Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Íþróttaannálar 2001-´05

emoticon    Árið 2001 er heldur rólegt á íþróttasviðinu hjá Þórarni, svona miðað við fyrri ár, kennsla, þjálfun, sjoppurekstur og félagsmál af ýmsu tagi auk fjölskyldulífs í forgangi enda kom fjórði erfinginn í heiminn í september þetta ár.

Blakað var með góðum félögum í Hyrnunni. „Æft“, eða réttara sagt hitað upp og spilað, tvisvar sinnum í viku og mikið líf og fjör innan vallar sem utan. Þetta ár fagnaði blakklúbburinn Hyrnan 30 ára afmæli sínu og af því tilefni var nokkrum liðum boðið í heimsókn, keppt og fagnað. Var þetta afmælismót vísirinn að hinum víðfrægu Siglómótum í blaki, sem um árabil hafa verið best sóttu helgarmótin í blaki fyrir utan Öldungamótið sjálft. Hefur mótið jafnvel verið nefnt „Litli öldungur“. Þórarinn fór svo annað árið í röð með á Öldungamótið, sem nú var haldið á Akureyri. Hyrnan sendi 3 karlalið til leiks og endaði lið Þórarins í 4. sæti 2. deildar, en karladeildirnar voru fjórar.

Engar æfngar voru lengur hjá meistaraflokki í körfubolta en Þórarinn þjálfaði unga drengi i þessari skemmtilegu grein og tók virkan þátt í æfingum.

Kíkt var í fótbolta með Old boys öðru hvoru yfir sumarið, þegar tími gafst frá sjoppurekstrinum, og eitthvað var skokkað og gengið á fjöll til að halda sér í þokkalegu formi. Fleiri steinum safnað í leiðinni!

Um haustið var eitthvað haldið áfram að sparka í bolta, spila körfubolta með unglingunum og svo að blaka með félögunum í Hyrnunni tvisvar sinnum í viku. Þar var sama fjörið og fyrr.

 

emoticon    Árið 2002 hélt Þórarinn áfram að blaka með fjörugum körlum í Hyrnunni. Tvisvar í viku að jafnaði, alltaf á mánudögum og miðvikudögum kl. 18.00, einhverjar æfingar duttu þó út vegna vinnu í „stórmagasíninu“ Videovali. Þórarinn fór ekki með á öldungmótið að þessu sinni frekar en önnur mót sem félagið tók þátt í.

Hann tók góða æfingaskorpu fyrstu mánuði ársins þar sem hann gerði nokkrar vel valdar styrktaræfingar kvölds og morgna. Gerði hann þetta reglulega næstu árin þegar ekki var tími til að stunda nægar æfingar í einhverjum íþróttagreinum.

Ekki voru æfingar í körfubolta hjá meistaraflokki Umf Glóa þennan veturinn, frekar en árin á undan, en Þórarinn þjálfaði áfram unga drengi í íþróttinni og lék sér með þeim. Þegar sumraði var stundum farið í götukörfubolta á skólabalanum og Þórarinn tók þátt í tveimur götukörfuboltamótum sem Umf Glói stóð fyrir á Siglufirði.

Þórarinn stundaði líka eitthvað knattspyrnu með Old boys þetta sumar, svona þegar hann fékk sig lausan úr sjoppunni, en það var ekkert markvisst.

Í október var byrjað að blaka aftur með félögunum í Hyrnunni og þeim æfingum sinnt eftir föngum.

 

emoticon    Árið 2003 var tiltölulega rólegt. Blakað var tvisvar sinnum í viku fram á vor með félögunum í Hyrnunni og tekið þátt í Góumóti blakfélagsins Rima, sem fór fram í Ólafsfirði. Hyrnan varð þar í 3. sæti.

Góð æfingaskorpa var tekin heimavið, sem fyrr styrkaræfingar kvölds og morgna í nokkrar vikur í byrjun árs og aftur síðar á árinu.

Um sumarið var spilaður fótbolti 1 – 2 sinnum í viku með Old boys og mætt á Pollamót á Akureyri í fyrsta sinn. Skemmtilegt mót og gaman að hitta þar gamla félaga sem og að reyna sig á móti ýmsum hetjum úr knattspyrnusögunni. Einnig tók Þórarinn þátt í skemmtilegu fótboltamóti fyrir vestan, á bæjarhátíðinni Bíldudals grænar ... ásamt gömlum félögum úr boltanum.

Einnig var gengið reglulega á fjöll og skokkað á jafnsléttu þetta sumarið.

Kjarninn úr meistaraflokksliði Umf Glóa í körfuboltanum var fluttur suður á mölina og fengu þeir leyfi til að skrá lið í 2. deild Íslandsmótsins undir merkjum félagsins, tók það þátt í Suðurriðli deildarinnar. Þórarinn lék 1 leik með liðinu um haustið er hann var staddur fyrir sunnan.

Í byrjun október hófst blakið aftur og var sem fyrr blakað tvisvar sinnum í viku í íþróttahúsinu.

 

emoticon    Árið 2004, árið sem Þórarinn verður fertugur og í tilefni af því gefið í á íþróttasviðinu. En hann komst þó að því að hugurinn er stundum yngri en skrokkurinn! Sala á rekstri Videovals í ársbyrjun gaf einnig meira frelsi til að stunda íþróttirnar en svo kom nú 5. kraftaverkið í heiminn í byrjun apríl svo fjölskyldustundum fjölgaði óhjákvæmilega í kjölfarið á þeim stórkostlega viðburði.

