Íþróttaannálar 1996-´00
Árið 1996 og enn er haldið áfram að sprikla en heldur minna en áður þar sem sjoppureksturinn var tímafrekur. En hann var grunnurinn að því að hægt var að kaupa fjölskyldunni þak yfir höfuðið, kennaralaunin á þessum tíma dugðu ekki til þess.
Körfuboltinn hélt áfram með Umf Glóa í 2. deildinni. Þar er Þórarinn sem fyrr þjálfari og leikmaður. Tvö af þremur fjölliðamótum vetrarins voru leikin eftir áramótin. Bæði fóru þau fram í Varmahlíð. Unnust 6 af 8 leikjum liðsins á þessum mótum en það dugði því miður ekki til að vinna riðilinn. Þórarinn skoraði 125 stig í þessum 8 leikjum og var stigahæstur sem fyrr.
Í febrúar þetta ár tóku kennarar við Grunnskóla Siglufjarðar að koma saman 1 sinni í viku til að spila blak. Voru þetta ljómandi skemmtilegar stundir í litla íþróttasalnum við Norðurgötu. Þarna sáust ýmis skrautleg og skemmtileg tilþrif því þarna voru jafnt byrjendur sem reynsluboltar.
Undir vorið var tekin mánaðartörn eða svo í fótboltanum með KS en ekki varð úr meiri spilamennsku þar vegna tímaskorts.
Umf Glói stóð fyrir móti í götukörfubolta á skólabalanum og myndaði Þórarinn lið með tveimur ungum drengjum. Þeir höfnuðu í 3. sæti mótsins af 8 liðum.
Eitthvað var kíkt á golfvöllinn en aðeins tekið þátt í einu móti, Einnarkylfumótinu, og þar varð 3. sætið hlutskipti okkar manns.
Að hausti hófst körfuboltinn aftur. Umf Glói skráði sig enn til leiks í 2. deildina og nú einnig í Bikarkeppni KKÍ. Í bikarnum unnust tveir sætir sigrar á nágrönnum okkar. Fyrst öruggur sigur gegn Leiftri og svo hörkuleikur gegn Dalvík sem vannst eftir framlengingu. Sigur í þessum leikjum þýddi að við vorum komnir í 16-liða úrslit og fengum í heimsókn á Siglufjörð 1. deildar lið Selfoss. Það hafði innanborðs hörkumannskap m.a. erlendan leikmann sem jafnframt var þjálfari liðsins. Úr varð skemmtilegur leikur fyrir fullu húsi áhorfenda og var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Í þeim síðari seig Selfoss framúr og sigraði að lokum með um 30 stiga mun. En þetta var skemmtilegt ævintýri.
Í 2. deildinni voru nú nokkur ný lið mætt til leiks. Í Norðurlandsriðlinum voru nú 5 lið, var leikið heima og heiman, þreföld umferð svo leikirnir urðu 12 talsins. Umf Glói fór vel af stað og sigraði í 5 af 6 leikjum haustsins.
Handbolti var einnig á dagskrá þetta haustið. Ýmsir kappar komu saman í íþróttahúsinu 1 – 2 sinnum í viku og spiluðu þessa skemmtilegu íþrótt. En nú var öllu meiri alvara á ferðinni en veturna á undan því nú hafði hópurinn skráð sig til leiks í Bikarkeppni HSÍ undir merkjum KS. Liðið datt svo í lukkupottinn þegar dregið var – heimaleikur á móti úrvalsdeildarliði Stjörunnar með landsliðsmanninn Valdimar Grímsson innanborð. Leikurinn fór fram í desember fyrir fullu húsi og var mikil stemning innan vallar sem utan. Stjarnan sigraði örugglega 17 – 28 en allir skemmtu sér vel. Þetta var skemmtilegt!
Árið er 1997 og Þórarinn orðinn rúmlega þrítugur en hefur ennþá afskaplega gaman af ýmiskonar sprikli og það átti nú svo sem ekkert eftir að breytast.
Haldið var áfram með keppnina í 2. deildinni í körfuboltanum. Lið Umf Glóa sem Þórarinn þjálfaði og lék með var efst eftir leiki haustsins í Norðurlandsriðlinum en átti eftir 6 leiki. Fjórir þeirra unnust og það dugði til að tryggja liðinu sæti í úrslitakeppni 2. deildar sem fram fór í Hveragerði að vori. Þar gekk ekki eins vel og aðeins vannst 1 leikur af 4. Þau úrslit þýddu 7. sæti í deildinni sem var þó besti árangur liðsins til þessa. Þórarinn varð þriðji stigahæsti leikmaður liðsins að þessu sinni, með 217 stig í 15 leikjum.
