Tónlistarannálar 1978 -´85
Árið 1978 hófst tónlistarferill Þórarins Hannessonar. Fyrstu skrefin voru stigin með bekkjarbræðrunum Helga Hjálmtýssyni og Gísla Ragnari Bjarnasyni vestur á Bíldudal þegar þeir voru á fjórtánda ári. Saman skipuðu þeir hljómsveitina Brest. Gísli lék á gítar og söng, Helgi plokkaði bassann og Þórarinn barði húðir og söng einnig. Hljóðfærakaupin voru fjármögnuð með fermingarpeningunum auk þess sleginn var víxill í Landsbankanum til að kaupa hljóðnema, statíf og magnara. Þórarinn hafði gert tvær tilraunir til að læra á hljóðfæri en lítið orðið ágengt í þeim efnum. Lærði á píanó hluta úr vetri og síðar nokkur grip á gítar hjá Jörundi Garðarssyni kennara við Barnaskóla Bíldudals.
Þórarinn kom tvisvar sinnum fram þetta árið með spilafélögum sínum og rúmlega 100 manns heyrðu til hans og sáu þetta fyrsta ár.
# Fyrsta skólaball Brests var í desember þetta ár. Æfingar fóru upphaflega fram í aflögðu fjósi á Litlu-Eyri, þar sem Gísli bjó og síðar í tilvonandi trésmíðaverkstæði þar fram frá. Síðar færðust æfingarnar í Barnaskólahúsið. Á fyrstu æfingum fór lítið fyrir kunnáttu Þórarins á trommurnar en Gísli og Helgi voru öruggari í því sem þeim bar að gera. Þórarinn fékk þá örkennslu hjá tónlistarkennara svæðisins og kunni eftir það skil á tveimur takttegundum eða svo og það dugði til.
Þetta fyrsta ball gekk vonum framar og taldi lagalistinn á annan tug laga.
#Í lok ársins var hljómsveitin Brestur beðin að spila á jólaballi í skólanum. Ákváðu Þórarinn og félagar að fá til liðs við sig tvær bekkjarsystur sínar, þær Ernu og Heru, og hjálpuðu þær til við sönginn.
Þannig hófst ferill Þórarins á tónlistarbrautinni. Mörg spennandi ævintýri og óvæntir atburðir bíða handan við hornið! Lesið áfram.
Árið 1979 fetar Þórarinn áfram sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni. En þegar kemur fram á sumarið er fyrsta kafla þessarar sögu lokið því þá líkur sögu skólahljómsveitarinnar Brests. Leiðir drengjanna þriggja skilja þegar Þórarinn heldur til náms í Reykholt í Borgarfirði en Gísli og Helgi halda að Núpi, en sá staður mun koma töluvert við sögu hjá Þórarni rúmum áratug síðar.
Þórarinn kom 6 sinnum fram með Bresti þetta ár og líklega hafa um 400 manns heyrt og séð hljómsveitina leika þetta ár.
# Brestur lék á 4 skólaböllum í Barnaskólanum. Lagalistinn taldi þó líklega aldrei meira en 18 lög. Hrönn Hauksdóttir, bekkjarsystir drengjanna, söng með þeim eitt skiptið. Fyrir eitt ballið útbjuggu meðlimir sveitarinnar forláta ljóskastara úr málningardósum og settu í þá litaðar perur. Festu síðan herlegheitin á spjald og lýstu upp sveitina.
# Brestur lék á árshátíð skólans undir nafninu Bíldudal´s Bluegrass Band og flutti nokkur lög í viðeigandi stíl. Gísli lék á banjó og gítar, Helgi á mandolín og gítar og Þórarinn barði bongótrommur og söng. Auk þess kom gestasöngvari fram með hljómsveitinni en það var Bjarni Þór Sigurðsson, þá 10 ára, og flutti lagið Upp í sveit.
# Brestur kom fram í síðasta sinn á 17. júní skemmtun í Baldurshaga. Þar sungu Hrönn Hauksdóttir og Bylgja Agnarsdóttir með sveitinni.
En hvað gerist á nýjum slóðum Þórarins í Reykholti í Borgarfirði ? Mun tónlistarflutningur enn skipa sess í lífi hans. Sjáum hvað setur.
Snorri Sturluson á stalli sínum í Reykholti
Árið 1980 var ósköp rólegt hjá hinum nýja tónlistarmanni Þórarni. Í Reykholti snérist lífið um íþróttir og aftur íþróttir og lítill sem enginn tími til að sinna tónlistargyðjunni. En fyrir 1. des. skemmtun lét Þórarinn tilleiðast að vera með í sextett með skólabræðrum sínum sem æfði upp þrjú lög.
