Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Tónlistarannálar 2006 -

Jæja, enn eitt árið liðið í aldanna skaut, árið 2006, og tími til að líta yfir farinn veg og gera upp árið á tónlistarsviðinu. Árið var að mörgu leyti gjöfult og gott, ný sambönd mynduðust og óvæntar uppákomur nokkrar. Lítið var um hefðbundið spilerí en róið á ný mið með góðum árangri og skemmtan. 13 ný lög urðu til á árinu en aðeins 8 textar.
Þórarinn kom fram alls 65 sinnum og líklega hafa um 4.500 manns heyrt það sem hann hafði fram að færa. Einnig var tónlist hans eitthvað leikinn í útvarpi svo einhverjar tugþúsundir hafa heyrt til hans í gegnum þann miðil. Við 32 tilefni voru flutt 30 frumsamin lög alls 116 sinnum. Töluvert minna en metárið á undan en gott.

# Rímnakórinn (sextektinn), sem var formlega stofnaður úti í Póllandi á síðasta ári, fékk nafnið Fjallahnjúkar, í tilefni nafnakosningar á hið nýja sveitarfélag Fjallabyggð, og kom hann fram alls 8 sinnum m.a. í útvarpsþætti sem tekinn var upp í Bátahúsinu og fluttur á Rás 1, einnig á 17. júní, í Þjóðlagasetrinu, á ljóðakvöldi o.fl.
# Lék undir, stjórnaði, eða var forsöngvari í fjöldasöng við nokkur tækifæri, m.a. á blakmóti á Sigló, þar sem byrjað var að syngja í Bátahúsinu og sungið alveg niður á Bíó með okkur gítarleikarana í broddi fylkingar, á Góugleði kennara, á 20 ára útskriftarafmæli íþróttakennara, á námsstefnu skólastjórnenda á Selfossi o.fl.
# Flutti frumsamin lög við nokkur tækifæri m.a. við afhendingu styrkja úr Menningarsjóði Sparisjóðsins, á ljóðakvöldum, jólakaffi kennara o.fl.

 Frumsamið lag flutt á Ljóðakvöldi

# Tók þátt í sýningunni Frá Óperu til Idol í þriðja sinn.
# Hóf samstarf við Daníel Pétur söngvara og gítarleikara. Fluttum við aðallega lög frá sjöunda áratug síðustu aldar t.d. lög Simon og Garfunkel, Eagles, Bítlana o.fl.
# Var boðið að koma fram á Vestfjarðakynningu í Perlunni í Reykjavík þar sem ég flutti nokkur frumsamin lög.
# Kom þrisvar sinnum fram á skemmtilegri Hálfbauna-hátíð á Bíldudal. Hélt þar m.a. tónleika með frumsömdu efni og las við það tilefni úr væntanlegri ljóðabók.
# Kom fram með Danna á 17. júní, á árgangsmóti, á Þjóðlagahátíð, á Síldarævintýri (eins og sjá mátti í sjónvarpi næstu daga á eftir), á Bryggjuskralli í Ólafsfirði o.fl.


 Tótmon og Danfunkel á Síldarævintýrinu.

# Á haustdögum kom áskorun frá samstarfsmanni í skólanum um að semja lög við texta í bókum sem fjalla um dyggðirnar og við höfum notað nokkuð í skólastarfinu. Ekki gat Þórarinn setið hjá og samdi ein sex lög, til að byrja með, og börnin í skólanum hafa lært þrjú þeirra og syngja við ýmis tækifæri. Er hann ákveðinn í því að reyna að koma þessu efni frekar á framfæri á einhvern hátt.
# Datt inn í sýningu Leikfélagsins Láttu ekki deigan síga Guðmundur fimm dögum fyrir frumsýningu. Þau vantaði undirspil í nokkrum lögum, ÞH samþykkti að vera með en raunin varð svo sú að búin var til ný persóna í verkið og hann var inn á sviðinu hálft leikritið, spilaði og söng ein 6 lög og var með nokkrar línur frá eigin brjósti. Alls voru 7 sýningar á verkinu á Sigló og var sýningin vel sótt og mjög góð.
# Söng þrjú lög í söngskemmtun á Allanum þar sem flutt voru lög Bjögga Halldórs.
# Einnig lék ÞH og söng í kirkjunni, á Sambýlinu, óvenju oft í skólanum, í sunnudagaskólanum o.fl.

 

Sem sagt fjölbreytt og fínt ár þó lítill aur hafi komið í veskið, enda er það nú ekki aðalatriði í þessu. Áfram skal haldið og á næsta ári er stefnt að því að reyna að koma frumsömdum lögum á framfæri við aðra flytjendur. Sjáum til hvort eitthvað gengur.



Árið 2007 liðið! Ósköp gegnur þetta eitthvað hratt fyrir sig þessi árin. Hvað um það tími til að líta um öxl og gera upp árið á sviði tónlistarinnar og kennir þar ýmissa grasa eins og svo oft áður. Nýr geisladiskur og bæjarhátíðir áberandi í bland við ýmis smærri viðfangsefni, tónleika norðanlands og vestan, lag á hljóðbók o.fl. skemmtilegt. Nokkrir merkilegir áfangar náðust á árinu sem tíundaðir verða í lok þessa annáls. Samdi 17 lög á árinu og setti saman 7 texta.

Kom fram 53 sinnum á árinu og um 5.500 manns sáu og heyrðu það sem frá tónlistarmanninum Þórarni fór. Lög af nýju plötunni einnig töluvert leikin í útvarpi ásamt nokkrum viðtölum við kappann vegna útgáfu hennar og einhverjar þúsundir heyrðu. Við 28 tilefni voru flutt 43 frumsamin lög, sem er mesti fjöldi frumsaminna laga fluttur á einu ári hjá Þórarni, alls 101 sinni.

