragnar Jónasson
Fyrsta bókin í flokknum Úr Siglufjarðarbyggðum, kom út hjá Vöku-Helgafelli 2006.
Í þessari bók beinir Þ. Ragnar sjónum sínum að þeim fjölbreyttu þjóðsögum sem tengjast mannlífi í Siglufjarðarbyggðum í aldanna rás.  Margar sagnanna birtust í fyrsta sinn í þessari bók og hafði Ragnar skráð þær efir siglfirskum heimildarmönnum, aðrar eru fengnar úr handritum annarra eða valdar úr ýmsum bókum, blöðum eða tímaritum.  Hér má m.a. finna draugasögur, sögur af huldufólki, sögur af undarlegum viðburðum og baráttu við óblíð náttúruöfl.  Þetta er mikið safn, vel á annað hundrað sögur, lipurlega skrifaðar og áhugaverðar.  emoticon emoticon emoticon

27. okt ´09  Myndir úr víkinni - Finnur Torfi Hjörleifsson
Ljóðabók sem gefin var út af Uppheimum 2005.  Sjötta ritverk höfundar, myndskeytt af Guðmundi Sigurðssyni.
Þetta fannst mér skemmtileg og ljúf bók aflestrar.  Ljóðin eru blátt áfram og látlaus, náttúran og staða mannsins í henni koma mikið við sögu og skyldur mannsins við umhverfi sitt.  Ljóðin eru samin í Englendingavík í Borgarnesi og gefa góða mynd af umhverfinu og stemmningunni.  Myndir Guðmundar setja skemmtilegan svip á bókina og gefa ljóðunum aukna dýpt.  emoticon emoticon emoticon  

19. okt ´09  Bláknöttur dansar - Pjétur Hafstein Lárusson
Ljóðabók sem kom út hjá Iðunni 1989. 
Bókin skiptist í þrjá kafla; Reykjavíkurljóð, örfá og öguð ljóð og sex svipmyndir frá Café Norra Klara í Stokkhólmi þar sem höfundur bjó á þessum árum.  Ágætis bók, bestur fannst mér millikaflinn, þar eru skemmtilegar pælingar, meitlaðar hugsanir og góð skilaboð.  Fyrsta bókin sem ég les eftir Pjétur en hann hefur sent nokkrar frá sér. emoticon emoticon 

11. okt ´09   Siglfirskir söguþættir - Þ. Ragnar Jónasson
Önnur bók höfundar í flokknum Úr Siglufjarðarbyggðum en fyrir fyrstu bókina Siglfirskar þjóðsögur og sagnir hlaut hann Menningarverðlaun Siglufjarðar 1997.  Bókin kom út hjá Vöku-Helgafelli 1997.
Bókin er skipt í þrjá megin kafla sem heita Byggðir á norðurslóð, Merkir menn og Líf og saga.  Í þeim fyrsta er lýst staðháttum, örnefnum, sögu og mannlífi.  Í öðrum kaflanum er fjallað um nokkra menn sem settu svip á byggðina á árunum 1880-1920 s.s. eins og Snorra Pálsson, Hafliða Guðmundsson, Jóhann Jónsson skipasmið o.fl.  Í síðasta kaflanum er svo fjallað um ýmsa atburði sem mörkuðu djúp spor í sögu þessa byggðarlags s.s. mannskæð snjóflóð, upphaf síldarsöltunar, stofnun bókasafns, upphaf skólastarfs o.fl.  
Þessi bók er á allan hátt hinn áhugaverðasti lestur og ætti í raun að vera skyldulesning öllum Siglfirðingum til að kynnast uppruna sínum og staðarins. Öðlast skilning á því hvað forfeður okkar máttu búa við í þessu harðbýla landi um aldir, kynnast dugnaði þeirra og ósérhlífni þegar vandi og hætta steðjaði að og fræðast um það á hverjum við byggjum okkar líf og starf. emoticon emoticon emoticon emoticon 
  
30.sept ´09  Síldarævintýrið á Siglufirði - Björn Dúason
Björn Dúason ólst upp á Siglufirði á síldarárunum og bjó þar allt til 38 ára aldurs.  Í þessari bók, sem hann gaf út sjálfur, tekur hann saman ýmsa þætti sem lúta að síldarárunum og þeim ævintýrum sem gerðust þá.  Einnig segir hann frá ýmsum sem koma við sögur s.s. sr. Bjarna Þorsteinssyni, Hafliða Guðmundssyni o.fl.  Aðallega er fjallað um fyrstu árin þ.e. frá 1900-1920 og hvernig þetta litla þorp byggðist upp í að verða kaupstaður þar sem þúsundir manna dvöldu við vinnu.  Seinni hluti bókarinnar er tileinkaður ýmsum kveðskap í léttum dúr sem Björn hefur haldið saman og var t.d. samin fyrir revíusýningar á Siglufirði, birtist í tímaritum á staðnum o.fl.  Þarna koma ýmsir við sögu og sagan er sögð frá annarri hlið en í fræðiritum, en gefur kannski ekki síðri mynd af því sem var um að vera á Siglufirði á þessum árum.  Mikið af þessum kveðskap er ekki til annars staðar en hjá höfundi og á hann sannarlega lof skilið að halda þessu til haga. 
Þetta var hinn áhugaverðasti lestur að mörgu leyti.  emoticon emoticon emoticon

14. sept´09  Sjáðu fegurð þína - Kristín Ómarsdóttir
Þessa bók fékk Félag um Ljóðasetur gefins frá forlaginu Uppheimum á Ljóðahátíðinni Glóð 2009, ásamt fleiri bókum sem forlagið hefur gefið út.  Þessi kom út 2008.
Kristín hefur sent frá sér mörg og mjög mismunandi skáldverk; ljóðabækur, leikrit, smásögur og skáldsögur og þetta er sjöunda ljóðabók hennar.  Áleitin og óvægin ljóð á köflum, eins og segir á bókarkápu .. leiðin liggur um ansi naprar slóðir, og mörg þeirra fá mann til að velta hlutunum fyrir sér á nýjan hátt og kannski þann hátt sem maður vill helst bægja frá sér.  Sum ljóðanna mætti jafnvel kalla örsögur.  Margt vel gert, góður texti þar sem ekkert er falið, en þetta er kannsi ekki texti sem þér finnst þægilegt að lesa þrátt fyrir titilinn.  Ég er soddan rómatíker í mér að þessi ljóð snertu óþægilega við mér, en er það kannski ekki það sem ljóð eiga að gera líka, ekki bara að láta manni líða vel.  emoticon emoticon emoticon 
 
9. sept ´09 Ljóð vega menn - Sigurður Pálsson
Ljóðabók eftir þennan þekkta höfund, hans fyrsta ljóðabók eftir því sem ég best veit.  Gefin út af Máli og menningu 1980.
Fyrsta bókin sem ég les eftir Sigurð og þótti hún nokkuð góð.  Sérstaklega fannst mér áhugaverður fyrsti kaflinn sem ber heitið Á hringvegi ljóðsins og rímar skemmtilega við titil bókarinnar.  Mikið af skemmtilegum myndum og líkingum. emoticon emoticon emoticon

5. sept ´09 Hátíðarljóð 1968 - Ýmsir höfundar
Nokkuð sérstakt ljóðasafn, gefið út af Sverri Kristinssyni 1968.
Innihald þessa ljóðasafns eru 26 óverðlaunuð ljóð úr ljóðasamkeppni sem haldin var af Stúdentafélagi Íslands í tilefni af 50 ára fullveldi Íslands.  Nefndin sem velja átti besta ljóðið komst að því að ekkert ljóðanna verðskuldaði verðlaun!  Vakti þetta mikla athygli og því bað útgefandi skáld þau sem tóku þátt í samkeppninni að veita sér leyfi til að gefa ljóðin út og urðu 26 þeirra við því.  Nokkur þekkt nöfn eru þeirra á meðal m.a. Kristján frá Djúpalæk, Þorsteinn Valdimarsson o.fl.  Áhugaverð lesning en nokkuð einsleit eins og von er.  Ættjarðarljóð af ýmsum gerðum og lengdum.  Nokkur ljóðanna eru nú vel boðleg og undarlegt að dómnefndin hafi komist að þessari niðurstöðu. emoticon emoticon

4. sept ´09 Hraðar en ljóðið - Stefán Snævarr
Ljóðabók gefin út af Greifanum af Kaos 1987.
Innihald þessarar bókar þótti mér frekar klént og vakti í raun engan áhuga hjá mér. emoticon

29. ág ´09 Örn Arnarson Minningaþættir - Kristinn Ólafsson
Lítil bók, í ritröðinni Smábækur Menningarsjóðs, sem kom út 1964.
Hér segir frá rithöfundinum Magnúsi Stefánssyni sem ávallt kallaði sig Örn Arnarson. Efni bókarinnar eru þrjú útvarpserindi sem flutt voru í Ríkisútvarpinu 1951 af Kristni Ólafssyni en hann þekkti vel til skáldsins og var m.a. kostunarmaður af frumútgáfu Illgresis, þekktustu bókar Arnar, árið 1924.  Örn lést árið 1942 og þó kvæði hans væru þjóðþekkt var hann lítt þekktur og vildi frekar halda sig til hlés.  Hann var bæði hlédrægur og hógvær og var tregur til að birta kvæði sín.  Gerði hann það helst ekki nema fyrir atbeina annarra.  Bókin er góð lesning um mann sem fór einförum en skildi eftir sig merkan ljóðaarf. emoticon emoticon emoticon 
 
24. ág ´09 Ljóð og lausavísur - Haraldur Hjálmarsson
Ljóða og vísnasafn Haraldar Hjálmarssonar frá Kambi í Deildardal sem var lansþekktur hagyrðingur á sínum tíma, sérstaklega flugu vísur hans um drykkju og drykkjuskap víða.  Björn Dúason annaðist útgáfuna.
Haraldur þessi var fæddur og uppalinn í Skagafirðinum en bjó síðar á ævinni á Siglufirði, Sauðárkróki og Reykjavík.  Var hann nokkuð gefinn fyrir sopann eins og vísur hans bera með sér en gæddur ríkri skáldagáfu sem hann hefði eflaust getað notað til stærri verka á listasviðinu ef honum hefði staðið hugur til þess.  Hann lærði kjötiðn og starfaði við þá grein, varð síðar verslunarstjóri fyrir sunnan og endaði starfsævina sem bankaritari.  Það eru margar snilldar vísur í þessu safni en margar af hans vísum fóru þó forgörðum því hann gerði ekki mikið af því að skrifa þær niður og vísurnar urðu oft til á augabragði .."fyrir þann sem næstur stóð", eins og skáldið orti sjálfur.  Skemmtileg lesning og maður skellti oft uppúr.  emoticon emoticon emoticon

21. ág ´09 Til landsins - Ýmsir höfundar
Ljóðasafn sem gefið var út í tilefni af 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar.  Hörpuútgáfan gaf út árið 1974.
Ísland í ljóðum sautján nútímaskálda er undirtitill þessa ljóðasafns og má hér finna ljóð sem mörg af okkar þekktustu skáldum á síðustu öld sömdu til landsins og um landið okkar góða.  Má t.d. nefna höfunda eins og Jóhannes úr Kötlum, Tómas Guðmundsson, Stein Steinarr, Jón úr Vör, Stefán Hörð, Sigfús Daðason o.fl. stórskáld.  Ljómandi gott safn og hugmyndin góð.  emoticon emoticon emoticon

17. ág ´09 Ljóðárbók 1988 - Ýmsir höfundar
Ljóðasafn samtímahöfunda gefið út af Almenna Bókafélaginu 1988.  Hugmyndin var að svona bók kæmi út árlega.  Veit ekki hvað varð um þær fyrirætlanir, ég hef a.m.k. ekki séð fleiri slíkar.
Áuglýst var eftir ljóðum í bókina og skiluðu um tvö hundruð höfundar inn ljóðum.  Valin voru ljóð eftir 75 skáld, bæði þekkt og óþekkt, það yngsta fætt 1970 það elsta 1905.  Er bókin því ágætt vitni um breidd í íslenskri ljóðagerð á þessum tíma, strauma og stefnur.  Að mínu mati var efnið hér mjög misjafnt að gæðum þó aðeins hafi verið valin ljóð sem stæðust ákveðnar listrænar kröfur að mati dómnefndar.  emoticon emoticon emoticon

16. ág ´09 Faðmlag vindsins - Ragnhildur Ófeigsdóttir
Ljóðabók, fjórða slík frá höfundi, gefin út árið 1989 af Goðorði.
Fyrsta bók sem ég les eftir þennan höfund og hreifst nú ekki sérstaklega ef satt skal segja.  Ástarljóð mjög áberandi og báru flest nafnið Ástarljóð.  Sérkennileg og einhæf notkun á litum truflaði mig , ólíklegustu hlutir og fyrirbæri voru blá, svört, hvít og sérstaklega rauð, blóðrauð.  Nokkur dæmi:  svart skógarþykkni, blámi vorsins, blámi draumsins, þögnin er rauð, blá nóttin, rauða kornax, bláar varir, pálmarnir drekka blóð, ánum og lækjunum blæðir, sólin og máninn drekka blóð o.s frv.  Inn á milli birtast þó skemmtilegar ljóðmyndir.  emoticon emoticon 
   
14. ág ´09 Myndir og minningar - Tómas Guðmundsson færði í letur
Hér stiklar listmálarinn Ásgrímur Jónsson á stóru um ævi sína og listsköpun og Tómas Guðmundsson skráir.  Gefin út af Almenna Bókafélaginu 1956.
Skemmtileg lesning og áhugaverð að mörgu leyti.  Sérstaklega áhugavert fyrir mig að lesa um árin hans tvö á Bíldudal á tímum Péturs Thorsteinssonar en þar málaði Ásgrímur m.a. leikjöld. Hluta af þeim tókst að bjarga frá glötun fyrir tilstuðlan Jóns Kr. söngvara fyrir vestan og eru þau nú innrömmuð í félagsheimilinu fyrir vestan.  Einng var mjög áhugavert að lesa um sýn hans á hina ýmsu staði og hvernig hann skynjaði þá með sínum listamannsaugum.  emoticon emoticon emoticon  

13. ág ´09 Það var vor - Guðbjartur Ólafsson
Þessa fann ég í Góða hirðinum og kom hún skemmtilega á óvart.  Gefin út af Bókaútgáfunni Von 1967.
Hér er um að ræða ljóðabók eftir ungan dreng sem lést aðeins 19 ára að aldri og bókin var gefin út að honum látnum.  Hér var greinilega á ferðinni mikill efnispiltur og efni í gott skáld.  Ótrúlega þroskaðar hugsanir koma fram í þessum ljóðum miðað við aldur ljóðskáldsins.  emoticon emoticon emoticon

12. ág ´09 Meðan sól er enn á lofti - Anna S. Björnsdóttir
Þriðja bókin sem ég les efit höfund, ef ég man rétt, gefin út af höfundi 2001.
Sem fyrr er það ástin sem ræður ríkjum í kveðskap Önnu en í þetta sinn blandast sorgin sterkt inn í kveðskapinn því svo viðist sem ástvinur hennar hafi látist.  Mörg falleg, vel byggð og innhaldsrík ljóð sem hreyfa við manni.  emoticon emoticon emoticon emoticon

