Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Íþróttaannálar 1975-´80

Árið 1975. Eins og fram kemur hér að framan voru engar skipulagðar íþróttaæfingar á Bíldudal fyrstu 10-12 æviár Þórarins og engar skipulagðar keppnir við nágrannabæi. Íþróttafélagið hafði ekki verið starfandi í langan tíma. En knattspyrna var samt sem áður mikið stunduð þetta sumar sem önnur á hinum ýmsu grasblettum.

Fyrsta keppni Þórarins var víðavangshlaup á 17. júní á Bíldudal þar sem keppt var í 2 aldursflokkum, 11-13 ára og 14-16 ára. Þórarinn var á yngsta ári í yngri flokknum en tókst samt sem áður að bera sigur úr býtum eftir mikla og harða keppni. Verðlaunin voru ekki hefðbundin heldur voru þau forláta Parker penni og 1.000 kr. Var Þórarinn stoltur af sigrinum og hinn ánægðasti með vinningslaunin.

Þórarinn fór þetta sumar í vikutíma í Íþróttaskóla Sigurðar Guðmundssonar á Leirá í Borgarfirði ásamt bekkjarbróður sínum Helga Hjálmtýssyni. Þar var samankominn mikill fjöldi drengja og undi sér við íþróttaiðkun, kvöldvökur og aðra skemmtan. Hafði Þórarinn mikið gagn og gaman af þessari dvöl. Þarna kynntist hann m.a. fyrst íþróttagreinum eins og körfubolta, handbolta og frjálsum íþróttum, náði fljótt lagi á þeim og var meðal þeirra sem fremst stóðu í hverri grein.


Knattspyrnuiðkunin komst á nýtt plan sumarið 1976 þegar ákveðið var að halda knattspyrnumót fyrir 13 ára og yngri milli bæjanna í V-Barðarstrandasýslu, þ.e. Bíldudals, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Þeir Hannes Friðriksson, faðir Þórarins, og Örn Gíslason tóku að sér að segja áhugasömum drengjum og stúlku, Lindu Hreiðarsdóttur síðar trommuleikara í Grýlunum, til. Leikið var heima og heiman í 11 manna liðum. Vegna mannfæðar fengu Bílddælingar leyfi til að nota tvo eldri leikmenn, þá Braga Gunnarsson og Þröst Leó Gunnarsson, síðar stórleikara. Á Bíldudal var leikið á gamla Hólsvellinum. Bílddælingum gekk vonum framar á leikvellinum og stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins í lok sumars. Þórarinn var fyrirliði liðsins, lék í fremstu víglínu og varð líklega markahæsti leikmaður liðsins. Hann tók stoltur við verðlaunagripunum, farandbikar og eignarbikar ásamt verðlaunapeningi, í mótslok.

Aftur var haldið víðavangshlaup á 17. júní og tókst Þórarni þar aftur að tryggja sér sigur. Í þetta sinn með æsilegum endaspretti niður Kurfubrekkuna og yfir stóran drullupoll skammt frá marklínunni, sem var við Jónsbúðina. Í þetta sinn var verðlaunapeningur fyrir fyrsta sæti og var það sá fyrsti sem Þórarinn eignaðist.

 

Enn er knattspyrnan íþrótt númer eitt á Bíldudal árið 1977og þ.a.l. hjá Þórarni. Aftur var keppt í flokki 13 ára og yngri milli bæjanna fyrir vestan, Bíldudals, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Bílddælingar höfðu á að skipa geysi sterku liði þetta sumar. Kjarninn var árgangur Þórarins, árgangur ´64 en auk okkar manns voru í honum Kolbeinn Gunnarsson, Helgi Hjálmtýsson, Gísli Ragnar Bjarnason og Guðmundur Otri Sigurðsson, allt kraftmiklir og öflugir kappar. En næstu árgangar voru fámennari og því voru yngstu leikmennirnir fjórum árum yngri, eða aðeins 9 ára. Þetta lið vann öruggan sigur á mótinu og stærsti sigurinn var 12-0 gegn Patró. Sem fyrr héldu þeir Hannes og Örn utan um hópinn. Þórarinn var fyrirliði liðsins og sá markahæsti.

Önnur íþróttaafrek voru ekki unnin þetta ár. En hinir hefðbundnu leikir, leikfimi og vetraríþróttir voru stundaðar af kappi. En engin sérstök keppni var í gangi þar til að segja frá.
 

