Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Tónlistarannálar 2001-´05

Árið 2001 var án efa stærsta árið á tónlistarferli Þórarins þ.s. nú leit frumburðurinn á tónlistarsviðinu fyrst ljós, sólóplatan Má ég kitla þig ? Sala gekk ágætlega og viðbrögð og dómar framar öllum vonum. Í fyrsta sinn hafði frumsamið efni forgang. 4 útgáfutónleikar og ýmsar kynningar á diskinum fyrir norðan, sunnan og vestan. Leikið á börum, útihátíð, afmælum, verslunum, safni o.fl. Sungið í söngskemmtunum, kom fram einn með gítarinn, í dúett, í tríói, í hljómsveit, sem gestasöngvari og síðast en ekki síst kom Græni bíllinn saman aftur meðlimum hans til mikillar gleði og var það fyrsta skrefið í mikilli endurkomu hans. Þórarinn setti saman 5 lög og texta á þessu ári.

Þórarinn kom fram 38 sinnum á árinu og hefur líklega leikið fyrir um 5.500 manns. Flutt voru 17 frumsamin lög alls 99 sinnum við 17 tilefni.

# ÞH og Kiddi komum fjórum sinnum fram tveir einir. Dúettinn Öl og elta.
# Söng og lék á gítar í söngskemmtuninni Með allt á hreinu á Allanum.
# Flutti tvö frumsamin lög + fl á Konukvöldi hjá Lions.
# Spilaði og söng í afmælum hjá Línu ömmu, mömmu og Stínu.
# Kom fjórum sinnum fram ásamt tvíburunum Kidda og Stjána.
# ÞH, Jóhann og Loftur sameinuðumst hljómsveit á nemendamóti í Reykholti.
# Kom þrisvar sinnum fram á börum einn með gítarinn.
# Kom fram í Grease sýningu á Allanum.
# Hélt útgáfutónleika á Bíldudal, í Reykjavík og 2 á Siglufirði.
# Kom 4 sinnum fram á Síldarævintýri, m.a. með útgáfutónleika á sviðinu.
# Kom fram á Menningarvöku í Gránu v/ afmæla Palla Helga og Hinna.
# Flutti lög af diskinum á Haustfagnaði Arnf. Félagsins með frábæra meðspilara.
# ÞH, Kiddi og Steini lékum í Versló.
# Lék fyrir eldri borgara í Selinu á Bíldudal.
# Græni bíllinn kom saman og lék á Desinum á Bíldudal og á Rabbabar á Patró.
# Lék á Vegamótum einn og með Græna bílnum af tilefni bókar um sveitina.
# Fengin til að syngja með unglingahljómsveit í hæfileikakeppni á Sigló.
# Endaði árið á frábærum áramótadansleik á Allanum með Kidda og Agga.

Diskurinn fékk ágæta kynningu. Viðtal í DV og heilsíða í Séð og Heyrt með Hrefnu þ.s. hún var að syngja með Kiðlingunum á þeirra diski. Í des. kom frábær dómur í Mbl. og ég steig ekki til jarðar næstu daga. Salan stóð undir útgáfukostnaði og var ég mjög sáttur.

Þetta var mjög fjölbreytt, skemmtilegt og sértaklega ánægjulegt ár þ.s. eigið efni var nú mikið til í sviðsljósinu. Ákveðinn í því að þetta væri aðeins byrjunin á því.


Árið 2002 var gott og fjölbreytt, eini skugginn var að lítið var leikið af eigin efni. Leikið var í þremur landsfjórðungum, sungið og leikið á safnplötu, mikið brúðkaupsþema var um mitt ár, settar voru saman ýmsar sveitir fyrir eitt og eitt ball, sungið í Poppmessu, með Græna bílnum o.fl. o.fl. Tekjur af tónlistarflutningi hafa líklega aldrei verið meiri en þetta ár. Aðeins samin 3 lög og textar.
Þórarinn kom fram 40 sinnum á árinu og hefur líklega leikið fyrir u.þ.b. 3.200 manns. Aðeins voru þó 11 frumsamin lög flutt alls 24 sinnum við 15 tilefni.