Áfram var stundað blak með karlpeningnum í blakklúbbnum Hyrnunni á Siglufirði. Sem fyrr ekki formlegar æfingar heldur hitað upp og svo spilað, tvisvar sinnum í viku, og alltaf eins og menn væru að spila upp á heimsmeistaratitilinn! Keppt á Siglómóti í febrúar og Krækjumóti á Sauðárkróki nær vori þar sem 3. sæti varð raunin.

Lið Umf Glóa í körfuboltanum hélt áfram keppni í Suðurriðli 2. deildar fyrir sunnan og gekk þokkalega. Þórarinn lék 1 leik með liðinu í suðurferð og setti niður nokkur stig af gömlum vana.

Í tilefni af 10 ára afmæli Umf Glóa var haldin mikil afmælishátíð og meira að segja gefið út blað þar sem saga félagsins þennan fyrsta áratug var rakin í máli og myndum, sá Þórarinn um að rita það. Einn af liðunum í afmælishátíðinni var körfuboltamót. Þar tóku þátt þrjú lið; Umf Glói og tveir fyrrum andstæðingar úr 2. deildinni: Skotfélag Akureyrar og Umf Smári í Varmahlíð. Leikar fóru þannig að heimamenn báru sigur úr býtum, nokkuð óvænt. Þórarinn lék að sjálfsögðu með liðinu, á sínu fertugasta aldursári.

Eftir gott gengi á afmælismótinu skráði liðið sig til leiks á Landsmót UMFÍ, sem fór fram á Sauðárkróki þetta sumar. Þar mætti lið Umf Glóa eingöngu liðum úr Úrvalsdeildinni og reið ekki feitum hesti frá þeim viðureignum. Liðið sýndi þó skemmtileg tilþrif og náði að velgja andstæðingunum undir uggum í fyrri hálfleik en síðan dró nokkuð í sundur.

Knattspyrnan var svo stunduð af töluvert meiri krafti þetta ár en mörg undanfarin. Ákveðið var að búa til nýtt lið á Siglufirði sem yrði skipað knattspyrnumönnum með mikla reynslu og svo ungum strákum sem ekki fengu sæti í meistaraflokki KS en vildu reyna sig á knattspyrnuvellinum. Ákveðið var að leika undir merkjum GKS, Golfklúbbs Siglufjarðar, og tók liðið þátt í keppni 4. deildar þetta árið.

Þórarinn æfði og keppti með liðinu fram eftir sumri og hafði gaman af. Lítið var þó um markaskorun hjá kappanum en hann lék yfirleitt á miðjunni og sá meira um að leggja upp mörk en senda tuðruna sjálfur í netið. Um miðjan júlí fór Landsmót UMFÍ fram á Sauðárkróki og eftir að Þórarinn hafði spilað tvo körfuboltaleiki þar sama daginn brunaði hann á Siglufjörð til að spila fótboltaleik um kvöldið, jú, jú, alltaf tvítugur í anda. Allt gekk vel þar til í seinni hálfleik að annar kálfi kappans sagði hingað og ekki lengra, vöðvi slitnaði og frí frá íþróttaiðkun var óhjákvæmilegt næstu 2 – 3 mánuðina. Í staðinn gafst meiri tími til að sinna fjölskyldunni. Kannski voru þetta bara skilaboð frá æðri stöðum; „Vertu heima hjá þér drengur og sinntu konu og börnum!“

Lítið um hreyfingu næstu vikurnar en þó reynt að halda sér við með því að gera æfingar fyrir efri hluta búksins kvölds og morgna og ganga þegar kálfinn leyfði. Fór svo rólega af stað í blakinu í október en bætti í eftir því sem leið á árið og kálfinn hélt.

 

emoticon    Árið 2005 er blakið enn stundað tvisvar sinnum í viku með félögunum í Hyrnunni, einhver mót í boði en Þórarinn er heimakær, með fullt hús af börnum og tekur aðeins þátt í Siglómótinu. Blakað fram í apríl og öldungamótinu sleppt.

Síðasti veturinn sem körfuboltaæfingar eru í gangi á Siglufirði, a.m.k. í bili, og Þórarinn spriklar með strákunum sem hann er að þjálfa fram á vor.

Að vori tekur Þórarinn aftur fram fótboltaskóna og mætir 2 sinnum í viku, eða svo, í boltann með Old boys og endist út sumarið. Hann tekur annað árið í röð þátt í Pollamótinu á Akureyri með félögum sínum í KS, liðið hafnar í 3. sæti í Lávarðadeildinni eftir skemmtilegt mót. Einnig tók hann þátt í fjörugu knattspyrnumóti á Bíldudals grænum ...

Eitthvað er farið í góðar gönguferðir þetta sumarið og gengið á fjöll í kringum Siglufjörð þar sem ýmsa fallega steina er að finna og enduðu sumir þeirra í garðinum hjá Þórarni eða uppi í hillum.

Að hausti hófst blakið aftur, þó ekki fyrr en í byrjun október, og var blakað út árið tvisvar sinnum í viku að venju en Þórarinn tók ekki þátt í neinum mótum þetta haustið.

 

 

 

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48