Sumarið 1978 tók Þórarinn þátt í því að endurvekja Íþróttafélag Bílddælinga, ÍFB. Það var stofnað 1944 en hafði ekki verið starfandi í þó nokkur ár þegar þarna kom sögu. Þórarinn og frændi hans Ólafur Högnason áttu frumkvæði af því að boða til fundar í Baldurshaga um endurreisn félagsins og var Þórarinn kjörinn gjaldkeri á þessu fyrsta nýja starfsári þess. Þó nokkur vakning var í héraðinu á íþróttalífi og starfi á þessum árum og tengdist hún knattspyrnukeppnunum milli þéttbýliskjarnanna. Ungmennafélag var að verða til í Tálknafirði og verið var að leggja drög að Héraðssambandinu Hrafnaflóka sem átti m.a. að sjá um mótahald í héraðinu.

Knattspyrnan var stunduð af sama kappi og fyrr og aðrar íþróttir voru ekki á sumardagskránni á Bíldudal þetta árið.

Um haustið gerðist nokkuð markvert varðandi íþróttaiðkun innanhúss á Bíldudal. Þá tóku Þórarinn og bekkjarbræður hans sig til og söfnuðu fyrir körfum í félagsheimilið og fengu þær settar upp. Þetta varð mikil bylting í íþróttalífinu á Bíldudal þar sem engar körfur höfðu verið í bænum áður hvorki utan- né innandyra. Körfurnar voru mikið notaðar bæði í leikfimikennslu sem og á öðrum tímum. Voru þetta fyrstu kynni margra krakka á Bíldudal af íþróttinni og urðu þar ýmsar spaugilegar uppákomur. Fengu Þórarinn og félagar félagsheimilið stundum leigt til að stunda þessa nýju íþrótt og einnig var leikið blak þar öðru hverju.

 

Árið 1979 gekk í garð og eins og undanfarin ár stundaði Þórarinn bæði skíða- og skautaiðkun á veturna þegar færð og færi gafst. Engar æfingar voru þó í þessum greinum á Bíldudal og engin skíðalyftan. Skíðakennari kom þó hvern vetur í um vikutíma og sagði nemendum skólans til. Keppt var við Patreksfirðinga í svigi á Hálfdán í lok heimsóknar skíðakennarans þennan veturinn og hafnaði Þórarinn þar í öðru sæti á eftir frænda sínum Gísla Bjarnasyni frá Litlu-Eyri.

Í Baldurshaga var leikfimikennslan og eldri drengirnir leigðu oft salinn á kvöldin og fóru þá oftast í körfubolta eða fótbolta, einnig kom fyrir að farið var í blak.

Sumarið var svipað síðustu sumrum, vinna á daginn, fótbolti og leikir á kvöldin.

Um haustið urðu mikil tímamót í lífi Þórarins er hann yfirgaf foreldrahús til að fara í heimavistarskóla í 9. bekk, þ.s. ekki var boðið upp á þá kennslu á Bíldudal á þessum árum. Fyrir valinu varð Héraðsskólinn í Reykholti í Borgarfirði og reyndist það mjög góð ákvörðun að velja þann skóla. Strax frá fyrsta degi féll Þórarinn vel inn í lífið í Reykholti sem má segja að hafi verið iðandi suðupottur af unglingum frá öllum vesturhluta landsins. Íþróttir skipuðu stóran sess í skólabragnum og það líkaði okkar manni sérstaklega vel. Körfubolti var ?þjóðaríþróttin? á staðnum og náði Þórarinn fljótt góðum tökum á henni auk þess sem fótbolti var mikið leikinn, að sjálfsögðu, sem og blak og fleiri greinar. Aðstaða var ágæt; glænýr upphitaður steyptur völlur úti, u.þ.b. 15 x 30 metrar að stærð, með fjórum körfum og tveimur handboltamörkum og var hann gífurlega mikið notaður, og íþróttahús það fyrsta sem Þórarinn hafði komist í alvöru samband við, reyndar bráðabirgðahúsnæði síðan 1930 eða svo, en samt sem áður fínt til síns brúks. Gólfflöturinn var u.þ.b. 12 x 20 og lofthæð ekki sérlega mikil en þó hæst í miðjunni þar sem húsið var með risi.

Ekki leið sá dagur að ekki væri farið á völlinn, íþróttahúsið eða sundlaugina og spriklað og stundum á alla þessa staði. Einnig var töluvert um skipulagðar keppnir t.d. milli bekkja í ýmsum greinum, sem og milli borðstofuflokka o.fl. Svo var þreytt keppni við aðra skóla í ýmsum greinum og var það draumur hvers íþróttamanns að komast í úrvalslið skólans í einhverri grein. Þennan fyrsta vetur varð sá draumur ekki að veruleika hjá Þórarni en hann sýndi miklar framfarir í ýmsum greinum þó sérstaklega í körfuboltanum.