# Kom fram í sýningu sem kallaðist Golden Oldies ásamt fleiri söngvurum frá Sigló, hljómsveitin Sweety sá um undirleikinn. Sýnt var á Siglufirði og Ólafsfirði.
# Lék á þorrablóti með Steina Sveins við trommurnar.
# ÞH og Kiddi komu aðeins einu sinni fram tveir en oft með öðrum.
# Flutti tvö frumsamin lög í Konudagsmessu.
# Með Kidda og fleirum 2x um páskana á Allanum. TKplús
# Fékk boð um að vera með á safnplötu tónlistarmanna frá Patreksfirði og Bíldudal, sem hann þáði með þökkum. Notaði 3 lög af disknum sínum, ætlaði að taka upp eitt enn en ekki vannst tími til þess. Diskurinn heitir Vesturljós og kom út fyrir sjómannadaginn. Sala hans gekk vel, ÞH fékk í sinn hlut 36.000 kr.
# Söng og spilaði í brúðkaupsveislu með fleirum og söng í öðru brúðkaupi.
# Söng í sínu eigin brúðkaupi og slegið var upp balli í veislunni. Þar léku ásamt brúðgumanum, Bjarni Þór, Kiddi, Ragnar Jónsson, Þorsteinn Sveinsson og Heimir Hólmgeirsson.
# Kom fram á Síldarævintýri ásamt fleirum með bland úr söngskemmtunum fyrri ára.
# Söng í poppmessu með góðum og skemmtilegum hópi, sem kom einnig fram síðar á söngskemmtun á Bíóinu.
# Dúettin Öl og elta (ÞH og Kiddi)varð tríó er hann lék í Pakkhúsinu á Selfossi því Kristján, bróðir Kidda, lék með okkur á trommur.
# Græni bíllinn var beðinn að leika aftur á Desinum á Bíldó og spilaði einnig á Rabbabar. Hefur sveitin sjaldan verið betri
# Hljómsveitin Hey í harðindum varð til fyrir Söng og leikdjamm á Allanum. ÞH, Ómar Hlyns og Aggi Sveins. Allt óæft.
# Lék á Bíóinu á Þorláksmessu.
# Lék aftur á Áramótadansleik ásamt Kidda og Agga. Mikið fjör frá 5-7 !!!

Eins og sjá má af ofantöldu var árið fjölbreytt og gott og var farið víða um sveitir. Tónlistarmaðurinn Þórarinn hafði gaman af þessu ári og tók nýjum áskorunum með bros á vör.


Árið 2003 var gott hjá tónlistarmanninum, verkefnin mörg og afar fjölbreytt. Fjöldi frumsamdra laga leikinn og tónskáldinu var veitt meiri athygli og heiður en oft áður. Tekin var upp geislaplata með gömlum félögum og Bíldudalur var heimsóttur yfir frábæra helgi. Sjaldan leikið fyrir fleira fólk og með fleira fólki á einu ári. Aldrei jafn mörg lög samin á einu ári því þau urðu 19 talsins og textarnir jafn margir.
Þórarinn kom fram 28 sinnum á síðasta ári og líklega hafa um 5.000 manns séð og heyrt til hans. Við 24 tilefni flutti hann frumsamin lög, 32 stk. alls 80 sinnum.

# Leikið var á þremur dansleikjum. Með hjómsveitinni Svarið á Sigló og síðan eftir fagnaði hjá Bílddælingum eftir skemmtidagskrár þar sem ÞH kom m.a. fram. Þær hljómsveitir samanstóðu af 6-12 Bílddælingum á sviðinu hverju sinni.
# Þrisvar sinnum var leikið á pöbbum á Sigló fyrri part ársins.
# Þrisvar sinnum kom ÞH fram í kirkjunni og lék frumsamin lög.
# ÞH samdi lag vegna fyrirhugaðrar hátíðar á Bíldó um sumarið og fór á Sólarkaffi Arnfirðingafélagsins til að kynna það. Fékk lagið fínar viðtökur.
# Tónskáldið ÞH var beðið um að koma í samstarf við leikskólakennara sem var að gera verkefni um tónskáld þ.e. ÞH, auk þess að vera með fyrirlestur um laga- og textasmíðar í rokksmiðju hjá Æskulýðsheimilinu.
# Í maí fór Græni bíllinn .. með ÞH innanborðs í upptökur á 6 laga diski eina helgi í hljóðveri Geimsteins í Keflavík. Áður höfðu lög verið send milli landshluta og æft einn dag. Um var að ræða 4 frumsamin lög, þ.a. tvö eftir ÞH + hluta af texta í því þriðja. Þetta var mikil skemmtun fyrir þá félaga og gekk að óskum. Lögin hljómuðu nokkuð í útvarpi næstu mánuði á eftir. Sala disksins gekk vel og seldust öll 250 eintökin upp á fáum vikum.
# Grænu bauna hátíð no. 1 fór fram þetta ár og þar kom ÞH fram 5 sinnum ýmist einn eða með Græna bílnum. Frábært í alla staði.