Þórarinn tók smá skorpu í fótboltanum með KS að vori. Æfði í maí og fram í júní. Tók þátt í Feykismótinu með liðinu þar sem KS landaði titlinum og kom inná sem varamaður í fyrsta leik liðsins í 3. deild (sem áður kallaðist 4.). En vegna sjoppureksturs og annarra anna, var nú t.d. orðinn faðir í þriðja sinn, lagði hann nú skóna á hilluna, a.m.k. í bili.
Körfuknattleikslið Umf Glóa skráði sig til leiks á Landsmót UMFÍ, sem fram fór í Borgarnesi þetta sumarið. Tók liðið nokkrar æfingar áður en mætt var til leiks. Á Landsmótinu voru mörg af öflugustu liðum landins mætt og lék Umf Glói m.a. gegn úrvalsdeildarliði Skallagríms (UMSB). Sigur vannst gegn USVH í fyrsta leik en síðan fylgdu tveir tapleikir. Niðurstaðan varð 9. sæti af 15 liðum.
Þórarinn skráði sig einnig til leiks í hástökki, spjóti og kringlu fyrst hann var nú mættur á svæðið og keppti fyrir Umf Glóa. Aðstæður voru erfiðar, blautt og kalt, og árangurinn eftir því. Hafnaði hann í 7. sæti í hástökki og spjóti en einhverju neðar í kringlunni.
Sett var upp stórt götukörfuboltamót á Siglufirði og sá Umf Glói um það fyrir hönd KKÍ. Þórarinn keppti að sjálfsögðu þar og eitthvað var þessi íþrótt leikin í framhaldinu.
Aldrei hefur okkar maður verið mikið fyrir það að hamast inni í líkamsræktarstöðvum, finnst mun skemmtilegra að elta bolta eða hreyfa sig úti við. Þetta haust tók hann þó mánaðarskorpu í ræktinni á Sigló, lyfti og skokkaði.
Að hausti mynduðu kennarar við Grunnskóla Siglufjarðar knattspyrnulið og tóku þátt í fjölmennri firmakeppni á Siglufirði með góðum árangri. 2. sætið varð niðurstaðan. Kennarar skólans tóku einnig upp þráðinn að hittast einu sinni í viku og spila blak í litla salnum við Norðurgötu þeim til ánægju og yndisauka.
Áfram var haldið í 2. deildinni í körfunni en heldur hafði kvarnast úr hónum hjá Umf Glóa. Leiknir voru 5 leikir fram að áramótum og töpuðust þeir allir. Þórarinn var áfram þjálfari liðsins og var æft 2 sinnum í viku.
Handboltakappar á Siglufirði skráðu sig aftur til leiks í Bikarkeppni HSÍ og hittust 1 sinni í viku íþróttahúsinu til að undirbúa sig undir leikinn. Að þessu sinni varð 1. deildar lið Gróttu andstæðingurinn og sýndu þeir liði KS enga miskun í Klakahöllinni á Siglufirði. Varð niðurstaðan nokkuð stór skellur en allir höfðu þó gaman af.
Enn eitt fjölbreytt og skemmtilegt ár á íþróttasviðinu hjá Þórarni; körfubolti í forgangi en einnig nokkuð af knattspyrnu, blaki, frjálsum og handbolta.
Árið 1998 runnið upp og nú fer heldur að róast á íþróttasviðinu hjá Þórarni enda búinn að koma sér í bæjarpólitíkina, ýmis önnur félagsstörf og þjálfun meðfram fullri vinnu í Grunnskóla Siglufjarðar, reksturs á Videovali og afgreiðslu þar og svo að sjálfsögðu að sinna sínu sem fjölskyldufaðir.
Árið byrjar þó af krafti í 2. deildinni í körfunni og lið Umf Glóa heldur áfram þátttöku sinni í Norðurlandsriðli deildarinnar. Töluvert vantar þó upp á fyrri styrk og liðið vinnur aðeins 2 af 10 leikjum liðsins fram á vorið og endar í neðsta sæti riðilsins. Þórarinn var þjálfari liðsins sem fyrr og næst stigahæsti leikmaðurinn að þessu sinni.