11. ág ´09 Sagnamaðurinn Örn Clausen
Enn eru það gamansögurnar, fann þessa í Góða hirðinum og greip hana strax.  Eyrún Ingadóttir skrásetti, gefin út Veröld 2005.
Skemmtilegar en nokkuð stórkallalegar sögur á köflum enda ekki neinir meðalmenn sem koma við sögu s.s. þeir tvíburabræður Örn og Haukur, Jóhannes á Borg, Gunnar Huseby, Albert Guðmundsson, Jónas frá Hriflu, Páll Ísólfsson o.fl.  Sérstaklega fannst mér gaman að lesa sögur af hinum glæsta en allt of stutta íþróttaferli þeirra bræðra, en þeir hættu æfingum og keppni aðeins 22 ára og voru þá meðal bestu frjálsíþróttamann heimsins.  Stuðningur við íþróttamenn í þá daga var lítill sem enginn og mikil synd að þannig fór.  En lesningin var góð.emoticon emoticon emoticon

10. ág ´09 Íslenskar gamansögur 2 - Guðjón Ingi Eiríksson
Það var ekkert hægt að stoppa svo maður renndi í gegnum 2. bindi líka.  Gefin út af Bókaútgáfunni Hólar 2008.
Í svipuðum dúr og bókn nr. 1, nema hvað, og sögurnar ekki síðri.  Bestar fannst mér sögurnar af Lása kokk, en sumar þeirra hafði ég nú reyndar séð áður á prenti.  emoticon emoticon emoticon
 
10. ág ´09 Íslenskar gamansögur 1 - Guðjón Ingi Eiríksson
Rakst á þessa og 2. bindi á spottprís í Hagkaup og ákvað að skella mér á þær þar sem maður er nú að skrifa eitthvað álíka í 50 Gamansögum frá Siglufirði.  Gefin út af Bókaútgáfunni Hólar 2007.
Skemmtileg lesning af ýmsu fólki, landsþekktu sem ö0ðru.  Þó nokkuð af smellnum vísum, m.a. frá þeim bræðrum Hákoni og Ragnari Inga Aðalsteinssonum og fannst mér þær bera af í þessari mislitu flóru gamansagna sem hér er boðið uppá.  Oft hægt að brosa og stundum skella upp úr.  emoticon emoticon emoticon

5. ág. ´09  Bjarni Torarensen - Kvæði
Ljóðasafn gefið út af Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1954, Kristján Karlsson tók saman og ritaði æviágrip.
Bjarni er sannarlega einn af þjóðskáldum okkar þó ekki hafi hann ort mikið.  Mörg ljóða hans eru tækifæriskvæði sem eru misjöfn af gæðum og nokkuð torveld lestrar okkur nútímamönnum.  En önnur kvæði á hann sem allir þekkja svo sem Íslands minni sem hefst á orðunum Eldgamla Ísafold .. og fleiri sem margir kannast við.  Mörg ljóðanna eru harmþrunginn og dauðinn er oft umfjöllunarefnið eða kemur a.m.k. við sögu.  En það besta sem Bjarni orti er meðal þess besta sem við Íslendingar eigum í ljóðlistinni.  emoticon emoticon emoticon

3.ág. ´09   Gluggi - Ýmsir höfundar
Ljóðabók sem gefin var út af Ritlistarhópi Kópavogs árið 1996 í tilefni af 40 ára afmæli Kópavogs árinu áður.
Áhugavert ljóðasafn en misjafnt af gæðum.  Alls eiga 19 skáld úr Kópavogi, þekkt og óþekkt, ljóð í bókinni.  Má þar t.d. nefna Jón úr Vör, Gylfa Gröndal, Geirlaug Magnússon og síðan minni spámenn.  Ágætasti lestur.  emoticon emoticon emoticon

24.júlí ´09  Böðvar Bjarnason - Ljóðmæli
Ljóðmæli frænda míns Böðvars, sem var prestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð í um 40 ár.  Hann var bróðir langafa míns, Hannesar Stephensen,  og faðir hljómsveitarstjórnans Bjarna Bö og því afi Ragga Bjarna.
Böðvar var mikill atorku- og hæfileikamaður eins og hann átti kyn til.  Sonur stórbóndans Bjarna frá Reykhólum sem var annálaður dugnaðarforkur og höfðingi á alla lund.  Í móðurættina var skáldagáfan rík og má þess t.d. geta að amma Böðvars var systir Jóns Thoroddsens skálds.
Ljómandi fín lesning, æviágrip í byrjun sem gefur góða mynd af manninum, prestinum og skáldinu Böðvari.  Ljóðin vísa mörg til trúarinnar, sálmar, erfiljóð og hugleiðingar um veru okkar á þessari jörð og framhaldinu að þeirri veru lokinni.  Rakst m.a. á erfiljóð um langafa minn Hannes sem lést aðeins 53 ára að aldri sem og um ömmubræður mína tvo sem létust á barnsaldri vegna veikinda.  Fínn kveðskapur hjá frænda og áhugaverður lestur, sérstaklega fyrir kunnuga. emoticon emoticon emoticon   

23.júlí ´09  Jónas Friðgeir - Ber er hver ...
Ljóðabók, gefin út af Fjölva útgáfunni 1991. 
Ein af nokkrum ljóðabókum sem Logi bróðir keypti fyrir mig á markaði fyrir vestan.  Fimmta ljóðabók höfundar, en sú fyrsta sem ég sé og les.  Mér fannst margar snjallar hugmyndir og orðaleikir í bókinni en það vantaði einhvern veginn að klára að vinna betur úr þeim og koma þeim betur frá sér.  Ljóð um lífið, guð, efasemdirnar, dyggðirnar, ástina, óttann og ýmislegt fleira sem skáld hafa velt fyrir sér í tímans rás.  En hér vantar svolítið uppá úrvinnsluna svo útkoman yrði verulega góð. emoticon emoticon

22.júlí ´09  Ísak Harðarson - Hvítur ísbjörn
Ljóðabók frá þessum athyglisverða höfundi, gefin út af Forlaginu árið 1995.
Fyrsta heila bókin sem ég les eftir Ísak og víða glytti í þá snilldar orðaleiki og ný sjónarhorn sem maður hefur séð í ljóðum hans í hinum ýmsu bókum og blöðum.  En efnið er svolítið sundurlaust og svona sitt úr hvorri áttinni, mér fannst vanta meiri heild og flæði í gegnum bókina.  Enda kom það í ljós í lokaorðum frá höfundi að sú var raunin.  Flest ljóðanna höfðu birst hér og þar, í blöðum og tímaritum á ýmsum tímum, einn kaflinn átti að verða bók og svo mætti áfram telja.  Eða eins og höfundur segir sjálfur "Því má segja að hlutar hamsins séu lítið annað en pjötlur komnar sín úr hverri áttinni ..."  En margt mjög snjallt og hittir í mark.  emoticon emoticon emoticon

21.júlí ´09  Njáll Sighvatsson - Lítil kvæðabók
Lítið ljóðakver sem gefið var út af Vestfirska forlaginu. Finnbogi Hermannsson bjó til prentunar.
Hér er komið úrval af kveðskap sveitunga míns, ef svo má segja, en Njáll þessi bjó í Arnarfirði megnið af sinni ævi.  Hann var fæddur 1872 og dó árið 1950.  Hann var sannkallað alþýðuskáld í Auðkúluhreppi í Arnarfirði og orti mikið af tækifærisvísum auk kvæða heimspeki- og trúarlegs eðlis.  Brauðstriðið var þó ofan hverri kröfu og fátækt mikil.  Hér er á ferð alþýðukveðskapur af bestu gerð sem veitir innsýn í líf og störf fólks á skeiði Njáls.  Margt vel kveðið.  emoticon emoticon emoticon 
 
20.júlí ´09  Magnús Sigurðsson -Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu
Ljóðabók sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2008.  Gefin út af Uppheimum það sama ár.
Sérstök ljóðabók því hún inniheldur bæði ljóðaþýðingar og frumort ljóð sem kallast á.  Auk þess bregður fyrir erlendum tungumálum í kveðskapnum.  Ástin og sambandsslit leika stærsta hlutverkið.  Þýðingarnar eru úr kveðskap rómverskra stórskálda og þarf líklega meiri þekkingu á þeim tíma og persónum sem um er fjallað til að njóta sem best en frumortu ljóðin höfðuðu mörg hver til mín, skýr, beinskeytt og sett fram á ljósu máli.  emoticon emoticon emoticon

19.júlí ´09   Waris Dirie - Eyðimerkurblómið
Sjálfsævisaga þessarar merku konu, gefin út af JPV útgáfu 2001.
Eftir langt hlé frá lestri datt ég ofan í þessa bók og gat varla lagt hana frá mér fyrr en að loknum lestri.  Ótrúleg ævisaga þessarar sómölsku konu sem elst upp sem hirðingi við ótrúlega fátækt og harðræði í eyðimörkum Afríku.  Flýr frá fjölskyldu sinni 13 ára gömul þegar á að gifta hana 60 ára gömlum manni og endar sem heimsfræg fyrirsæta eftir ýmiskonar raunir og ævintýri.  Starfar sem sérlegur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að berjast gegn umskurði kvenna sem hún gekk sjálf í gegnum aðeins fimm ára gömul og hrottalegri verknað er varla hægt að ímynda sér.  Þúsundir afrískra kvenna og stúlkna deyja vegna umskurðar eða afleiðingum hans enn þann dag í dag.  Vel skrifuð og holl lesning fyrir alla sem taka lífið og velmegun nútímans sem gefnum hlut.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
23.apríl ´09  Jakob Thorarensen - Sprettir
Ljóðabók sem gefin var út árið 1919 af Þorsteini Gíslasyni.
Önnur ljóðabókin sem ég les eftir Jakob. Innihaldið gott þó yrkisefnin séu mjög sitt úr hvorri áttinni.  Inniheldur eitt af þekktustu ljóðum Jakobs, Ásdís á Bjargi, sem fjallar um móður Grettis,  hennar innri baráttu og ást til hins ólánsama sonar hennar, útlagans Grettis.  Í bókinni eru góðir sprettir en annað hittir mig ekki.  emoticon emoticon emoticon 
 
18.apríl ´09  Grímur Thomsen - Ljóðmæli
Enn ein af bókum Menningarsjóðs og nú er það þjóðskáldið Grímur Thomsen sem er til umfjöllunnar.  Bókin kom út árið 1946.
Grímur var af góðum ættum og ólst upp á Bessastöðum.  En hann gekk nokkuð aðrar götur en aðrir Íslendingar framan af ævi sinni því hann komst til metorða í dönsku utanríkisþjónustunni eftir nám í Kaupmannahöfn og dvaldist langdvölum erlendis allt fram á fimmtugsaldur þegar hann fluttist heim og tók við búi á Bessastöðum og varð þingmaður um margra ára skeið.  En það er kveðskapurinn sem heldur nafni hans á lofti.  Hann byrjaði að yrkja á unga aldri og birti sín fyrstu ljóð þegar hann var við nám í Kaupmannahöfn, þar sem hann var m.a. í góðu vinfengi við Fjölnismenn, en þegar hann hóf að starfa fyrir danska utanríkisráðuneytið og sækja sér frama á því sviði einangraðist hann mikið og orti lítið eftir því sem best verður séð.  Það var svo ekki fyrr en hann flytur heim aftur sem kveðskapur hans varð kunnur og reyndar kom fyrsta ljóðasafn hans ekki út fyrr en hann var sextugur og þekktustu og bestu ljóð sín yrkir hann eftir það.  Grímur var umdeildur og hafði ákveðnar skoðanir sem ekki féllu öllum í geð en kveðskapur hans er óumdeilanlega glæsilegur þegar best lætur.  Meðal þekktra ljóð hans eru Á Sprengisandi - Ríðum, ríðum rekum yfir sandinn ..., Á fætur - Táp og fjör og frískir menn ..., Skúlaskeið - Þeir eltu hann á átta hófa hreinum ... emoticon emoticon emoticon emoticon

8.apríl ´09  Kristján Jónsson - Ljóðmæli
Ein af þessum stórgóðu bókum sem Menningarsjóður gaf út um miðja síðustu öld, kom út 1949.  Hér er það Fjallaskáldið sjálft Kristján Jónsson sem er viðfangsefnið.  Sem fyrr er byrjað á stuttu æviágripi og fjallað um kveðskap skáldsins og síðan kemur úrval úr verkum hans.  Þetta eru góðar bækur fyrir þá sem vilja kynna sér okkar helstu skáld á fljótlegan og hentugan hátt.
Úrvals kveðskapur, eins og ráð var fyrir gert, en ekki er nú bjart yfir honum enda átti Kristján harða en stutta ævi, lést á 27 aldursári.  Hann var þunglyndur og drykkfeldur en skáldagáfan var ríkuleg.  Skáldið sem orti t.d. Þorraþrælinn, Yfir kaldan eyðisand, Tárið og fleiri sígild ljóð sem flestir kannast við.  Þarna var einnig að finna falleg ljóð og náttúrulýsingar eins og t.d. í ljóðinu Morgunn sem hefst á þessum orðum: Syngur ástar sætum róm- svanur í bláum straumi, ... og í ljóðinu Lindin - Til þín, vina, fljótt ég fer - fagra lindin grænna dala ....  Já, sannkallað stórskáld hér á ferð sem kvaddi allt of snemma. emoticon emoticon emoticon emoticon 

29.mars ´09  Álftirnar kvaka - Jóhannes úr Kötlum
Önnur ljóðabók Jóhannesar, sú fyrsta hét að sjálfsögðu Bíbí og blaka.  Þessi var gefin út 1929.
Fínasti kveðskapur en svo sem engin stórvirki.  Ég kannaðist aðeins við örfá ljóðanna s.s. titilljóðið sem hefst á þessum línum: Bráðum er brotinn - bærinn minn á heiði.  Margt fallega gert en einhvern veginn bjóst ég við meiru.  Maður er kannski bara orðinn svona góðu vanur eftir að hafa legið yfir Þyrnunum hans Þorsteins. emoticon emoticon emoticon 
 
14. mars ´09 Þyrnar - Þorsteinn Erlingsson
Þriðja prentun - aukin - af þessari tímamótabók.  Þessi útgáfa kom út 1918, fjórum árum eftir lát Þorsteins.  Inniheldur hún m.a. minningarorð nokkurra mektarmanna og félaga Þorsteins sem fjalla um skáldið og manninn Þorstein.  Bætt hefur verið við töluverðu af ljóðum frá fyrri prentunum og hér má líta margan dýrgripinn í ljóðaheimi okkar Íslendinga.  Þessi kveðskapur Þorsteins er svo áferðarfallegur og eðlilegur að unun er að lesa margt af því sem hann gerði.  Hann var bæði ádeiluskáld og rómantíker en í öllum sínum kveðskap hafði hann málstað lítilmagnans í huga og ást sína og aðdáun á landinu og dýrunum.  Sannleikurinn, kærleikurinn og réttlætið var honum efst í huga og honum lá oft mikið á hjarta.  Magnaður lestur á köflum.  emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon

12.mars ´09 Snæljós - Jakob Thorarensen
Líklega fyrsta bók höfundar, kom út 1914, ljóðabók nema hvað. 
Mörg falleg ljóð í þessari litlu bók og hún var skemmtileg aflestrar.  Ljóð um náttúruna, ástina og dýrin og nokkur drungaleg.  Ég hef ekki lesið mikið eftir Jakob en mér sýnist að hann hafi verið nokkuð vanmetið ljóðskáld, a.m.k. heyrir maður ekki nafn hans nefnt oft. emoticon emoticon emoticon

1.mars ´09  Þyrnar - Þorsteinn Erlingsson
Ein af merkustu ljóðabókum okkar og sú fyrsta sem Þorsteinn sendi frá sér.  Þetta er 1. útgáfa 2. prentun gefin út af Prentsmiðjunni Gutenberg 1905.  Bók sem ég fékk til Ljóðasetursins frá Bókasafni Siglufjarðar.
Yndisleg lesning á köflum og inniheldur mörg af þekktustu ljóðum þessa stórskálds.  Bók sem var lengi á náttborðinu og gripið í hana öðru hvoru og alltaf fann maður eitthvað nýtt að dást að.  Ættjarðarljóð, kveðjur til vina, æskuminningar, gamanvísur, erfiljóð og fleira í bland.  Kostagripur sem eldist eins og gott vín. emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon

24.feb.´09  Fjúkandi lauf - Einar Ásmundsson
Ljóðabók, nema hvað, gefin út af Almenna bókafélaginu sem bók mánaðarins í maí 1961.  Veit engin deili á höfundi en líst vel á innihaldið við fyrstu skoðun.
Margt vel gert og vel ort í þessari bók en á köflum er hún þó heldur þung og yrkisefnin of dapurleg.  Engu að síður fær hún emoticon emoticon emoticon
 
22.feb.´09  Vor sólskinsár - Kjartan Gíslason frá Mosfelli
Ljóðábók, þriðja slík frá höfundi, gefin út af Jens Guðbjörnssyni 1941.  Árituð bók og tölusett no.190 af 250 eintökum.
Svolítið sérstök efnistök og ljóð mjög misjöfn af gæðum að mínu mati.  Sumt ágætlega gert en annað mun síðra.  emoticon emoticon

18.feb.´09  Ferilorð - Jóhann S. Hannesson 
Ljóðabók sem gefin var út af Almenna bókafélaginu 1977.  Ljóð frá árunum 1956 - 1975.
Sum ljóðanna með ágætum og góðri blöndu af gamni og alvöru, önnur lakari eða höfðuðu ekki til mín a.m.k.emoticon emoticon 
 
17.feb.´09  Vængir draumsins - Ingólfur Jónsson frá Prestsbakka
Þriðja ljóðabók Ingólfs sem inniheldur m.a. ljóðið þekkta Bjart er yfir Betlehem.  Gefin út af Almenna bókafélaginu 1977.
Ljómandi fín bók hjá Ingólfi þar sem finna má ljóð frá ýmsum tímum og um ýmis efni.  emoticon emoticon emoticon 
 
15.feb.´09  Einar Benediktsson - Sigurður Nordal
Ritgerð Sigurðar um skáldjöfurinn og framkvæmdamanninn Einar í bókaformi.  Hún var uphaflega samin til að standa framan við Kvæðasafn Einars sem gefið var út 1964.  En kemur hér út aukin og endurbætt.  Gefin út af Helgafelli 1971.
Stutt og skorinort lýsing á manninum og skáldinu Einari Ben og fjallað um umsvif hans og áhugamál auk skáldskaparins.  Lýsingin verður að vísu nokkuð háfleyg á stundum en gefur gott yfirlit yfir helstu viðfangsefni Einars. emoticon emoticon emoticon

9. feb ´09  Angantýr Jónsson - Geislar og glæður
Jú, jú, enn ein ljóðabókin.  Þessi er gefin út á kostnað höfundar 1962 og er stór hluti hennar sýnishorn af ljóðagerð hans frá yngri árum eins og hann segir sjálfur frá í formála.
Ágætis kveðskapur úr hinni og þessari áttinni, tækifæriskveðskapur, náttúrulýsingar og mikið af skemmtilegum stökum. emoticon emoticon emoticon

5. feb ´09  Jón Magnússon - Flúðir
Önnur ljóðabók úr Kolaportinu.  Gefin út í Reykjavík 1935.
Ljómandi fínn kveðskapur hjá Jóni.  Bókin er þema/kaflaskipt og heitir fyrsti kafli Vígvellir og er  ádeila á stríðsbrölt mannsins og afleiðingar þess.  Annar kafli heitir Vala og fjallar um samnefnda konu sem lítur yfir farinn veg.  Síðan koma nokkur stök ljóð og bókin endar á kafla sem heitir Úr ævisögu Björns sýslumanns og er ansi áhugaverður og vel kveðinn.  Ég eignaðist einmitt um daginn heildarsafn Jóns sem heitir Bláskógar og mun örugglega lesa það við tækifæri. emoticon emoticon emoticon

3. feb.´09  Lilja Björnsdóttir - Vökudraumar
Lítil ljóðabók sem ég keypti í Kolaportinu eftir alþýðuskáldkonu frá Þingeyri.  Gefin út á kostnað höfundar árið 1948.
Í þessari bók sem lét ekki mikið yfir sér fann ég persónulegan fjársjóð.  Þegar ég var að fletta henni fyrir sunnan kvöldið sem ég keypti hana rakst ég á eftirmæli í ljóðaformi um konu sem bar kunnuglegt nafn.  Þegar ég ber þetta undir mömmu mína kemur í ljós að þarna er kveðið um langömmu mína frá Þingeyri og við húskveðju hennar voru skírð tvö barnabörn hennar.
Í bókinni er töluvert af tækifæriskveðskap og ýmsar stökur og margt vel gert. Eins og segir í inngangi - skáldskapur sem á hljómgrunn í hvers manns hjarta, bergmál hinnar íslensku þjóðarsálar.  emoticon emoticon emoticon

25.jan ´09  Jóhann Gunnar Sigurðsson - Kvæði og sögur
Helstu ljóð og sögur þessa efnilega skálds sem kvaddi allt of snemma.  Helgi Sæmundsson annaðist útgáfuna.  Önnur útgáfa, Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar 1943.
Jóhann Gunnar Sigurðsson lést aðeins 24 ára gamall úr berklum, það er ótrúlegt að hugsa til þess þegar maður les ljóð hans er.  Þau bera merki mikils þroska og má segja að þau séu flest ljúfir en sorgþrungnir ómar því líf hans var ekki dans á rósum.  Hann ólst upp í mikilli fátækt og var heilsulítill allt sitt líf, föður sinn missti hann ungur og varð fyrir miklum ástarharmi síðar á ævinni.  Síðustu árin sem hann lifði var ljóst hvert stefndi með heilsu hans og bestu ljóð sín yrkir hann á þeim árum.  Í bókinni eru einnig nokkrar smásögur sem fróðlegt var að lesa.  Helgi Sæmundsson segir m.a. svo í inngangi sínum: Hann lét aðeins eftir sig æskuverk og hafði engan veginn hlotið fullan þroska, er dauðinn sótti hann heim.  Hann féll eftir fyrstu sigra.
Þau voru mörg ljóðin sem snertu við manni í þessari bók.  Þó líklega ekkert sem síðasta ljóðið í bókinni, sem heitir Ég elskaði og margir kannast við úr bláu Skólaljóðunum.

Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.
Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.

Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,
sumar dánar, en sumar feigar.
emoticon emoticon emoticon emoticon

15.jan ´09  Ný kvæðabók - Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
Áttunda ljóðabók stórskáldsins frá Fagraskógi, gefin út af Þorsteini M. Jónssyni 1947.  Fallegt eintak sem ég náði í í Kolaportinu í byrjun árs 2009 fyrir lítinn pening.
Þetta er fyrsta ljóðabókin sem ég les eftir Davíð, skömm frá því að segja.  Þó í þessari bók séu ekki mörg þekkt ljóð þá er náttúrulega unun að lesa það sem þessi jöfur sendi frá sér.  Þekktustu ljóðin eru Kvæðið um fuglana - Snert hörpu mína himinborna dís - og ljóðið Askurinn um ævi og örlög annars skáldjöfurs Bólu-Hjálmars.  Einnig má hér finna ádeiluljóð á þann stríðsrekstur sem lagt hefur Evrópu í rúst, minni úr Íslendingasögunum, ljóð til þjóðernisvakningar o.fl.  Áhugaverður og góður lestur í alla staði. emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
11.jan ´09  Siglfirðingabók ´75 - Ýmsir höfundar
Bók sem gefin var út af Sögufélagi Siglufjarðar árið 1975 og inniheldur hún ýmsar frásagnir af mönnum og málefnum í Siglufirði og nærsveitum allt frá 1800 - 1975.
Skemmtileg bók og flott framtak hjá Sögufélaginu sem starfaði hér á Siglufirði um árabil að mér skilst.  Ýmsar skemmtilegar og fróðlegar frásagnir eins og t.d. frá hákarlaveiðum fyrir Norðurlandi og þróun þeirra, bráðskemmtileg skoplýsing af félagsstarfi í Siglufirði árið 1924 sem rituð var undir dulnefninu Hámundur halti, frásagnir Sigurjóns Sigtryggsonar af ýmsu fólki á svæðinu, blaðafregnir úr landsmálablöðum o.fl. Mér er ekki kunnugt um hvort fleiri slíkar bækur komu út en ef svo er væri gaman að eignast þær. emoticon emoticon emoticon 
 
9.jan ´09  Bók aldarinnar - Gísli Marteinn og Ólafur Teitur
Bók sem gefin var út af Nýja Bókafélaginu 1999 og inniheldur ýmsa lista um atburði, menn, landið of.l. sem báru hæst á síðustu öld.
Þetta er skemmtileg bók fyrir svona grúskara eins og mig og var ég að lesa hana í annað sinn, þó ekki frá orði til orðs.  Hér má sjá Topp 10 lista um allt mögulegt og ómögulegt, sumir byggðir á tölfræðilegum upplýsingum en aðrir á áliti stórs hóps álitsgjafa.  Hér má t.d. sjá að merkasta ljóðabók síðustu aldar er talin Ferð án fyrirheits eftir Stein Steinarr og bók Davíðs Stefánssonar Svartar fjaðrir sú næsta í röðinni.  Mín uppáhalds ljóðabók Þorpið er nr. 6.  emoticon emoticon emoticon

3.jan ´09  Jónas Hallgrímsson Ævimynd - Böðvar Guðmundsson
Ævisaga Jónasar Hallgrímssonar gefin út í tilefni af 200 ára árstíð hans 2007.  Böðvar Guðmundsson ritaði.
Virkilega skemmtileg lesning og góð kynni við listaskáldið góða og verk hans.  Falleg útgáfa og gaman að lesa um bakgrunn hinna ýmsu stórvirkja Jónasar í ljóðlistinni.  Líf skáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar var enginn dans á rósum og peningavandræði mikil eins og gjarnt var um skáld og aðra á þessum árum.  En hugurinn var frjór og tök hans á hinu íslenska máli stórkostleg.  Einnig er fjallað um tengsl hans við ýmsa samtíðarmenn og sérstaklega aðra Fjölnismenn og skólafélaga jafnt heima sem í Kaupmannahöfn og er það allt saman mjög fróðlegt þó margt af því hafi maður heyrt einhverntíman áður að sjálfsögðu.  Náttúrufræðingurinn Jónas fær einnig gott rúm í þessari sögu enda mikið verk sem liggur að baki hjá Jónasi í þeim efnum.  Skyldulesning allra unnenda íslenskrar ljóðlistar. emoticon emoticon emoticon emoticon

2.jan ´09 Sólvængir - Ingvar Agnarsson
Ljóðabók gefin út af Skákprenti 1989.
Þetta er fyrsta ljóðabókin sem höfundur gaf út en áður hafði hann gefið út bók um drauma og stjörnur eða stjörnufræði.  Þar er líka komið þemað í hans ljóðagerð en hún hverfist að mestu um sömu minnin þ.e. stjörnurnar og himintunglin, drauma og náttúruna.  Þetta er önnur ljóðabókin sem ég les eftir höfundinn og eru þær keimlíkar.  Í þessari eru þó nokkur ljóð um æskuna og æskustöðvarnar sem mér finnst lyfta þessari bók svolítið sem og ljóð um atburði úr Goðafræðinni.  En önnur ljóð renna ansi mikið saman enda yrkisefnin þau sömu eða svipuð blaðsíðu eftir blaðsíðu.emoticon emoticon 

28.des. ´08  Afmælisdagabók - Guðmundur Ingi Kristjánsson
Stór og mikil afmælisdagabók með vísum eftir vestfirska skáldið Guðmund Inga, sem hann setti saman í upphafi skáldaferils síns eða á árunum 1923-´32.  Glæsileg og vönduð útgáfa, gefin út af Holti - Friðarsetri 2007.  Vísurnar eru bæði birtar með eiginskrift Guðmundar og ritaðar. 
Það tók nokkra tíma að renna í gegnum þessa en það var alveg þess virði, margar góðar vísur eftir þennan fulltrúa bændastéttarinnar í skáldaheimum.  Guðmundur yrkir mikið um landið sitt, fjörðinn sinn, dýrin sín, vinnuna á bóndabýlinu en auk þess um allt þetta mannlega s.s. ástina, gleðina, fegurðina í mannfólkinu sem náttúrunni o.fl.  Einnig eru áberandi vísur um samvinnuna og samtakamáttinn enda Guðmundur ungmennafélagsmaður og mikill félagsmálamaður.  Glæsileg útgáfa sem gefin var út í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli skáldsins 2007.  Hún mun sóma sér vel á Ljóðasetrinu og er hugmyndin að safna í hana afmælisdögum ljóðskálda landsins og vonandi sem flestra með eigin hendi. emoticon emoticon emoticon emoticon