                                           Græni bíllinn leikur fyrir utan Melódíur Minninganna

# Leikið var á Síldarævintýri ásamt Ómari Hlyns og Evu Karlottu.
# ÞH var beðin um að koma fram á Menningarnótt í Ráðhúsi Reykjavíkur í skemmtidagskrá Siglfirðinga. Fékk Kidda í lið með sér og léku þeir tvö frumsamin lög við góðar undirtektir tæplega 2.000 manns.
# Lék þrjú frumsamin lög á haustfagnaði Arnfirðingafélagsins.
# Í lok ársins hélt kappinn tónleika í Æskulýðsheimilinu með liðsstyrk drengja úr tónlistarvali skólans sem hann fékk til liðs við sig. Var það upphafið að farsælu samstarfi næstu mánuðina.
  Á haustfagnaði Arnfirðingafélagsins.

Þetta var árið sem Þórarinn einsetti sér að reyna að koma lögum sínum meira á framfæri og leggja áherslu á að leika þau, frekar en efni eftir aðra. Það gekk eftir þetta árið, sjáum hvernig þróun næstu ára verður.


Árið 2004 var að mörgu leyti gott fyrir tónlistarmanninn Þórarinn, þó ekki sé kannski hægt að segja að það hafi verið gjöfult ef litið er á peningahlið málsins. En verkefnin voru fjölbreytt, leikið var á nýjum stöðum og aldrei meira flutt af frumsömdu efni. Við 24 tilefni voru flutt 33 lög alls 103 sinnum. Í nóvember var byrjað á nýju stóru verkefni og tveir merkilegir áfangar á tónlistarferlinum náðust í síðasta mánuði ársins, meira af því síðar. Sjö lög og textar samin þetta ár.
Tónlistarmaðurinn Þórarinn kom fram opinberlega 35 sinnum á árinu og líklega hafa um 3.000 manns heyrt hann og séð með gítarinn á þessum uppákomum:

# Í lok árs 2003 hafði hann hafið samstarf við 5 drengi úr tónlistarvali Grunnskóla Siglufjarðar og með þeim kom hann fram við ýmis tækifæri fram eftir árinu 2004. Kallaðist bandið Tóti og páskaungarnir og kom m.a. fram við val á Íþróttamanni ársins, við setningu Unglingameistaramóts Íslands á skíðum, á 1. maí, við hátíðahöld 17. júní o.fl., alls 11 sinnum. Sveitin æfði upp og flutti 10 lög þar af 3 eftir Þórarinn.
# Þórarinn kom fram í vel heppnaðri söngskemmtuninni Frá Óperu til Idol ásamt 7 siglfirskum söngvurum. En hún var flutt tvisvar um páskana.
# Lagt var upp í tónleikaferð til Vestfjarða um Jónsmessuna með eigið efni og hélt Þórarinn tónleika á Bíldudal, Þingeyri og Ísafirði á þremur dögum. Til liðs við sig fékk hann vin sinn Matthías Ágústsson bassaleikara. Viðar Ástvaldsson lék einnig með þeim félögum að hluta á Bíldudal og Ísafirði. Síðar á árinu hélt Þórarinn einnig tónleika á Siglufirði.
# Sökum kennaraverkfalls ákvað Þórarinn að skella sér aftur útí pöbbaspilerí og kom fram 4 sinnum á Siglufirði og Selfossi.
# Önnur tilefni þar sem Þórarinn kom fram á árinu voru m.a. á 250 manna baráttufundi kennara á Akureyri þar sem hann söng eigin baráttutexta við þekkt lög, í konudagsmessu, við skírn og jarðarför, á litlu jólum og jólahlaðborði.
  Sungið og spilað á jólahlaðborði á Allanum.

Í upphafi nóvember var byrjað á upptökum að nýrri geislaplötu með frumsömdu efni. Tekið var upp hjá Mogo music á Ólafsfirði en maðurinn á bak við það merki er Magnús Ólafsson tónlistarmaður. Samstarf Magnúsar og Þórarins gekk mjög vel. Eftir að Magnús fékk demo af lögunum til sín á diski fór sá síðarnefndi tvær ferðir á Ólafsfjörð til skrafs og ráðagerða um útsetningar og hljóðfæraskipan og til að syngja inn en Magnús sá um allan undirleik. Lögin og pælingar um þau voru síðan send á milli tölvuapparata þeirra félaga. Áætlað var að platan yrði tilbúin í lok febrúar 2005.

Eins og greint var frá í upphafi náðust tveir merkilegir áfangar á tónlistarferlinum undir lok ársins. Þar var í fyrsta lagi um það að ræða að Þórarinn kom fram opinberlega í þrjúhundruðasta skipti til að flytja tónlist og síðan fékk hann í fyrsta skipti greiðslur frá Stef fyrir flutning á hans efni í útvarpi.