Besti árangur Þórarins með sínum bekkjarfélögum í 9A var líklega í bekkjarkeppni í frjálsum íþróttum þar sem bekkurinn varð óvænt í 3. sæti af 6 og skákaði þar m.a. eldri bekkingum.


Ansi merkilegt ár á íþróttaferli Þórarins, árið 1980, eins og sjá má ef lesið er niður síðuna.

Áfram hélt íþróttafjörið í Reykholti fram á vorið og í jólafríi og páskafríi var spriklað á Bíldudal, farið á skíði eða körfubolta, fótbolta og blak í félagsheimilinu Baldurshaga. Sem fyrr var körfuboltinn fyrirferðamestur í Reykholti en aðrar greinar stundaðar jafnhliða. Bestum árangri náðu Þórarinn og bekkjarfélagar hans í blaki þegar bekkur hans 9A vann bekkjarmót í þeirri grein og skutu þar eldri bekkingum skólans ref fyrir rass.

Um vorið urðu þau tíðindi á Bíldudal að ákveðið var að ráða Valdimar Gunnarsson sem þjálfara hjá ÍFB yfir sumarið og formlegar æfingar í knattspyrnu og frjálsum íþróttum voru á dagskrá. Þetta varð að sjálfsögðu mikil lyftistöng fyrir íþróttalífið á staðnum og Þórarinn komst þarna í fyrsta sinn almennilega í kynni við frjálsar íþróttir sem áttu eftir að verða stór hluti í íþróttaiðkun hans í tæpa tvo áratugi eða svo. Reyndar var það svo að íþróttalíf á öllu svæðinu, þ.e. Vestur ?Barðarstrandarsýslu, var að taka töluveðum stakkaskiptum um þessar mundir. Búið var að stofna/endurvekja Héraðssambandið Hrafnaflóka, stofna ungmennafélag á Tálknafirði og endurvekja Íþróttafélag Bílddælinga eins og áður hefur verið greint frá. Einnig hafði hlaupið nýtt líf í íþróttafélagið Hörð á Patreksfirði og ungmennafélagið á Barðarströnd. Á flestum stöðum voru nú þjálfarar starfandi yfir sumartímann og sögðu börnum til í fótbolta og frjálsum íþróttum.

Knattspyrnukeppnir héldu áfram milli bæjarfélaganna en stóru tíðindin þetta árið voru að endurvakin voru héraðsmót í frjálsum íþróttum og fór það fyrsta fram í Tálknafirði. Okkar maður missti því miður af þessu fyrsta móti þar sem hann var erlendis með sinni stórfjölskyldu. Leikar fóru þannig að Patreksfirðingar báru öruggan sigur úr býtum.

Um haustið lá leiðin aftur í Reykholt þar sem Þórarinn hóf nám á uppeldis- og íþróttabraut og áfram var haldið í íþróttunum af fullum krafti. Vonaðist Þórarinn til að vinna sér sæti í einhverjum skólaliðanna og sú varð raunin en, honum til mikilla vonbrigða og nokkurar furðu, ekki í þeim greinum sem hann helst vildi þ.e. körfubolta og knattspyrnu. En hann var valinn í handbolta- og blakúrvalið og síðan í innanhúsliðið í knattspyrnu en ekki utanhúss og þótti mörgum það undarleg ráðstöfun þar sem mun færri áttu sæti í því liði. En hvað um það. Að venju voru bekkjarmót í hinum ýmsu greinum og höfnuðu Þórarinn og bekkjarfélagar hans í 3. sæti í keppni í körfu, 2. sæti í blaki og frjálsum og unnu sundkeppnina nokkuð óvænt með töluverðum yfirburðum. Farið var í keppnisferð í Samvinnuskólann á Bifröst og keppt í nokkrum greinum. Þórarinn keppti þar í blaki við sérstakar aðstæður því salurinn var svo lítill að völlurinn náði rúman meter upp á vegginn sitthvoru megin!

Handboltaúrvalið í Reykholti veturinn 1980-1981 Þórarinn að sjálfsögðu nr. 7

Bestu árangrar Þórarins í frjálsum þetta árið voru 1,55 í hástökki innandyra en 1,50 m úti og 39,50 metrar í spjótkasti með karlaspjótinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 158
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96321
Samtals gestir: 24414
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:55:54