25.des. ´08  Myrká - Arnaldur Indriðason
Nýjasta bók Arnaldar sem kom út fyrir þessi jól gefin út af Vöku-Helgafell sem er reyndar hluti af Forlaginu.
Þetta er hörkubók hjá Arnaldi eins og búist var við.  Að þessu sinni er það Elínborg, samstarfskona Erlendar sem er aðalsöguhetjan og sér hún svo að segja alfarið um rannsók málsins en Erlendur lét sig hverfa til Austfjarða og kemur ekkert við sögu og Sigurður Óli aðeins lítillega.  Við fáum að skyggnast svolítið betur en fyrr inn í hugarheim og aðstæður Elínborgar er þetta allt saman vel gert hjá Arnaldi.  Bókin byrjar svona frekar rólega en eftir miðja bók er erfitt að leggja hana frá sér.  Persónusköpun er sem fyrr frábær hjá Arnaldi og einhver undirliggjandi spenna sem heldur manni við efnið.  Að þessu sinni er viðfangsefnið nauðgunarmál sem teygir anga sína aftur í tímann og vítt og breytt um landið.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
24.des. ´08  Melódíur minninganna - Hafliði Magnússon
Hér er komin bók sem á ættir sínar að rekja til heimabæjar míns Bíldudals.  Jón Kr. Ólafsson söngvari segir frá lífshlaupi sínu, skráð af "Skáldinu" eins og Hafliði er gjarnan nefndur fyrir vestan.  Gefin út af Vestfirska forlaginu 2008.
Hér er ekki um hefðbundna ævisögu að segja heldur er hér um að ræða bók í frásagnarstíl þar sem gripið er niður í eitt og annað sem Jón Kr. hefur tekið sér fyrir hendur um dagana.  Auk þess sem litið er á gamlar blaðagreinar og nokkrir samferðamenn Jóns segja frá honum.  Söngurinn er að sjálfsögðu fyrirferðamestur en einnig er fjallað um uppruna Jóns og æsku hans á Bíldudal, vinnu hans í fiski, rækju og við málun, fjallað er um listamenn og athafnamenn á Bíldudal, sagt frá þeim fjölmörgu minnismerkjum sem Jón hefur unnið að að sett væru upp, safni hans Melódíum minninganna og fleira.  Bókin er skemmtileg aflestrar en maður hefði gjarnan viljað hafa meira kjöt á beinunum.  Jón Kr. er mikill karakter og ekki allra, eins og gjarnan er með menn með miklar hugsjónir en mörgu góðu hefur hann komið til leiðar á Bíldudal, haldið til haga munum og myndum sem tengjast sögu staðarins að ekki sé talað um sögu dægurtónlistar á Íslandi öllu, hafi hann ævarandi þökk fyrir það.  Skemmtilegust er bókin þegar Jón kemst á flug í frásögnum sínum og slettir fram sínum víðkunnu frösum eins og t.d. "Já, það eru margar skúffur í henni Jóhönnu" eða "þetta er nokkuð sem maður gerir nú ekki á öðrum brjóstahaldararnum."  Margar myndir prýða bókina og krydda frásagnir og er það bókinni mjög til framdráttar.  emoticon emoticon emoticon 
  
23.des. ´08  Vinjettur IV - Ármann Reynisson
Fjórða vinjettu bókin frá Ármanni og kom hún út 2004. Sem fyrr eru allar frásagnirnar bæði á íslensku og ensku.
Fyrsta bókin í þessum flokki lofaði mjög góðu en síðan hefur mér fundist nokkuð halla undan fæti og innihald þessrar bókar finnst mér svipað að gæðum og þeirrar þriðju.  Nokkrar áhugaverðar sögur/vinjettur, aðrar of greinilega byggðar á reynslu höfundar úr fjármálageiranum, nokkrar almennar náttúrulýsingar sem mættu vera tilþrifameiri til að skilja eitthvað eftir sig og aðrar sem vöktu ekki áhuga minn. emoticon emoticon

21.des. ´08  Bíldudals grænar baunir - Hafliði Magnússon
Gamanvísur og alvörumál frá Bíldudal, önnur útgáfa - aukin og endurbættt - gefin út af Vestfirska forlaginu 1999.
Þessi bók er skyldueign allra Bílddælinga og ég eignaðist hana loks nú er ég fékk hana í afmælisgjöf.  Var upphaflega gefin út 1978 af Hafliða sjálfum í 500 eintökum og er fyrir löngu uppseld.  Eintak var til á mínu æskuheimili og oft gripið í hana.  Inniheldur ýmsan kveðskap eftir snillinginn Hafliða Magnússon eða "Skáldið" eins og við Bílddælingar köllum hann en Hafliði hefur verið ótrúlega afkastamikill við að setja saman söngleiki og ýmsan tækifæriskveðskap um menn og málefni sem fluttur hefur verið í gegnum áratugina á skemmtunum á Bíldudal.  Við lestur þessarar bókar rifjast upp eitt og annað af atburðum fyrir vestan og eftirminnilegar persónur lifna við á blaðsíðunum.  Í þessari auknu útgáfu hefur verið bætt við einum 100 blaðsíðum í sama anda og einkenndi fyrstu útgáfu og skemmtilegar skýringar gefa góða mynd af baksviði og tilurð nokkurra söngtextana.  Einnig setja ljósmyndir svip á bókina, sérstaklega fyrir þá sem til þekkja.  Þarna má m.a. finna mikinn brag sem Skáldið setti saman í tilefni 50 afmælis pabba og ýmsa texta sem pabbi hefur sungið með félögum sínum fyrir vestan og mynd af Loga bróður að flytja lag á Vísnakvöldi fyrir vestan.  Fjórir broskallar a.m.k. fyrir Bílddælinga.  emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
19.des. ´08  Undir hauststjörnum - Kristján Jóhannsson
Ljóðasafn sem gefið var út af Prentsmiðjunni Leiftri 1970.
Þetta ljóðasafn inniheldur úrval úr þremur áður útkomnum ljóðabókum höfundar ásamt áður óbirtum ljóðum, en einnig hafði höfundur þá sent frá sér 4 barnabækur og frásagnir af íslenskum íþróttaköppum.  Þetta var bók sem höfðaði bara nokkuð vel til mín og mér fannst ljúft að lesa mér til ánægju.  Fínasti kveðskapur, mikið um fallegar náttúrumyndir og samband manns og náttúru.  Það fyrsta sem ég sé í ljóðum eftir þennan höfund. emoticon emoticon emoticon

18.des. ´08  Sál mín hlustar - Jóhann M. Kristjánsson
Ljóðakver sem gefið var út af Bókaútgáfunni Skjladborg á Akureyri 1980.
Jóhann þessi var það sem mætti kalla fjöllistamann en jafnframt náttúrubarn, að mér sýnist.  Hann hóf sig upp úr heilsuleysi með þrotlausri líkamsrækt á unga aldri en lagði síðar meiri rækt við hin andlegu svið.  Hann skrifaði skeleggar geinar í blöð um ýmis málefni, lagði um árabil stund á málaralist og seldi þá fjölda málverka, samdi lög við ljóð sín og var dulspekingur sem erlendar stofnanir heiðruðu fyrir störf hans á því sviði.  Hinn merkasti maður sem sagt.  Þetta kver inniheldur brot úr ýmsum áttum af kveðskap hans; lausavísur, ljóð, texta á ensku og dönsku og hugleiðingar.  Ágætt aflestrar en meðalmennskubragur á. emoticon emoticon

17.des. ´08  Stökur og ljóð - Hafsteinn Sigurbjarnarson
Ljóðahefti, aðeins um 20 síður, með kveðskap eftir Hafstein sem kennir sig við Reykholt í Höfðakaupstað.  Prentsmiðjan Leiftur gefur út en útgáfuár kemur ekki fram.
Á fyrstu síðu segir Hafsteinn frá því að hann hafi aldrei verið hrifinn af því að skáldskapur hans sé hafður í hámæli eða komist á prent og því hafi hann brennt megnið af kveðskap sínum jafnóðum.  En nokkur erindi hafi þó fyrir glapræi hans gengið manna á milli og þau birtist í þessu hefti auk nokkurra annarra ljóða.  Ágætis samsuða um eitt og annað en enginn tímamóta kveðskapur. emoticon emoticon
12.des. ´08  Hnoðnaglar - Kolbeinn Högnason
Ljóðabók eftir bóndann og hagyrðingin Kolbein frá Kollafirði.  Gefin út af Ísafoldarprentsmiðju en útgáfuárs er ekki getið.
Bók þessi er tvískipt, annar vegar eru ýmis tækifærisljóð sem samin eru til hinna og þessa sveitunga og eða ættingja Kolbeins á tímamótum í lífi þeirra auk nokkurra annarra ljóða.  Hins vegar eru stökur sem samdar eru í dagsins önn um eitt og annað sem skáldinu er hugleikið eða áminningar til þeirra sem ekki hafa komið rétt fram að mati hans.  Mér fannst seinni hlutinn þ.e. stökurnar mun áhugaverðari og skemmtilegri aflestrar.  Margar vel gerðar stökur sem eflaust hafa flogið víða á sínum tíma. emoticon emoticon emoticon

10.des. ´08  Flateyjar -Freyr  Ljóðfórnir - Guðbergur Bergsson
Ljóðabók sem gefin var út af Máli og menningu 1978.
Þetta er bók sem höfðaði ekki mikið til mín og ég rétt hafði mig í gegnum hana.  Mikið af misjafnlega spennandi pælingum og ádeilu á ráðamenn, lífsmátann, fásinnið o.fl. Freyr spurður ráða um eitt og annað sem á skáldinu hvílir, jafnvel mætti tala um rökræður á stundum á milli skáldsins og Freys.  Hugmyndin góð en úrvinnslan höfðaði ekki til mín. emoticon emoticon

8.des. ´08  ÍGULL - Kristian Guttesen
Ljóðabók, nema hvað, þriðja ljóðabók höfundar og sú fyrsta sem ég sé.  Gefin út af Deus árið 2003. 
Ágætis lesning sem skilur þó lítið eftir sig.  Ýmis yrkisefni í óhefðbundnum kveðskap. emoticon emoticon

4.des. ´08  Í ljósi þínu - Þór Stefánsson
Enn ein ljóðabókin.  Þetta er önnur ljóðabókin sem ég les eftir Þór, gefin út af Goðorði 2003.
Ágætis lesning, ástarljóð í lange baner, misjöfn að gæðum, en skemmtilegar hugmyndir og fallegar myndir koma fyrir á nokkrum stöðum.  Skemmtilegar myndskreytingar eftir Sigurð Þóri setja mikinn svip á bókina. emoticon emoticon
  
3.des. ´08  Hundrað og 1 ljóð - Ýmsir höfundar
Ljóðasafn gefið út af aðstandendum vefjarins ljóð.is og félaginu Kraftvefir ehf.  Bókin kom út árið 2003 og var sú fyrsta í röð samskonar ljóðasafna sem gefin voru út af ljóð.is.  Bækurnar innihalda ljóð samtímahöfunda, flestra lítt þekktra, sem sendu inn ljóð sín á samnefndan vef.
Í formála þessarar bókar er spurt: "Er ljóðið dautt?"  eins og svo oft hefur verið spurt í gegnum tíðina og stundum staðhæft að ljóðið sé dautt.  En því er nú öðru nær og það má m.a. sjá í þessari fínu bók þar sem finna má 101 ljóð óþekktra höfunda sem sent hafa ljóð sín inn á vefinn ljóð.is en í dag má þar finna yfir 20.000 ljóð, flest eftir samtíma höfunda sem sýnir og sannar að það er sko langt í frá að ljóðið sé í andaslitrunum.  Ljóðin í bókinni eru að sjálfsögðu misjöfn að gæðum og innihaldi en mörg þeirra áttu greiða leið að mér og svo kom skemmtilega á óvart að finna þar ljóð eftir æskufélaga minn og bekkjarbróður að vestan, Helga Hjálmtýsson, sem er margt til lista lagt á listasviðinu.
Fín bók sem gaman var að lesa. emoticon emoticon emoticon     

2.des. ´08  Im Irrenhaus - William Flowe
Stutt saga sem gefin var út af Máli og menningu árið 1998 til notkunar í þýskukennslu og var hún einmitt hluti af námsefni frúarinnar í Þýs 303 þessa önn.
Renndi í gegnum þessa stuttu en ágætu sögu á klukkustund eða svo.  Skildi nú ekki hvert orð en náði alveg að fylgja söguþræðinum og gott betur.  Sagan er byggð á sannsögulegum atburðum og fjallar um ungan námsmann í Austur-Þýskalandi rétt fyrir fall múrsins. Þegar honum er gert ljóst að hann fái ekki að stunda stærðfræðinám í háskólanum, eins og hann hafði stefnt að, vegna þess að það hentar ekki yfirvaldinu, betra er að hann gerist járnsmiður, þá gerir hann uppreisn gegn kúguninni og óréttlætinu.  Einnig spilar inn í ákvörðun stjórnvalda að frændi hans flúði yfir til vesturs nokkrum árum fyrr og það er ekki fyrirgefið.  Jæja, allavega drengurinn setur saman róttækt ljóð og setur á veggspjald ásamt hvatningu til fólks að koma saman á torginu og mótmæla.  Fjöldi fólks tekur áskoruninni og mætir.  Sagan endar svo nokkru síðar þegar drengurinn er sestur upp í járnbrautarvagn daginn eftir að múrinn féll á leið vestur yfir að hitta frænda sinn. emoticon emoticon emoticon

1.des. ´08  Sunnanhólmar - Ingimar Erlendur Sigurðsson
Fyrsta ljóðabókin sem Ingimar Erlendur sendi frá sér en hún kom út árið 1959 og það var bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar sem gaf hana út.  Ingimar hefur verið duglegur við skriftir og m.a. sent frá sér um 10 ljóðabækur, smásagnasafn og skáldsögur.  Þetta er 4 bókin sem ég eignast og les eftir hann.
Ágætis byrjunarverk hjá Ingimari en ég er þó hrifnari af þeim sem síðar komu út, þ.e. þessum þremur sem ég hef lesið.  Góðir sprettir en dettur niður á milli. emoticon emoticon

17.nóv. ´08 Skáldið sem sólin kyssti - Silja Aðalsteinsdóttir
Ævisaga Guðmundar Böðvarssonar skálds og bónda á Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði.  Hér komin í kilju sem gefin var út 2004 af Máli og menningu en kom upphaflega út 1994 og hlaut Silja Íslensku bókmennta verðlaunin fyrir hana.
Virkilega vönduð og vel skrifuð ævisaga sem gefur góða mynd af skáldinu Guðmundi og bóndanum Guðmundi og togstreitunnar á milli þessara æviverka hans.  "eitt af ævintýrunum í íslenskri bókmenntasögu ..." hefur verið sagt um skáldaferil Guðmundar og er það svo sannarlega rétt.  Maður sem naut svo til engrar almennrar menntunnar, ólst upp við mikla fátækt og örbirgð en tókst með meðfæddum hæfileikum og óbilandi dug að verða eitt af höfuðskáldum Íslendinga um miðja síðusu öld og var þá gjarnan settur á bekk með Steini Steinarri, Tómasi Guðmundssyni, Jóhannesi úr Kötlum og fleiri slíkum skáldjöfrum.  En jafnframt rak hann sitt bú á Kirkjubóli með stökum myndarskap, var fyrirtaks járnsmiður, skar listilega út í tré o.fl. Þetta má vel greina í kveðskap hans því tengingin við náttúruna og fósturjörðina er afskaplega sterk og eru þessi minni ávallt vafin í ljóð hans á einn eða annan hátt.  Guðmundur var mikill ættjarðarvinur og barðist gegn hersetunni hér á landi í ljóðum sínum og öðrum skrifum.  Þekktasta ljóð hans er líklega ljóðið Fylgd sem hefst á þessum línum "Komdu litli ljúfur, labbi pabba stúfur, látum draumsins dúfur dvelja inni um sinn, heiður er himininn ..."  En Sigurður Rúnar Jónsson, Diddi fiðla, samdi lag við þetta fallega ljóð sem Pálmi Gunnarsson gerði vinsælt í kringum 1980.  Guðmundur sendi frá sér 8 ljóðabækur auk ljóðasafna og fleiri rita.  Fyrsta bókin hét Kyssti mig sól og vakti hún strax mikla athygli er hún kom út árið 1936.  emoticon emoticon emoticon emoticon