Einnig er haldið áfram að blaka með kennurum á Siglufirði 1 sinni í viku og hópurinn keppir sem gestalið á Öldungamótinu, sem þetta árið fór fram á Siglufirði. Var þetta blandað lið í neðstu deild karlanna og vannst m.a. einn leikur.
Eitthvað var sparkað í bolta um sumarið, m.a. tekið þátt í hraðmóti með ÍFB vestur á Bíldudal, þar sem silfrið varð niðurstaðan og keppt með kennaraliði í firmakeppni á Siglufirði. Þar varð 5. sæti hlutskipti hópsins að þessu sinni.
Keppt var á götukörfuboltamóti sem Umf Glói stóð fyrir á Siglufirði og sú íþrótt nokkuð spiluð yfir sumarið.
Að hausti fór körfuboltinn aftur af stað og keppni í 2. deild. Þórarinn gat ekki verið með að fullum krafti og missti af einhverjum leikjum þennan veturinn og nokkuð af mannskapnum fluttur suður svo árangur var frekar dapur þetta timabilið og sigrar fáir.
Einnig sprikluðu kennararnir áfram í blakinu 1 sinni í viku eða svo fram til áramóta.
Þórarinn tók smá skorpu í ræktinni um haustið, en entist ekki lengi við það frekar en venjulega, fannst, og finnst enn, meira spennandi að eltast við bolta eða keppa!
Síðasta ár aldarinnar runnið upp, 1999, og enn er eitthvað spriklað, þó töluvert minna en oft áður en önnur verkefni taka upp tímann.
Körfuboltinn var áfram íþrótt númer 1 fram á vor hjá Þórarni og hann lék með Umf Glóa í 2. deild Íslandsmótsins líkt og síðustu vetur. Æft var 1 – 2 sinnum í viku og keppt í Norðurlandsriðlinum en fáir voru eftir í hópnum svo neðsta sæti riðilsins varð hlutskipti félagsins annað árið í röð.
Kennarar skólans komu saman öðru hvoru og léku sér í blaki, þó ekki eins markvisst og árin á undan.
Þegar voraði tók Þórarinn aftur fram takkaskóna og lék sér með Old boys í fótbolta 1 – 2 sinnum í viku út sumarið suður á Hóli.
Að hausti hóf Þórarinn svo að mæta aftur á æfingar hjá blakklúbbnum Hyrnunni, eftir 5 ára hlé eða svo. „Æfingarnar“ fóru þannig fram að hitað var upp, skipt í lið og spilað og hittist mannskapurinn 2 sinnum í viku.
Körfuknattleiksæfingar hjá meistaraflokki Umf Glóa lögðust af að hausti þar sem flestir leikmenn liðsins voru fluttir suður á mölina, ýmist til að sinna vinnu eða námi.
Árið 2000! Ný öld runnin upp með nýjum tækifærum, bjartsýni og blóm í haga en þó heldur rólegt á íþróttasviðinu hjá Þórarni, svona miðað við fyrri ár a.m.k. kennsla, þjálfun, sjoppurekstur og félagsmál af ýmsu tagi auk fjölskyldulífs fékk meira pláss í stundatöflunni en oft áður.
Þórarinn lét að sér kveða á blakvellinum og varð fljótt einn af máttarstólpum blakklúbbs Hyrnunnar. „Æft“, eða réttara sagt hitað upp og spilað, tvisvar sinnum í viku og var oft mikið líf og fjör innan vallar sem utan. Félagsskapurinn góður þó stundum hlypi mönnum kapp í kinn. Þórarinn fór með á Öldungamótið sem að þessu sinni fór fram í Laugardalshöllinni. Hyrnan sendi 3 karlalið til leiks og endaði lið Þórarins í 5. sæti 2. deildar en þetta ár voru 4 karladeildir. Hann lék einnig 2 leiki með liðinu í 3. deild sem keppti sem gestalið á mótinu, en varð reyndar stigahæst í riðlakeppni deildarinnar.
Kíkt var í fótbolta með Old boys öðru hvoru yfir sumarið, þegar tími gafst frá sjoppurekstrinum, og eitthvað var skokkað og gengið á fjöll til að halda sér í þokkalegu formi. Steinum safnað í leiðinni!
Um haustið var eitthvað haldið áfram að sparka í bolta og svo að blaka með félögunum í Hyrnunni tvisvar sinnum í viku. Þar var sama fjörið og fyrr.