Þannig að þetta árið kom litli tónlistarmaðurinn aðeins fram einu sinni og um 250 manns sáu og heyrðu.
# Söng með sextett á 1. des. skemmtun RHS í Logalandi í Borgarfirði.
Athugum hvort Eyjólfur hressist ekki eitthvað á næsta ári.
Árið 1981 fór hægt og hljótt af stað en undir lok ársins fer að hitna í kolunum þegar hljómsveitarbröltið byrjar aftur. Sem fyrr eru það íþróttirnar sem eiga hug Þórarins allan, námið fær þó einhvern smá skerf en tónlistin er þarna líka í undirmeðvitundinni og þarf að fá útrás.
Þórarinn kemur þrisvar sinnum fram á tónlistarsviðinu þetta árið og um 500 manns hafa orðið vitni að því.
# Söng með blönduðum kór á árshátíð Héraðsskólans í Reykholti (RHS)sem fram fór í Logalandi í Borgarfirði.
# Söng með þessum sama kór nokkra negrasálma í kirkjunni í Reykholti.
# Um haustið var Þórarinn fenginn til að leika á trommur og syngja, ásamt öðrum, með sex manna hljómsveit sem stofnuð var við RHS. Nafngiftin var frumleg því hljómsveitin var skírð í höfuðið á dömubindum og bar nafnið Camelia 2000. Það kom til af því að skólahljómsveitin árið áður, sem starfaði að vísu lítið, bar nafnið Stayfree, sem voru líka dömubindi. Sveitin hóf æfingar í lok október og fyrsta skólaballið var haldið í byrjun desember. Viðtökur voru mjög góðar og ákveðið var að halda áfram veginn.
Þá er annar kaflinn í hljómsveitabröltinu hafinn og nokkuð ljóst að hann yrði svipaður að lengd og sá fyrsti þ.s. Þórarinn var á sínu þriðja og síðasta ári í Reykholti. En kannski bíða önnur ævintýri á næstu árum. Sjáum til.
Fyrri hluti ársins 1982 er uppfullur af skemmtilegum og spennandi viðburðum á tónlistarsviðinu. Fjöldi skólaballa, spilað í hléi hjá einni af stórhljómsveitum landsins og aðalhlutverk í heilmikilli rokkóperu eru atburðir sem geymast í minningu Þórarins næstu áratugina. En þegar Reykholt er kvatt kveður Þórarinn einnig tónlistarbröltið og viðskilnaðurinn verður ansi langur.
Þetta ár kom ÞH fram alls 9 sinnum og aldrei hafa jafn margir heyrt til hans og séð, eða tæplega 2000 manns.
# Söng með hljómsveitinni JÓGÓHÓ og HETOÞÓ á skólaballi í RHS. Nokkrar mannabreytingar höfðu orðið hjá Cameliu 2000 og tók hún upp nýtt, og ennþá frumlegra nafn, sem myndað var úr upphafsstöfum úr nöfnum meðlimanna. Gítarleikarinn, sem einnig hafði séð um sönginn með Þórarni, hafði hætt í skólanum og kominn var nýr trommuleikari sem leysti Þórarinn af hólmi þannig að hann gat einbeitti sér að söngnum ásamt söngkonu sem var fyrir í sveitinni.
# Þriðja og endanlega nafn skólahljómsveitarinnar var Tíbía, sem var nafngift frá Þórarni eins og nafnið á undan. Undir því nafni kom hljómsveitin fram á fjórum skólaböllum.
# Hljómsveitin Start, með Pétur Kristjánsson og Eirík Hauksson í broddi fylkingar, lék á árshátíð skólans. Tíbía leysti þá af í hléinu og lék nokkur lög.
# Tíbía lék einnig á skólaballi í Varmalandi en það ball gekk undir nafninu Sameiginlega ballið því þar skemmtu sér saman nemendur úr Reykholti og af Bifröst.
# Þórarinn söng aðalhlutverkið, þrumuguðinn Þór, í rokkóperunni Goðgá sem sýnd var á árshátíð RHS sem og á Sameiginlega ballinu. Þótti þessi uppfærsla mjög skemmtileg og vel heppnuð og Þórarinn fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína.
Þar með var skólagöngunni í Reykholti lokið og Þórarinn horði til baka með trega í huga eftir þrjá frábæra vetur. Íþróttir, tónlist, frábær félagsskapur, ótal ævintýri, góðir vinir, góðar minningar. Hvað tæki nú við ? Yrði einhver tónlist þar ?