16.nóv. ´08 Við brunninn - Kristján frá Djúpalæk
Önnur ljóðabókin sem ég les eftir þennan höfðingja.  Bókin kom út á vegum prentsmiðjunnar Leifturs árið 1960 og var sjöunda ljóðabók höfundar.
Virkilega fín bók hjá Kristjáni og aðdáun mín á honum sem ljóðskáldi vex áfram.  Áður hafði ég lesið bókina Punktar í mynd sem hitti mig í hjartastað.  Þessi gerir það að mörgu leyti líka, vangavetur um lífið og dauðann, ástina og æskuna og fleira.  Línur og ljóð sem gera það að verkum að maður gerir hlé á lestrinum og segir svona með sjálfum sér "vá, þetta er gott" og les síðan aftur og aftur áður en maður heldur áfram. emoticon emoticon emoticon emoticon  

9.nóv.´08  Aska - Yrsa Sigurðardóttir
Ákvað að hvíla mig aðeins á ljóðabókunum og kíkja á bók eftir hinn marglofaða höfund Yrsu Sigurðardóttur sem nefnd hefur verið hin nýja drotting glæpasagnanna.  Bókin var gefin út árið 2007 af bókaútgáfunni Veröld.
Hörkuspennandi og vel skrifuð saga.  Heldur manni við efnið frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar númer 380 og erfitt að leggja hana frá sér, enda hefur verið lítið sofið undanfarnar nætur.  Skemmtileg flétta í sögu sem gerist aðallega í Vestmannaeyjum og Reykjavík þar sem atburðir úr nútíð og fortíð eru fléttaðir listilega saman.  Maður á örugglega eftir að lesa fleiri bækur um lögfræðinginn Þóru Guðmundsdóttur, sem er aðalpersóna þessarar bókar sem annarra glæpasagna eftir Yrsu. emoticon emoticon emoticon emoticon

7.nóv.´08  Fjöllin verða að duga - Þórarinn Eldjárn
Áttunda ljóðabók nafna míns og sú sem hann sendi frá sér síðast, árið 2007.
Náði ekki eins vel til mín og Hættir og mörk en margt vel gert að sjálfsögðu. emoticon emoticon emoticon

3.nóv.´08  Hættir og mörk - Þórarinn Eldjárn
Sjöunda ljóðabók höfundar gefin út 2005.
Mjög góð bók hjá Þórarni, óhefðbundinn kveðskapur af bestu gerð. emoticon emoticon emoticon emoticon

2.nóv.´08  Ort - Þórarinn Eldjárn
Önnur ljóðabókin sem Þórarinn sendi frá sér 1991 og í þetta sinn yrkir hann hefðbundið.
Höfundur er á svipuðum slóðum og áður, þ.e. fjölbreytt yrkisefni og ný sýn á ýmsa hluti.  Húmorinn ekki langt undan.  emoticon emoticon emoticon  

30.okt.´08  Hin háfleyga moldvarpa - Þórarinn Eldjárn
Nú liðu hvorki fleiri né færri en 7 ár á milli ljóðabóka hjá nafna mínum, en í millitíðinni sendi hann m.a. frá sér Barnaljóðabók, smásagnasafn og skáldsögu.  Þessi ljóðabók kom sem sagt út árið 1991 og inniheldur óhefðbundin ljóð eins og bókin Ydd.
Mörg góð ljóð en nokkur sem ég náði ekki tengingu við í fyrstu atrennu.  Hinn skemmtilegasti lestur samt sem áður.  emoticon emoticon emoticon emoticon

29.okt.´08  Ydd - Þórarinn Eldjárn
Nú liðu fimm ár milli ljóðabóka hjá Þórarni því þessi kom út 1984 og nú er breytt um stíl og ort óhefðbundið.
Það fer Þórarni ekki síður vel að yrkja á þennan hátt og oft finnst mér sem stíll hans njóti sín jafnvel enn betur í þessum óhefðbundnu ljóðum. emoticon emoticon emoticon emoticon

28.okt ´08  Erindi - Þórarinn Eldjárn
Ljóðabókin Erindi kom út 1979, sem fyrr yrkir Þórarinn háttbundið en stíll hans verður persónulegri.
Yrkisefni af ýmsum toga í þessari bók hjá Þórarni og mörg ljóðanna eftirminnileg og flottar línur sem sitja í minninu, eins og t.d. Ég hef eðlisávísun, innistæðulausa.  En í bókinni er alveg innistæða fyrir þessum emoticon emoticon emoticon emoticon
  
26.okt ´08  Disneyrímur - Þórarinn Eldjárn
Árið 1978 komu út Disneyrímur Þórarins og er óhætt að segja að þær hafi vakið töluverða athygli.  Rímnaflokkur hafði ekki verið gefin út hér í aratugi og sem fyrr var umfjöllunarefnið sérstakt hjá Þórarni, í þetta sinn Walt Diney og uppgangur hans í henni Ameríku og þá ekki síst Hollywood.
Vel gert hjá Þórarni og skemmtilegt aflestrar, töluverð ádeila á Disney kallinn sem notaði ýmis meðöl til að láta drauma sína verða að veruleika og hugsaði lítið um mannlega þáttinn (a.m.k. miðað við innihald rímnanna).  Ýmsir bragarhættir notaðir og mikill húmor eins og við var að búast frá Þórarni.  emoticon emoticon emoticon 
 
24.okt.´08  Kvæði - Þórarinn Eldjárn
Fyrsta ljóðabók nafna míns gefin út 1974 og vakti mikla athygli.  Hér kom fram á ritvöllinn ungt skáld sem orti hefðbundið og gekk þar mjög gegn tímans straumi. Með þessari þjóðlegu nálgun, beittu skopskyni og leikni með íslenskt mál ávann Þórarinn sér þegar í stað hylli landsmanna.
Skemmtileg lesning, umfjöllunarefnin úr ýmsum áttum og mörg hver óhefðbundin þó formið sé hefðbundið.  emoticon emoticon emoticon

22.okt ´08 Kvæðasafn - Þórarinn Eldjárn
Heildarsafn ljóðabóka Þórarins í einni bók auk úrvals úr barnaljóðabókum hans.  Bókin er vel á fimmtahundrað bls. gefin út af Forlaginu 2008.  Nafni minn færði mér þetta áritaða eintak á ljóðahátíðinni á dögunum.
Dómar um hverja bók fyrir sig eru hér að ofan en heildareinkunn fyrir þetta frábæra safn eru: emoticon emoticon emoticon emoticon

21.okt ´08 Province í endursýn - Sigfús Daðason
Enn ein ljóðabókin og sú fyrsta sem ég les eftir skáldið Sigfús Daðason.  Lítil og nett bók í skemmtilegu broti gefin út af bókaútgáfunni Goðorði 1992.
Fá ljóð en ágætis lesning.  Skemmtileg og myndrík frásögn af fólki og aðstæðum.  emoticon emoticon emoticon

17.okt ´08 Borgarlínur - Ari Trausti Guðmundsson
Þriðja ljóðabókin frá Ara, gefin út af Uppheimum 2008.
Hugmyndin að baki þessari ljóðabók er skemmtileg, ljóð sem Ari hefur samið í  hinum ýmsu borgum heimsins og er hvert ljóð merkt sinni borg.  Hér eru ljóð um lífið í Norrænum borgum s.s. Reykjavík, Osló, Helsinki o.fl. og einnig frá fjarlægum borgum eins og Bejing, Kuala lumpur o.fl.  Í gegn skín að alls staðar er fólkið eins en aðstæður þess eru misjafnar.  Gaman að þessari bók, gægjast inn í hugarheim og líf þessa fólks og þessara borga.  Ari Trausti las úr henni, sem og bókinni Krókaleiðum, fyrir okkur á ljóðahátíðinni Glóð hér á Siglufirði á dögunum og kannaðist maður því við sum þeirra.  Bók sem maður mun án efa líta í aftur. emoticon emoticon emoticon

14.okt ´08 Krókaleiðir - Ari Trausti Guðmundsson
Önnur ljóðabók þessa þúsundþjalasmiðs, gefin út af Uppheimum 2006.
Fínasta lesning, ljóð samin um hin ýmsu viðfangsefni og efniviðurinn greinilega sóttur frá hinum ýmsu heimshornum, enda er maðurinn víðförull.  Ljóð ort með óhefðbundnum hætti, sem er nú reglan frekar en undantekningin í dag, en innihaldið skiptir náttúrulega aðalmáli, þó alltaf sé gaman þegar menn glíma við Braga og gott innihald og góð bragfræði fer saman.  Þetta er önnur ljóðabókin sem Ari sendi frá sér á skömmum tíma. emoticon emoticon emoticon 
 
13.okt ´08 Kvæði 84 - Kristján Karlsson
Fjórða ljóðabók höfundar, kom út hjá Almenna bókafélaginu 1984.
Þetta er önnur bókin sem ég les eftir Kristján og það verður að segjast að innihald þessrar var svipað og hinnar fyrri fyrir mig, ég botnaði hvorki upp né niður í þessu.  Á bókakápu segir að Kristján sé eitt af sérstæðustu skáldum samtímans og ef til vill nokkuð seintekinn, en þeim mun stórkostlegri við nánari kynni.  Það má vel vera að svo sé en við fyrsta lestur var þetta ógurlegt og sundurlaust torf í mínum huga sem ég naut engan veginn að lesa. emoticon

13.okt ´08 Ást og appelsínur - Þórdís Björnsdóttir
Ljóðabók sem höfundur gaf út 2004.
Mér þótti þetta óskaplega klént, eins og góður gagnrýnandi orðaði það hér um árið.  Orðalagið "ekkert nema umbúðirnar" kom upp í huga mér því útlit bókarinnar er flott en innihaldið afar dapurt fyrir minn smekk.  Sömu yrkisefnin, sömu orðin, sömu orðasamböndin aftur og aftur og meiningin óskýr og ósmekkleg að mínu mati. emoticon

12.okt ´08 Blóm handa pabba - Bjarni Gunnarsson
Ljóðabók gefin út af Uppheimum 2007, önnur ljóðabók höfundar.
Hef ekki heyrt um þennan höfund áður en sýnist að hann sé frá Akranesi, a.m.k. búsettur þar nú.  Í bókinni fjallar hann um samband sitt við föður sinn og síðan hvernig hann sjálfur tekst á við föðurhlutverkið.  Skemmtileg blanda og skemmtilegar pælingar.  Vel skrifað og kemur þægilega á óvart.  Stíllinn einfaldur og náði til mín.  emoticon emoticon emoticon

11.okt ´08 Þorpið - Jón úr Vör
Ég komst yfir 2. útgáfu af þessu frábæra verki, gefin út 1956, en 1. útgáfa kom út 10 árum fyrr.  Þessi útgáfa er meira að segja aukin og segir höfundur að þetta sé endanleg gerð Þorpsins.  Fyrir átti ég 4. útgáfu og hef lesið hana nokkrum sinnun.  Í 2. útgáfu eru þó nokkur ljóð sem eru ekki í þeirri 4.
Það þarf ekki að fjölyrða um snillina í þessari bók, bæði eru flest ljóðin frábærlega samin og innihaldið þannig að þau hreyfa við manni.  Þau gefa magnaða sýn á þessa erfiðu tíma í sögu landsins, þegar fátæktin og eymdin var allsráðandi og mönn glöddust yfir litlu, svo mynda þau þessa glæsilegu heild sem gerir þetta verk jafn stórkostlegt og raun ber vitni.  Ein af mínum uppáhalds bókum. emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon  

10.okt ´08 Í Unuhúsi - Þórbergur Þórðarson
Þórbergur færði í letur eftir frásögn Stefáns frá Hvítadal.  Þessi útgáfa kom út á vegum Uglunnar - íslenska kiljuklúbbsins árið 1990.
Skemmtileg og fróðleg lesning.  Sérstaklega var inngangur Þórbergs áhugaverður og drepfyndinn, maðurinn er stórkostlegur stílisti.  Það hefur greinilega ýmislegt gengið á í Unuhúsi, hér segir frá þegar Una réði þar ríkjum, og menn kölluðu sko ekki allt ömmu sína á þessum tíma.  Mikið drukkið og gleðikonur reglulegir næturgestir.  En Una hefur greinilega verið alveg einstök manneskja sem stóð með lítilmagnanum og hafði óbilandi trú á manneskjunni.emoticon emoticon emoticon

9.okt ´08  Leirfuglar - Ingimar Júlíusson
Ljóðabók eftir sveitunga minn að vestan Ingimar Júlíusson, gefin út af Máli og menningu 1979, lesin nú í annað sinn.
Las þessa bók fyrst fljótlega eftir að hún kom út og var ánægður með innihald hennar.  Við annan lestur, tæplega 30 árum og töluvert meiri lífsreynslu síðar, er hún enn betri og ekki skemmir fyrir að þekkja heimabæinn sinn fyrir vestan í mörgum ljóðanna.  Skemmtilegar myndir dregnar upp, náttúran er höfundinum hugstæð, gaman og alvara í bland.  Ingimar hóf ekki að yrkja fyrr en eftir sextugt og er þetta eina ljóðabókin sem eftir hann liggur. Gaman að eiga hana loks í safni mínu en ég náði í hana á bókasölu á netinu á dögunum.  Fékk hana í hendurnar í dag og hún var lesin strax. emoticon emoticon emoticon emoticon 
 
8.okt ´08  Barnaljóð - Ýmsir höfundar
Ljóð um börn - ljóð til barna er undirtitill þessarar bókar sem klettaútgáfan gaf út 1992 til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna.
Skemmtileg blanda af nýjum og eldri kveðskap, sá síðarnefndi þó í meirihluta.  Margt vel þekkt eins og t.d. Í Hlíðarendakoti, Bjössi litli á Bergi, Fylgd, tvö ljóð úr Þorpinu hans Jóns úr Vör, Móðurást Jónasar Hallgrímssonar, Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar o.fl. En einnig nýrri óþekktari, en prýðisgóð ljóð, eftir yngri skáld s.s. Þuríði Guðmundsdóttur, Ólaf Hauk Símonarson og Vilborgu Dagbjartsdóttur.  Holl og góð lesning. emoticon emoticon emoticon 
 
7.okt ´08  Hjartarætur í snjónum - Þór Stefánsson
Ljóðabók, þriðja slík frá höfundi, gefin út af bókaútgáfunni Goðorði 1995.
Fyrsta bókin sem ég les eftir höfundinn.  Hrein og bein bók, ágæt aflestrar en nokkuð mikið um sömu "frasana" og umfjöllunarefnin. emoticon emoticon

5.okt ´08  Fuglar - Þórunn Valdimarsdóttir
Fyrsta ljóðabók höfundar, gefin út af Forlaginu 1991.
Hún olli nokkrum vonbrigðum þessi.  Sundurlaust og flókið fyrir mína parta og ég náði lítilli tengingu við þennan heim hennar Þórunnar.  emoticon emoticon