Þórarinn stefnir að því að halda ótrauður áfram spilamennsku á þessu ári og reyna að kynna nýju plötuna sem best og fá á hana spilun í útvarpi, en þessi plata er mun útvarpsvænni en sú fyrsta að hans mati.
Sjáum hvað setur og hvort hann hefur rétt fyrir sér.


Þetta ár, árið 2005, var svo sannarlega eitt af þeim stærstu á ferlinum, reyndar það stærsta. Lokið var við uppökur á annri sólóplötu kappans í febrúar og kom hún út í lok mars. Fékk hún nafnið Stolnar stundir og innihélt 12 frumsamin lög og texta eins og sú fyrri. Meira var lagt í alla hluti að þessu sinni og skilaði það sér m.a. í mun meiri útvarpsspilun og athygli. Þórarinn hefur aldrei komið jafn oft fram og þetta ár, aldrei fyrr flutt jafn mikið af frumsömdu efni og aldrei hafa fleiri heyrt til hans á einu ári. Mesta púðrið fór í að kynna nýju plötuna en önnur skemmtileg verkefni komu einnig inn á milli m.a. lag í lagakeppni fyrir vestan sem endaði á geislaplötu og tvær bæjarhátíðir. Árið endaði einnig mjög skemmtilega hjá tónlistarmanninum. Samin voru 8 lög og textar.
Þórarinn kom fram alls 65 sinnum á árinu og um 6300 manns hafa heyrt til hans, utan þeirra sem heyrðu til hans á öldum ljósvakans en þeir hafa án efa skipt tugum þúsunda. Við 44 tilefni voru flutt 42 frumsamin lög alls 285 sinnum. Allt eru þetta met á ferlinum, spurning hvort þau verði einhverntíman slegin.

# Þórarinn kom aðeins fjórum sinnum fram í hefðbundnu pöbbaspileríi.
# Kom tvisvar sinnum fram með syni sínum Patreki sem lék á klarinett.
# Rölti fjórum sinnum á milli stofa í skólanum með gítarinn og lék og söng.
# Flutti frumsamin lög og fyrirlestur í sunnudagaskóla kirkjunnar.
# Kom fram í ýmsum hlutverkum og hljómsveitum á Góugleði kennara.
# Lék undir frumsamið lag með drengjakór á Vorskemmtun skólans.
# Var boðið að flytja lög af nýja diskinum á sýningum Fílapenslanna á Sigló.
# Tók þátt í söngskemmtuninni Frá Óperu til Idols.  Flott sýning.
# Kynnti diskinn með söng í verslunum á Siglufirði fjórum sinnum.
# Útgáfutónleikar voru haldnir á Allanum og síðar sunnan heiða í Möguleikhúsinu þar sem Logi bróðir sýndi einnig Gísla Súrsson.

Mynd úr Gagnasafni (grein 1043674 Albúmið - Stolnar stundir.

# Var boðið að koma fram og flytja lög af diskinum við hin ýmsu tækifæri t.d. á lokahófum blakara og sundgarpa sem hvort tveggja voru um 100 manna skemmtanir, á úrslitakvöldi Gettu betur á Siglufirði, á Hátíðarfundi Kiwanismanna í bátahúsinu þar sem m.a. voru þingmenn, á 1. maí, 17. júní og Kennaraþingi KSNV á Sigló.
# Hélt auk þess þrenna tónleika á Siglufirði þar af einn fyrir börn.
# Fór í tónleikaför um Vestfirði þar sem viðkomustaðir voru Ísafjörður, Bíldudalur og Patreksfjörður.
# Kom fram nokkrum sinnum á Grænu bauna hátíð á Bíldudal.
# Kom einnig nokkrum sinnum fram á Síldarævintýri á Sigló með frumsamið efni og fleira.
# Var boðið að koma fram á Blúshátíð á Ólafsfirði með efni af nýja diskinum.
# Flutti rímur með 6 manna rímnakór kennara á tveimur veitingastöðum í Póllandi.
# Þórarinn endaði árið með því að koma fram með Karlakór Siglufjarðar sem aðstoðaði hann við frumflutning á lagi hans við texta eftir Ingólf Jónsson frá Prestsbakka og nefnist Sól er yfir Siglufirði. Lukkaðist mjög vel.


Sem sagt stórt, fjölbreytt og viðburðarríkt ár. Þó nokkur viðtöl og umfjöllun í fjölmiðlum. Nýi diskurinn fékk fína dóma og var töluvert leikinn á Rás 2 og víðar, sérstaklega lagið Þúsund ár. Sem sagt útvarpsvænni en sá fyrri eins og einhver spáði. En hvernig er hægt að toppa þetta? Verður það gert, eða er okkar maður lúinn eftir árið og búinn að fá nóg í bili? Það mun aðeins tíminn leiða í ljós.

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48