3.okt.´08  Öskudagar - Ari Jóhannesson
Ljóðabók eftir lækninn Ara Jóhannesson sem gaf sér það loforð ungur maður að sinna skáldskapnum í fyllingu tímans.  Reynsla lækninsins af því sem mætir honum í starfi sínu birtist hér með nýstárlegum hætti í ljóðum.  Uppheimar gáfu út 2007.  Ein fimm ljóðabóka sem Uppheimar gáfu Félagi um Ljóðasetur Íslands á Ljóðahátíðinni Glóð 2008.
Virkilega góð bók hjá Ara.  Þau ljóð sem fjalla um læknisstarfið og þær sorgir og gleði sem höfundur hefur upplifað í sínu starfi fannst mér bestu ljóð bókarinnar af mörgum góðum. Bók sem óhætt er að mæla með og vonandi lætur höfundur meira að sér kveða á sviði ljóðlistarinnar. emoticon emoticon emoticon emoticon

23.sept.´08  Að haustnóttum - Tómas Guðmundsson
Í þessari bók ritar skáldið Tómas um nokkra af mikilmennum landsins í listinni.  Gefin út 1976 af bókaútgáfunni Forna.
Það var gaman að lesa þessa bók.  Þarna er í stuttu máli gerð grein fyrir ævi og störfum nokkurra af okkar mætustu listamönnum og sagt frá kynnum við suma þeirra.  Má þar t.d. nefna Davíð Stefánsson, Halldór Laxness, Stefán frá Hvítadal, Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein og fleiri mæta menn og konur.  Vel skrifað hjá Tómasi og hefur eitthvað af þessum skrifum áður komið út í tímaritum. emoticon emoticon emoticon emoticon

4. sept.´08  Albert Schweitzer - Sigurbjörn Einarsson
Ævisaga þessa mikilmennis rituð af öðrum merkum manni, herra Sigurbirni Einarssyni biskupi, sem nýverið hefur hvatt þetta jarðlíf.  Gefin út af bókaútgáfunni Setberg 1955.
Saga þessa mikla afreksmanns er ótrúleg.  Hæfileikar, atorka og dugnaður með eindæmum.  Ákvað á unglingsárum að láta gott af sér leiða á einhvern sérstakan hátt notaði næstu 15 ár eða svo í að mennta sig frekar.  Hóf háskólanám átján ára gamall og lauk guðfræðiprófi 1898, varð doktor í heimspeki árið eftir auk þess að vera aðstoðarprestur.  Varð dósent í guðfræði 1902.  Ákvað síðan að gerast læknir í Afríku, sem flestum í kringum hann fannst fráleit hugmynd.  Hóf nám í læknisfræði 1905 og varð doktor í læknisfræði 1913, þá 38 ára gamall. Auk alls þessa var hann talinn einn allra fremsti orgelleikari heims og sá fremsti í að túlka verk Bachs og hélt tónleika víða um Evrópu og ritaði nokkrar bækur um heimspekileg málefni og tónlist.
En 1913 urðu kaflaskil í lífi hans þegar hann flutti til Afríku og hóf að byggja upp sjúkrastöð sína í miðjum frumskógi við ótrúlega erfiðar aðstæður, 40-50 stiga hiti alla daga, gífurleg fáfræði og hjátrú innfæddra, allt byggingarefni, lyf og matur af skornum skammti, ýmsir lífshættulegir og smitandi sjúkdómar og fleira mætti telja.  Hvítir menn entust yfirleitt ekki lengur þarna en 2-3 ár, þá voru þeir búnir á sál og líkama, en þarna dvaldi hann meira og minna í 40 ár og byggði upp glæsilega sjúkrastöð ásamt því að boða kristna trú með aðstoð góðra manna og kvenna, en dagarnir voru oftar en ekki langir og erfiðir.  Schweitzer fékk friðarverðlaun Nóbels árið 1953, tæplega 80 ára gamall.  Vel skrifuð bók hjá herra Sigurbirni. emoticon emoticon emoticon emoticon

29. ágúst ´08  Græna skyggnishúfan - Sigurlaugur Elíassson
Ferðaljóð er undirtitillinn og er þetta sjöunda ljóðabók höfundar.  Gefin út af Máli og menningu árið 2000.
Var að lesa þessa bók í annað sinn þar sem ég kynntist höfundinum í ferð okkar í Skólastjórafélagi Norðurlands vestra til Kanada í sumarbyrjun, en kona hans er aðstoðraskólastjóri á Sauðárkróki.  Komst einnig að því að höfundurinn er bróðir Gyrðis Elíassonar.  Ég gaf bókinni tvo broskalla við fyrsta lestur en núna þegar tengingin við höfundinn er meiri sér maður mörg ljóðanna með öðrum augum og því bætist einn broskall við núna. 

23.ágúst ´08  Jóhann Sigurjónsson - Helge Toldberg
Ævisaga þessa mikla skáldjöfurs sem þekktur var bæði fyrir leikrit sín og ljóðmæli.  Kom ótrúlega miklu í verk á stuttri ævi en skrifaði og orti megnið af sínum verkum á dönsku til að ná til stærri lesendahóps eins og nokkur hópur íslenskra skálda á þessum árum.  Bókin er gefin út af Heimskringlu 1966.
Ekki beint ævisaga eins og ég hélt heldur meira skrif um verk hans, hvernig þau urðu til, breytingar á þeim, viðtökur og fleira í þeim dúr.  Mest af púðrinu fer í umfjöllun um leikritin og ýmsa áhrifavalda enda var hann þekktastur fyrir leikverk sín s.s. Fjalla-Eyvind, Galdra Loft og fleiri sígild stykki.  Að sjálfsögðu blandast hans líf inn í umfjöllunina en hvergi er kafað djúpt. 

20. ágúst ´08  Í fjórum línum lll- Auðunn Bragi Sveinsson valdi og safnaði
Þriðja vísnasafnið í þessum flokki þar sem Auðunn Bragi hefur tekið saman vísur í léttum dúr héðan og þaðan og sett saman í bók.  Flestum vísum fylgir frásögn af tilefni þess að stakan varð til og er mjög gaman að lesa um það.  Margar listilega gerðar stökur og margar ansi beittar.  Gefin út af Vestfirska forlaginu 1997.

9. ágúst´08  Dvergmál - Baldur Eiríksson frá Dvergsstöðum
Enn ein ljóðabókin og þessi er í léttari kantinum.  Gefin út af Skjaldborg 1981.
Skemmtileg bók um dægurmál síns tíma í léttum dúr og allt í ljóðaformi.  Mörg þessara ljóða birtust í dagblöðum og tímaritum á sínum tíma, vöktu athygli og framkölluðu bros.  Baldur hóf störf á skrifstofu KEA úm miðjan aldur þar sem margir hagmæltir menn unnu og kváðust gjarnan á.  Vildi hann ekki vera minni maður og tók þátt þó ekki hafi hann fengist mikið við kveðskap áður.  Vakti hann fljótt athygli fyrir skemmtileg tök á málinu og kímni sína. 

2. ágúst´08  Skáldaval III - Ýmsir höfundar
Þriðja bókin í þessum flokki þar sem ýmis skáld leggja til verk eða hluta verka til góðra málefna.  Gefið út af Stoð og styrk til stuðnings Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna árið 2006.
Skemmtileg blanda af ljóðum, smásögum og brotum úr stærri verkum.  Hafði reyndar lesið eitthvað af þessu efni.  Í bókinni eru m.a. verk eftir Gunnar Dal, Vilborgu Dagbjartsdóttur, Herdísi Egilsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur, Björn Th. Björnsson o.fl.

26. júlí ´08  Sólfar - Guðmundur Ingi Kristjánsson
Fimmta ljóðabók þessa vestfirska stórskálds, gefin út af Bókaútgáfu menningarsjóðs og þjóðvinafélagsins árið 1981.
Guðmundur Ingi er á svipuðum slóðum og fyrr í þessari bók en segja má að hann sé fulltrúi sveitalífs og bændamenningar á íslensku skáldaþingi.  Hann kveður stuðlaðar lofgjörðir um líf og gróður, menntir og samhygð, en sér í lagi snjöll kvæði um átthaga sína og náttúrufegurð þeirra, sem og kjör og örlög forvera sinna og samtíðarmanna vestur á fjörðum. 
Eins og við var að búast voru í þessari bók mörg snjöll og góð ljóð og ýmislegt sem heillaði.  Fyrsta bókin sem ég les eftir Guðmund, en þær verða örugglega fleiri. 

25. júlí ´08  Örugglega ég - Anna S. Björnsdóttir
Ljóðabók gefin út af höfundi 1988.
Bókin innheldur 24 stutt ljóð og er skreytt vatnslitamyndum eftir Blöku Jónsdóttur.  Þetta eru falleg og vel byggð ástarljóð sem virkuðu mjög vel á mig og maður á ábyggilega eftir að grípa í aftur.  

23. júlí ´08  Vertu - Eyvindur P. Erlendsson
Ljóðabók sem gefin var út á Ísafirði 1998 af útgáfunni Andblæ.
Eyvindur P. Erlendsson er ekki einhamur þegar kemur að skrifum og hefur hann m.a. sent frá sér nokkrar ljóðabækur, barna- og unglingasögur, leikrit, smásögur o.fl. en þessi bók er þó það fyrsta sem ég les eftir hann.
Bókin inniheldur ýmiskonar ljóð og einnig nokkrar ljóðaþýðingar.  Ég náði ekki að tengja mig nógu vel við innihaldið og lítið um neistaflug.

23. júlí ´08  Kveðið í kútnum - Sverrir Stormsker
Fyrsta ljóðabók Sverris gefin út af Fjölvaútgáfunni 1982.
Eins og vænta mátti eru ljóðin full af orðaleikjum, háði og kímni en þó eru mörg ljóðanna með alvarlegan undirtón.  Sverrir var á unglingsaldri þegar bókin kom út og margt vel gert af svo ungum manni.  Ég hafði gaman af þessari bók og hún kom skemmtilega á óvart. 

25. júní´08  Þorsteinn Gíslason - Skáldskapur og stjórnmál
Bók gefin út af Almenna bókafélaginu árið 1966 í tilefni að 100 ára árstíð Þorsteins, Guðmundur G. Hagalín tók saman.
Bóin hefst á æviágrpi Þorsteins sem Guðmundur ritar.  Síðan eru ljóð Þorsteins birt og þar næst Þættir úr stjórnmálasögu Íslands 1896-1918 sem Þorsteinn ritaði og flutti fyrir alþjóð í tólf útvarpserindum og var gefið út á bók 1936.  Bókinni lýkur á ýmsum skrifum Þorsteins um menn og málefni og í lokin er hluti af óútgefinni skáldsögu hans.
Þetta er mikil og góð bók um mann sem ekki er eins þekktur af verkum sínum og efni standa til því hann var um áratuga skeið einn af svipmestu forystumönnum sinnar samtíðar og hreyfði hann m.a. fyrstur Íslendinga fullum skilnaði við Dani.  Hann var brautryðjandi í íslenskri blaðamennsku og ritstjóri lengur en nokkur um hans daga.  Jafnframt var hann mikilsvirtur sem ljóðskáld og afkastasamur þýðandi margra öndvegisverka.  Þess má geta að lokum að hann var faðir Gylfa Þ. Gíslasonar alþingismanns og ráðherra og Vilhjálms Þ. Gíslasonar fyrrverandi útvarpssjóra. 

25. júní´08  Af sjálfsvígum - Gísli K. Sigurkarlsson
Ljóðabók, gefin út af Skákprenti 1980.
Þekki ekki til höfundar og engar upplýsingar um hann að hafa á kápu.  Kveðskapur ágætur, sérstaklega fyrstu ljóðin en þynntist síðan út að mér fannst og sumt var erfitt að fá einhvern botn í. 
 
23. júní´08  Vorboðar - Ingvar Agnarsson
Ljóðabók, þriðja slík frá höfundi sem greinilega er mikið á andlegu nótunum m.a. ritað áður um drauma og stjörnufræði.  Gefin út af Skákprenti 1990.
Fyrsta bókin sem ég les eftir þennan höfund, ekki kunnuglegt nafn í skáldheimum, en margt með ágætum í þessari bók.  Bókin er efnismikil, 160 bls. og myndskreytt af höfundi hennar.  Leikur hann sér mikið að fornum bragarháttum en yrkisefnin eru mikið þau sömu, náttúran, sólin, stjörnurnar og æskuslóðirnar.  Eins og fyrr segir margt með ágætum en svolítið einsleit og á stundum minnti afraksturinn mann meira á framleiðslu en kveðskap.

21. júní´08  Skáld um skáld - Ýmsir höfundar
Bók sem geymir 20 greinar eftir jafn mörg skáld og fræðimenn um áhrifavalda þeirra meðal íslenskra rithöfunda.  Gefin út af Félagi Íslenskra bókaútgefenda í tilefni að viku bókarinnar árið 2003.
Skemmtileg lesning og gaman að sjá hverjir áhrifavaldar hinna ýmsu rithöfunda eru.  Oft eru það aðrir en manni dettur fyrst í hug.  Meðal þeirra sem rita í bókina má nefna Jón Kalmann, Hallgrím Helgason, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Matthías Jóhannessen og fleiri. 

18. júní´08  Anna frá Suðurey
Ævisaga þessarar einstöku konu, gefin út af Skjaldborg 1977.
Greip þessa bók af rælni þegar ég dvaldi í sumarbústaðnum í Kjarnaskógi og lagði hana ekki frá mér fyrr en hún var öll.  Ótrúleg saga konu sem fæddist í Finnmörk árið 1897 og bjó þar alla sína tíð við erfiðar aðstæður.  Harðgert land, langir kaldir vetur og sumrin stutt.  Fjölskyldan sundraðist þegar hún var 6 ára því faðir hennar lést.  Hún þvældist á milli bæja frá 6-16 ára aldurs og var allstaðar notuð sem þræll, var látin púla myrkranna á milli og lamin og barin enda baldin nokkuð.  Giftist undir tvítugt, eignaðst 14 börn og tók á móti þeim öllum sjálf ein og óstudd!!!!  Eftir hverja fæðingu, þegar hún hafði þvegið barnið og lagt það til hvílu, fékk hún sér sérrýstaup, lagði sig í klukkutíma og hélt svo áfram að vinna. Eftir að hún missti manninn sinn, þá voru 8 börn enn á heimilinu varð hún að vera bæði karlinn og konan á heimilinu, réri til fiskjar, slátraði og gerði allt sem þurfti að gera.  Í heimsstyrjöldinni komu Þjóðverjarnir og brenndu ofan af þeim húsið, sem var þó í nokkurra km. fjarlægð frá næstu byggð og hún var á flótta heilan vetur með 7 börn á fjöllum.  Grófu þau sig í fönn hverja nóttina af fætur annarri en allir sluppu heilir að lokum.  Þessi saga er svo ótrúleg en um leið holl lesning til að minna mann á hvað maður hefur það ótrúlega gott.
  
16. júní´08  Í sveigðu rými - Bjarni Bernharður
Ljóðabók, gefin út af Deus árið 2004, tíunda ljóðabók höfundar.  Höfundur gaf út sitt fyrsta ljóðakver 1975 og næstu árin  bættust sjö við.  Eftir æði langa þögn snéri skáldið aftur og er þetta þriðja bókin eftir endurkomuna.
Þessi bók skiptist í tvo hluta.  Hinn fyrri er keðja örsagna á mörkum skýrslu og prósa.  Nöturlegar lýsingar fýkils að berjast við fíkn sína meðan fjarar undan honum.  Í lokin eru nokkur hefðbundin ljóð.  Bók sem heldur manni við efnið þó ekki sé hún falleg, nöturlegar lýsingar og miskunarlausar.


8. maí´08  Ormurinn langi - Leiftur úr íslenskum bókmenntum
Bókaútgáfan Bjartur gaf út þessa bók 2005 og skilst mér að framhaldsskólanemendur landsins kannist orðið nokkuð vel við hana þessa.  Í henni er fjallað um íslenskar bókmenntir frá 900-1900 allt frá Eddukvæðunum (t.d. Völuspá og Hávamál) til kveðskapar Þorsteins Erlingssonar og Hannesar Hafsteins.
Fróðleg og góð lesning.  Allt gott að rifja upp þennan gamla góða kjarnmikla íslenska kveðskap sem er arfur þjóðar okkar.  Sérstaklega var gaman að lesa aftur yfir gestaþætti Hávamálanna, tímalaus kveðskapur þar á ferð svo sannarlega. Eitt og annað í bókinni hafði maður lesið áður, í skóla og utan.  Bókin var lengi í lestri enda telur hún ríflega 400 bls. og mikið um að vera þessa daga sem hún var á náttborðinu.  

4. maí´08  Ljós mál - Ritlistarhópur Kópavogs
Ritlistarhópur Kópavogs hefur staðið að útgáfu nokkurra bóka.  Þetta er ein þeirra, sem varð til á þann hátt að hópurinn setti sér það verkefni að ljóðskreyta verk nokkurra landskunnra ljósmyndara sem kenna má við Kópavog.
Logi bróðir gaukaði að mér nokkru bókum tengdum ljóðlistinni þegar ég gisti hjá honum og Billu á Öldungamótinu í blaki á Ísafirði. Þessi var lesin í rútunni á leiðinni heim.  Ágætis lesning og skemmtileg hugmynd.  Jón úr Vör stendur upp úr, ekki í fyrsta sinn. 

25. apríl´08  Þegar prentljósin dansa -  Oddný Sv. Björgvins
Enn ein ljóðabókin í sístækkandi safni mínu.  Gefin út af höfundi í Reykjavík 1990.
Innihald þessarar bókar gerði ekkert fyrir mig.  Engin neisti, engin tenging.

14. apríl´08  Skáldið á Þröm - Gunnar M. Magnúss
Ævisaga þessa merka manns gefin út af forlaginu Iðunni 1956.
Það er ótrúlegt ævihlaup þessa manns sem ólst upp í mikilli fátækt fyrir vestan hjá fósturforeldrum sem voru ekki beint að stjana við ungan drenginn.  Magnús, þ.e. skáldið á Þröm, var heilsuveill alla ævi og sérstaklega í æsku og átti hin illa meðferð sem hann hlaut á uppvaxtarárum sínum þar töluverða sök.  Sveitarfélagið borgaði með honum í vistinni, gat hann aldrei endurgreitt þá skuld sem gerði það að verkum að hann mátti ekki gifta sig og ekki búa þar sem hann vildi setjast að vegna þess að hann var ekki giftur.  En hann var í sambúð í 16 ár með Guðrúnu Önnu, eignuðust þau 6 börn en fjögur létust á fyrsta ári. Magnús bjó síðustu árin með fjölskyldu sinni á Suðueyri við Súgandafjörð í gömlu fjárhúsi sem hann gerði upp með aðstoð vina sinna og kallaði hann húsið Þröm.  Hann lést aðeins 43 ára að aldri, líkaminn gat ekki meir.   En allt frá barnæsku var hann sískrifandi og yrkjandi.  Eftir hann ligga ókjörin öll af efni m.a. um 11 þúsund vísur, ýmsar ritgerðir og sagnir að ógleymdum dagbókum hans.  Mikil og merkileg lesning um skáld af Guðs náð.   

12. apríl´08  Svartar morgunfrúr - Karl Ísfeld
Frumort ljóð og ljóðaþýðingar úr ýmsum áttum eru innihald þessarar bókar sem gefin var út af Bókfellsútgáfunni árið 1946.
Nokkuð sérstök efnistök að mínu mati.  Þýðingarnar þóttu mér áhugaverðari en það frumorta. 

10. apríl´08  Fiðrið úr sæng Daladrottningar - Þorsteinn frá Hamri
Tíunda ljóðabók Þorsteins.  Gefin út af Ljóðhúsi 1977.
Þetta er önnur ljóðabókin sem ég les eftir Þorstein frænda minn en enn næ ég ekki að tengja mig við það sem hann hefur fram að færa.  Kannski er þetta bara of djúpt fyrir mig, ég veit það ekki, aðeins eitt ljóð þarna kveikti einhverja loga.  Kannski þarf að lesa efnið oftar og gefa sér meiri tíma til að melta. 

30.mars´08  Íslensk úrvalsrit - Jón Thoroddsen
Bók úr flokknum Íslenzk úrvalsrit gefin út af Bókaútgáfu Menningarsjóðs árið 1950.
Bókin ber undirtitilinn Ljóð og sögur því í henni er að finna úrval ljóða eftir Jón og svo brot úr helstu skáldsögum hans Pilti og stúlku og Manni og konu.  En eins og ýmsum er kunnugt var Jón brautryðjandi í skáldsagnaritun á Íslandi.
Skemmtileg lesning og fróðleg.  Sagt er frá lífshlaupi Jóns í upphafi bókar, uppvexti á Reykhólum, námi og hermennsku í Kaupmannahöfn, ritstörfum og embættisstörfum sem sýslumaður auk ástarmála o.fl.  Ljóðin hans eru mörg góð en hans verður fyrst og fremst minnst fyrir skáldsögur sínar enda eru þær orðnar sígildar. 

24.mars´08  Bréf skáldanna til Guðmundar Finnbogasonar
Gefin út af Erni og Örlygi 1987. 
Þessi var ekki lesin spjaldanna á milli en gluggað í hana á ýmsum stöðum.  Margt forvitnilegt í þessu bréfasafni.  Guðmundur var merkilegur maður sem var í góðu sambandi við mörg af skáldum landsins er hann gerðist ritstjóri Skírnis þegar hann kom út í breyttri mynd 1905 og gerði Skírni að fjölskrúðugu tímariti.  Hér má m.a. lesa fjölda bréfa frá Matthíasi Jochumsyni, Stephani G og fleirum.

23.mars´08  Blástjörnur - Jóhannes Björn
Ljóðabók sem gefin var út á kostnað höfundar 1970.
Inniheldur jafnt hefðbundin sem óhefðbundin ljóð og yrkisefnin úr ýmsum áttum.  Hitti mig ekki í hjartastað þó margt sé vel gert.     

 20. mars´08  Minn guð og þinn - Guðmundur Böðvarsson
Ljóðabók, sú sjöunda frá höfundi, gefin út árið 1960 af Heimskringlu.
Ágætis bók sem heillaði mig þó ekki upp úr skónum.  Sú fyrsta sem ég les eftir Guðmund. 

19. mars´08  Kvæði - Kristján Karlsson
Efnislítil og fremur óspennandi ljóðabók, gefin út af Helgafelli 1976. 

12.mars´08  Mannlýsingar - Einar H. Kvaran
Bók sem var gefin út af Almenna bókafélaginu sem bók mánaðarins í desember 1959.  Í henni eru nokkrar mannlýsingar t.d. af Matthíasi Jochumssyni, Gesti Pálssyni, Hannesi Hafstein o.fl. sem sá merki maður Einar H. Kvaran ritaði á einhverju árabili.  Tómas Guðmundsson sá um útgáfuna og ritar um æviferil Einars.
Skemmtileg bók aflestrar þó umfjöllunarefnin væru misjafnlega spennandi.  Sérstaklega gaman að lesa um Matta Joch. og Hannes Hafstein og um afstöðu höfundar til bókmennta. 

9. mars´08 Heim til þín, Ísland - Tómas Guðmundsson
Ljóðabók eftir hið góðkunna ljóðskáld Tómas Guðmundsson.  Gefin út af Helgafelli 1977.
Síðasta ljóðabók þessa stórskálds, inniheldur ættjarðarljóð frá ýmsum tímum og endruminningar úr sveitinni þar sem Tómas ólst upp.  Tómas hefur gjarnan verið kallaður borgarskáldið en mér finnst hann nú heilmikill sveitamaður í sér og tenging hans við náttúruna er greinilega sterk.

8.mars´08  Draumur undir haust stjörnum - Guðmundur Frímann
Enn ein ljóðabókin úr sístækkandi safni mínu.  Sú fyrsta sem ég les eftir Guðmund, inniheldur bæði frumort ljóð og þýðingar.  Gefin út af Skjaldborg 1980.
Síðasta ljóðbók hans. Frumortu ljóðin voru mjög góð, fallegar náttúrulýsingar með tregablöndnu ívafi.  Þýddu ljóðin höfðuðu yfirleitt ekki til mín, einhver annar veruleiki en ég þekki í flestum þeirra.

6. mars´08  Árbók Barðastrandarsýsku 1968-1974
Meira af þjóðlegum fróðleik sem tengist æskuslóðunum.  Hannibal Valdimarsson sá um útgáfu og söfnun efnis í þessa árbók.  Eins og áður las ég aðallega það sem tengdist Bíldudal og nærsveitum.  Þarna kannaðist maður betur við menn og málefni en í fyrri bókinni og gaman að dusta rykið af ýmsum minningum sem kviknuðu við lesturinn.  Einnig nokkuð af skemmtilegum kveðskap í bókinni.
 
5. mars´08  Árbók Barðastrandarsýslu 1957-1958
Þetta er 9. árgangur af árbókum sem gefnar voru út af Barðastrandarsýslu um árabil.  Sr. Jón Kr. Ísfeld var fyrsti ritstjóri árbókanna og voru samsveitungar mínir fyrir vestan brautryðjendur í slíkum útgáfum, en sú fyrsta kom út 1948.  Ýmis skemmtilegur fróðleikur um heimahagana.  Náði mér í þessa ásamt meira af góðu fóðri í síðustu Reykjavíkurferð þegar ég leit inn í Góða hirðinn.
Las bókina ekki spjaldanna á milli heldur var aðallega lesið það sem tengdist Bíldudal og næstu sveitum og litið yfir kveðskapinn sem nokkuð er af í bókinni.  Skemmtileg og fróðleg lesning.  Stjörnugjöf passar ekki við svona útgáfur.

3. mars´08  Allt önnur Ella - Ingólfur Margeirsson
Þroskasaga Elínar Þórarinsdóttur sem segir m.a. frá hjónabandi hennar og Gunnars Salómonssonar, er hét öðru nafni Úrsus eða Islands Björn, aflraunamaður og kraftajötunn, og bregður upp lifandi mynd af lífi þeirra í fjöllleikahúsum og ferðum heima og erlendis.  Gefin út af Bókaútgáfu Helgarpóstsins 1986. 
Merkileg frásögn af skrautlegu og viðburðaríku lífi Elínar.  Sérstaklega fannst mér áhugavert að lesa um líf hennar með kraftajötninum Gunnari Salómonssyni, en þau ferðuðust víða um Evrópu um árabil og sýndu í fjöllleikahúsum, hann krafta sína og hún söng og lék á gítar.  Seinni hlutinn var erfiðari aflestrar enda um alvarlegri málefni þar sem Elín berst við Bakkus og fleiri djöfla.

2. mars´08  Mold í Skuggadal - Gyrðir Elíasson
Ljóðabók gefin út af Máli og menningu 1992.  Önnur bókin sem ég les eftir Gyrði en fyrsta ljóðabókin.  Það gildir það sama um þessa bók og skáldsöguna sem ég las eftir Gyrði að ég næ ekki að tengja mig nægilega við þennan skáldskap.  Margt myndrænt og flott en einhvern veginn svo fjarlægt að það snertir mig ekki.

26.feb´08  Af heiðarbrún - Heiðrekur Guðmundsson
Ljóðabókgefin út á Akureyri 1950 af Bókaútgáfu Pálma H. Jónssonar.  Fyrstu ljóðin sem ég les eftir Heiðrek.  Haganlega samin, í bundnu máli og viðfnagsefnin héðan og þaðan.  Ágætis lesning. 

23. feb´08  Að lokum - Ólafur Jóhann Sigurðsson
Ljóðabók þar sem finna má síðustu ljóð höfundar, gefin út að honum látnum.  Sonur hans Ólafur Jóhann Ólafsson skáld bjó til útgáfu.  Gefin út af Máli og menningu 1988. 
Góð bók aflestrar.  Höfundur veit hvað er í vændum og bera sum ljóðin nokkuð merki þess.  Þessi verður lesin aftur. 

22. feb´08  Hrafninn flýgur um aftaninn - Baldur Pálmason
Ljóðabók sem gefin var út af Þjóðsögu 1977.  Inniheldur 17 ljóð sem flest hafa birst í dagblöðum eða tímaritum.
Get ekki sagt að lesningin hafi heillað mig þó vel sé gert.  Áhugaverðar skýringar á tilurð ljóðanna í lok bókar gefa þeim meira gildi.

4. feb´08  M samtöl II - Matthías Johannessen
Önnur bókin sem inniheldur þessi bráðskemmtilegu og fróðlegu viðtöl Matthíasar við jafnt þekkta einstaklinga sem óþekkta sem allir hafa þó merkilega sögu að segja.  Leit inn í Góða hirðinn í síðustu suðurferð og náði í 2. og 3. bindi, átti 4. bindi fyrir.  Gefin út af Almenna bókafélaginu 1978. 
Ljómandi skemmtileg og fróðleg lesning.  Stíll Matthíasar flottur og viðmælendur hafa átt viðburðarríka og áhugaverða ævi.  Sérstaklega þóttu mér áhugaverð viðtölin við Etelríði Pálsdóttur (móður Steins Steinarrs), Jakob Jóhann Smára rithöfund, Jón Leifs (komst að því að hann er náskyldur mér) og hina 100 ára Vigdísi Magnúsdóttur sem leit yfir ævina með ótrúlegu æðruleysi þrátt fyrir að missa 4 af börnum sínum í blóma lífsins. 

24.jan´08  Víkingar - Neil Grant
Fræðibók úr bókaflokknum Í kastljósi sögunnar þar sem brugðið er ljósi á ákveðin skeið í sögu mannkyns.  Bók fyrir lesendur á öllum aldri, aðgengilegt efni og ríkulega myndskreytt.  Skjaldborg gaf út 2007. 
Fín fræðibók sem segir frá ýmsu um þessa grimmu en jafnframt kláru forfeður okkar. 

  6. jan´08  Ljóðspor - Ýmsir höfundar
Kennslubók í ljóðalestri og pælingum fyrir 5.-7. bekk.  Skemmtilegt safn ljóða úr ýmsum áttum.  Gefin út af Námsgagnastofnun.  3. útgáfa 1997, þriðja prentun.
Vel heppnað safn ljóða sem ætlað er að höfða til og glæða áhuga nemenda á miðstigi skólans.  Ljóðunum er raðað niður í kafla eftir viðfangsefnum og er það kostur.  Hér getur að líta ljóð allt frá Jóni Vídalín til Gyrðis Elíassonar og er þessi víði tímarammi einnig kostur við bókina.

1. jan´08  Sagan af blá hnettinum - Andri Snær Magnason
Sagan hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrst allra barnabóka árið 1999.  Hefur komið út og vakið athygli víða um heim auk þess sem leikrit eftir sögunni hefur verið sett upp í Þjóðleikhúsinu.
Stórskemmtileg saga með mikinn boðskap sem á ekki síður erindi til fullorðinna en barna.  Fljótlesin skemmtilesning sem fær mann til að hugsa um hvað það er sem skiptir máli í lífinu. 

30.des ´07 Friðryk - Kristján Hreinsmögur (Hreinsson)
Þriðja ljóðabókin sem höfundur gaf út, þessi kom út árið1975 er höfundur var enn mjög ungur að árum.
Virðingarvert þegar ungt fólk lætur að sér kveða og það gerði Kristján sannarlega og hefur verið áberandi síðan, hin síðari ár fyrst og fremst sem einn af helstu dægurlagatextahöfundum landsins.  En innihald þessarar bókar er frekar rýrt, þó passar höfundur vel upp á form ljóðanna en boðakapurinn geldur þess. 
 
28.des´07  Vera - Gunnar Dal
Fyrsta ljóðabók Gunnars gefin út 1949.  Vakti strax athygli vegna heimspekilegra vangaveltna og ljóst að þarna kvað við nokkuð nýjan tón.
Ég hafði gaman af þessari bók þó runnu ljóðin svolítið saman í eitt þar sem umfjöllunarefnin eru mjög svipuð í gegnum bókina.  Hélt ekki athygli minni í gegn en ég mun grípa til hennar aftur og lesa nánar.  Við fyrsta lestur

27.des ´07 Skáldaval - Ýmsir höfundar
Góðgerðarfélagið Stoð og styrkur gaf út 2003.  Ýmsir núlifandi höfundar láta í té efni í bókina sem seld var til styrktar góðu málefni.  Meðal höfunda má nefna Þórarin Eldjárn, Matthías Johannessen, Einar Má Guðmundsson o.fl
Mjög góð bók, fjölbreytt og gott efni.  Ljóð, smásögur og kaflar úr sögum, allt í bland. 

24.des ´07 Harðskafi - Arnaldur Indriðason
11. bók Arnaldar og sú 8. þar sem Erlendur lögreglumaður er aðalsöguhetjan.  Þetta er þó aðeins önnur bókin sem ég les eftir Arnald, hin var Grafarþögn sem var alveg mögnuð.  Harðskafi kom út 2007.
Þessi bók er alveg fantagóð þar sem fléttað er listilega saman dularfullum atburðum í nútíð og úr fortíð og allt fellur saman á lokasprettinum.  Virkilega vel skrifuð og hélt manni svo sannarlega við efnið lengst af en þó fannst mér hún aðeins missa dampinn í lokin.

23.des ´07  99 vestfirskar þjóðsögur 1 -  Sagnasafn
Framhald af hinum geysivinsælu bókum 101 ný vestfirsk þjóðsaga en nú eru aðrir sem halda utan um sagnaritun en sögurnar koma frá ýmsum aðilum.  Vestfirska forlagið gaf út 2006.
Skemmtilegur lestur enda Vestfirðingar skemmtilegir með eindæmum og svolítið sér á parti.  Sérstaklega var gaman að lesa sögur sem tengdust Bíldudal en þær skrásetti flestar Hafliði Magnússon eða "Skáldið" eins og við Bílddælingar köllum hann.

21.des ´07  Tímaspor - Védís Leifsdóttir
Bók sem kom á óvart.  Védís lést úr alnæmi 1993, aðeins 28 ára gömul og er í þessari bók safn ljóða eftir hana frá árinu 1982 til 1993, er hún lést.  Það er Minningarsjóður Védísar sem gaf bókina út árið 1993 til styrktar Jákvæða hópnum sem er sjálfstyrktarhópur ætlaður fólki sem greinst hefur með HIV veiruna.
Bókin kom skemmtilega á óvart, ljóð og hugsanir ótrúlega þroskaðar miðað við ungan aldur höfundar.  Dregur upp sterkar myndir og stuðar lesandann á stundum með óþægilegri einlægni og hispursleysi.  Bók sem ég las strax tvisvar og á örugglega eftir að lesa oftar.

16. des ´07  Nútímaljóð - Ljóðasafn
Ljóðasafn sem tekið var saman af Erlendi Jónssyni og gefið út af Ríkisútgáfu námsbóka árið 1967.  Notuð í kennslu um árabil.
Eins og gerist og gengur með ljóðasöfn er efnið misjafnt og höfðar misjafnlega til manns.  Allir höfundar mjög kunnir en verk þeirra Vilborgar Dagbjartsdóttur og Hannesar Péturssonar náðu best til mín og hífðu bókina upp í 
 
11.des ´07  Lífið sjálft - Ljóðasafn
Ljóðabók sem SÍBS gaf út árið 1996.  145 skáld, allt frá Gylfa Ægis og Megasi til Guðmundar Inga, færðu samtökunum að gjöf verk eftir sig ritað eigin hendi.  Skemmtileg hugmynd að láta höfunda rita eigin hendi en um leið stærsti galli bókarinnar því maður getur ekki lesið nema hluta hennar þar sem rihönd allra er ekki upp á það besta.  Efnið er örugglega í flesta staði gott en vegna þessa stóra galla koma aðeins ...

3. des ´07  Blær - Steingerður Guðmundsdóttir
Ljóðabók eftir hana Steingerði.
Steingerður dregur upp sterkar myndir en oft nokkuð þungar og henni liggur mikið á hjarta.  Svipuð efnistök og umfjöllunarefni og í bókinni Strá sem ég á einnig og las í október.  Ýmislegt sem heillar en annað of þungt fyrir minn smekk.  

2. des ´07  Punktar í mynd - Kristján frá Djúpalæk
Stórgóð ljóðabók eftir skáldið frá Djúpalæk.  Kom út árið 1979.
Sérstök efnistök þar sem maður fylgist með sálinni á leið í lítinn likama og þroska hennar fyrstu fimm árin eða svo, með skírskotun til eigin reynslu segir höfundur.  Fær mann virkilega til að hugsa um lífið og tilveruna í þessu jarðlífi sem á öðrum sviðum.  Frábærar hendingar inn á milli sem standa einar og sér sem mikill vísdómur.

1. des ´07  Borgarljóð - Gunnar Dal
Ljóðabók um hana Reykjavík.  Gefin út 1986, á 100 ára afmæli Reykjavíkurborgar.
Margt gott hef ég lesið eftir Gunnar en þessi bók er nokkuð langt frá því efni.

1. des ´07  Urðargaldur - Þorsteinn frá Hamri
Fyrsta ljóðabókin sem ég les eftir frænda minn Þorstein.  Nokkuð torskilin á köflum og þarfnast nánari lesturs.  Margt heillandi en annað framandi.   

27. nóv ´07  Mig hefur dreymt þetta áður - Jóhann Hjálmarsson
Ljóðabók, eins og svo margar að undanförnu.  Kom út árið 1965 6. ljóðabók höfundar.  Innihaldið höfðaði ekki til mín nema nokkur hugljúf ljóð undir lokin.  

18. nóv ´07  Skáldið frá Fagraskógi - Ýmsir höfundar
Endurminningabók samferðamanna Davíðs Stefánssonar, kom út árið 1965. 
Logi bróðir fékk þessa fyrir mig hjá honum Braga í Bókavörðunni í Reykjavík.  (Það er þessi sem fer á kostum í bókmenntaþáttunum hjá honum Agli Helgasyni.)
Skemmtileg og fróðleg lesning sem gefur manni betri mynd af persónunni og ljóðskáldinu Davíð.  Sérstaklega fannst mér gaman af kafla eftir Ríkharð Jónsson myndhöggvara þar sem hann lýsir ferð þeirra félaga, ásamt fleirum, og dvöl á Ítalíu árið 1921. 

18. nóv ´07  Myrkvuð ský - Þórarinn Torfason
Hann er afkastamikill frændi minn og hér er komið að nýjustu bókinni sem hann hefur sent frá sér.  Þetta er lýrísk skáldsaga segir á bókarkápu en nafni minn sagðist frekar vilja kalla hana ljóðabók.  Hún getur fallið undir báðar skilgreiningarnar.
Þung saga um mann sem berst við sorgina en þó er í henni einhver innri spenna sem veldur því að maður verður að lesa áfram.

16. nóv ´07  Burt - Þórarinn Torfason
Enn ein bókin eftir frænda minn og nafna, í þetta sinn skáldsaga. sem kom út 1995.
Margbrotin og nokkuð flókin aflestrar en heldur manni þó vel við efnið og erfitt að láta hana frá sér.  Nokkrar sögur sagðar í einu með dagbókarbrotum og bréfaskrifum og smám saman kemur tengingin í ljós. 

14. nóv ´07  Mjallhvítarkistan - Jón úr Vör
Ljóðabók, sem kom út árið 1968, eftir hinn magnaða höfund Jón úr Vör sem sendi frá sér bókina Þorpið um miðja síðustu öld en hún er mín uppáhalds ljóðabók.
Þessi bók aftur á móti höfðaði ekki sterkt til mín við fyrsta lestur en vann á við aðra umferð. 

12. nóv ´07  Siglt milli skýja - Þórarinn Torfason
Inniheldur ljóð eftir frænda minn að vestan, kom út árið 2004.
Nokkuð þyngri og fjarlægari en bókin Svif eftir sama höfund sem ég hafði nýlokið við að lesa.  

 9. nóv ´07  Svif - Þórarinn Torfason
Ljóðabók eftir frænda minn og nafna frá Patreksfirði.  En hann las úr verkum sínum á fyrstu ljóðahátíðinni, Glóð, sem ég stóð fyrir á Siglufirði í október þetta ár.  Bókin kom út árið 1999
Dregur upp skarpar og sterkar myndir í fáorðum ljóðum.  Margt gott. 

6. nóv ´07  Þessi ást, Þessi ást - Ýmsir höfundar
Úrval ljóða háskólanema veturinn 1990 -1991.  Efnt var til ljóðasamkeppni meðal háskólanema og dómnefnd valdi 25 bestu ljóðin úr og voru þau gefin út.
Sem fyrr í svona safnbókum höfðar efnið misjafnlega til manns en mörg ljóðanna eru heillandi. 

4. nóv ´07  Ljóð fyrir Stígamót - Ýmsir höfundar
Stígamót gáfu út þessa bók til styrktar starfsemi sinni árið 1992.  Auglýst var eftir ljóðum í bókina og síðan valið úr það sem best þótti.  Höfundar eru bæði þekktir og óþekktir.
Efni misjafnt að gæðum en margt gott og áhrifamikið.  Má þar t.d. nefna ljóð eftir Thelmu Ásdísardóttur sem lýsti þeim ósköpum sem hún gekk í gegnum sem barn í bók mörgum árum eftir að þessi kom út.

1. nóv ´07  Andstæður - Sveinn Hannesson
Nokkur tækifærisljóð eftir Svein Hannesson frá Elivogum.  Gefin út árið 1933  Sveinn hlaut litla menntun og bjó fábreyttu einyrkjalífi allt sitt líf en varð allkunnur fyrir ljóðagerð sína, einkum ádeilustökur.
Efnið í þessari bók er mjög misjafnt að gæðum og höfðaði lítið til mín.  Höfðar sjálfsagt meira til þeirra sem þekkja þær aðstæður og þá sem ort er um.  En ljóst að þarna var efni í mikið skáld sem ekki naut sín vegna erfiðra aðstæðna og lítillar menntunnar.   

30. okt ´07  Með öðrum orðum - Ingi Steinar Gunnlaugsson
Ein ljóðabókin til, kom út 2001.  Þekki engin deili á höfundi en þó virðist hann hafa alist upp á Siglufirði þar sem hann talar um Hólshyrnuna sem fjall sinnar bernsku í einu ljóðanna.
Fystu ljóðin lofuðu mjög góðu þar sem kveðskapnum er líkt við heiði sem er erfið yfirferðar.  Þau sem á eftir koma eru misjöfn að gæðum en margt áhugavert.    

27. okt ´07  Lauf og stjörnur - Snorri Hjartarson
Ljóðabók eftir þann góða höfund Snorra Hjartarson, gefin út 1966.
Þó margt væri gott í þessari bók náði ég ekki almennilegri tengingu við hana.  Les hana aftur síðar þangað til a.m.k. eru broskarlarnir þrír.


24. okt ´07  Í landvari - Gísli Ólafsson
Ljóðabók eftir Skagfirðinginn Gísla sem þjóðkunnur var fyrir ljóð sín og ekki síður lausavísur sem flugu víða.  Kom út árið 1950.
Margt vel gert og kveðskapurinn fullur af hjartahlýju og gleði.  Inniheldur jafnt stökur sem afmælis- og dánarkveðjur.  Góð bók en höfðar sérstaklega til þeirra sem þekkja þá sem um er fjallað.   


20. okt ´07  Strá - Steingerður Guðmundsdóttir
Ljóðabók eftir vestfirsku skáldkonuna Steingerði, sem var dóttir Guðmundar skólaskálds, eins og hann var títt nefndur.   Bókin kom út 1969. 
Dramatísk og alvöruþrungin ljóð í tæplega 160 blaðsíðna bók.  Margt vel gert, myndrænt og vel ort.  En full þungt á köflum fyrir minn smekk.


16. okt ´07  Með sand í augum - Jónas Guðmundsson
Ljóðabók þar sem höfundur yrkir um þorpið á ströndinni, en í baksýn rís landið og heimurinn á viðsjálum tímum.
Ljóðin í þessari bók höfðuðu mjög til mín og ég hef litið í hana reglulega frá því ég las hana fyrst. 


7. okt ´07    Perlur og steinar - Jóhanna Kristjónsdóttir
Bókin ber undirtitilinn árin með Jökli og fjallar hún um fyrstu kynni og sambúð höfundar og skáldsins Jökuls Jakobssonar.  2. útgáfa 1998. 
Vel skrifuð bók um stormasamt samband þeirra hjóna einkum vegna drykkju hans og flókins persónuleika.  Mjög áhugaverð lesning og gefur manni nýja sýn á höfundinn og persónuna Jökul sem lést aðeins 44 ára að aldri.


2. okt ´07   Líffærameistarinn eftir argentíska höfundinn Federico Andahazi 
Fjallar um Matteus Kólumbus sem er fremsti læknir og líffærameistari Ítala á 16.öld.  Allt gengur honum í haginn þar til hann heillast af hinni fögru og kaldlyndu Monu Sofíu, dýrustu gleðikonu Feneyja.
Bókin olli írafári í Argentínu vegna bersögli og hispursleysis en hefur síðan farið sigurför um heiminn.  Kiljuútgafa árið 2000.
Skemmtilega lega skrifuð og áhugaverð bók um tíma endurreisnarinnar í Evrópu og hélt manni alveg við efnið.  Sögusviðið svolítið fjarlægt en góð aflestrar. 

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48