# Samdi þó nokkur lög fyrstu tvo mánuði ársins við texta um hinar ýmsu dyggðir eftir Herdísi Egilsdóttur, sem komu svo út á geislaplötu um mitt ár.
# Var forsöngvari og undirleikari við nokkur tilefni m.a. á blakmóti á Sigló, skólastjórnendagleði á Hótel Örk, í afmæli o.fl.
# Fór nokkrum sinnum á milli stofa í skólanum og lék og söng fyrir og með börnunum. Mest var leikið af hinum nýju lögum um dyggðirnar. Seinni hluta ársins var ég svo umsjónarkennari tímabundið og þá var gítarinn óspart notaður.
# Lék í fyrsta sinn á bassa á Góugleði kennara auk þess að taka þátt í fleiri atriðum og leika fyrir dansi á þeirri glæsiskemmtun.
# Lék frumsamin lög við ýmis tækifæri t.d. við afhendingu verðlauna fyrir íþróttamann ársins, á Góugleði kennara, á ljóðakvöldum, á 17. júní, við hátíðarmessu í Bíldudalskirkju, í brúðkaupi Loga og Billu, á kennaraþingi, á ljóðahátíðinni Glóð, þegar kveikt var á jólatrénu á Siglufirði o.fl.

Lagið Réttarvatn flutt með Krisjáni og Mundý

# Tók þátt í dagskránni Frá Óperu til Idol á Allanum enn eitt árið og var hún flutt þrisvar sinnum við mjög góðar undirtektir.
#  Kom fram með Fjallahnjúkunum á 17. júní, Jónsmessuhátíð og ljóðahátíð þar sem við fluttum ýmis kvæðalög og fleira.

Fjallahnjúkar á 17. júní

# Hélt ferna vel heppnaða tónleika auk útgáfutónleika Dyggðanna á Siglufirði.
# Kom fram fjórum sinnum, fyrir utan tónleika, á Bíldudals grænum og þrisvar sinnum á Síldarævintýri á Sigló auk þess að vera kynnir þar.
# Tók þátt í Jólasöngskemmtun á Allanum sem féll í góðan jarðveg.
# Samdi lag á hljóðbækur sem Logi bróðir gaf út.
# Samdi lag fyrir fígúru sem Logi bróðir bjó til og heitir Sparikallinn. Hann kemur fram í útibúum Sparisjóðs Vestfjarða, syngur og spjallar við börnin.
# Flutt jólalög ásamt Danna í Sparisjóð Siglufjaðar rétt fyrir jól.

Ég og Daníel í jólagírnum í Sparisjóð Siglufjarðar

Fjölbreytt ár, eins og sjá má á þessari upptalningu. Nokkrir merkilegir áfangar náðust; Þórarinn kom t.d. fram opinberlega í 500asta skipti til að flytja tónlist og lögin sem hann hefur flutt opinberlega eru nú orðin fleiri en 700. Græni bíllinn hans Garðars, sú merka sveit, varð 20 ára á árinu og hugmyndin var að fara í hljóðver og taka upp nokkur lög en ekki varð af því. Stærstu tíðindin eru þó að sjálfsögðu útgáfa plötunnar Dyggðirnar sem Þórarinn tók upp hjá Magga í Mogomusic í Ólafsfirði og hann gefur út. Platan er seld í símasölu og í lok árs höfðu selst um 1.000 stykki til styrktar samtökunum Regnbogabörnum. Salan heldur áfram fram eftir þessu ári og vonandi næst að selja töluvert meira í þágu góðs málstaðar.

Á nýju ári verða merk tímamót en þá verða liðin 30 ár frá því Þórarinn hóf tónlistarferilinn.  Eitthvað verður að gera í tilefni að þeim tímamótum, en hvað? 

 

Árið 2008 flogið hjá á örskotsstundu og tími til að gera upp árið á tónlistarsviðinu, árið sem Þórarinn fagnaði 30 ára tónlistarafmæli sínu.  Eins og undanfarin ár var mikið um skemmtilega viðburði í tónlistinni hjá Þórarni s.s. hefðbundnar skemmtanir og hátíðir, óvenjulegt tónleikaferðalag, ljóðrænar lagasmíðar, nýir viðburðir sem lofa góðu, sungið og spilað á nýjum stöðum o.fl.  Samdi hann 11 lög á árinu en aðeins 3 texta.

 

Kom fram 49 sinnum á árinu og um 4.200 manns sáu og heyrðu til tónlistarmannsins Þórarins þetta árið, lítið um útvarpsspilun.  Við 27 tilefni voru flutt 45 frumsamin lög, sem er mesti fjöldi frumsaminna laga á einu ári sem hann hefur flutt, metið frá í fyrra var 43 lög, og flutti hann þau alls 130 sinnum.

 

#  Var beðinn um að leika frumsamin lög við ýmis tækifæri s.s. í afmæli, við afhendingu verðlauna íþróttamanns ársins, á málverkasýningu, á Jónsmessuhátíð, á markaði í Lónkoti, á styrktartónleikum o.fl.

#  Var forsöngvari og stjórnaði fjöldasöng við nokkur tilefni.

#  Aðstoðaði börnin í skólanum við undirleik o.fl. á nokkrum skemmtunum.

#  Tók þátt í söngdagskránni Frá Óperu til Idol enn eitt árið.

#  Kom fram ásamt fleirum á Sjómannadagsgleði á Allanum.

#  Tók þátt í frábærri söngdagskrá sem flutt var við tvö tilefni í Bátahúsi Síldarminjasafnsins þar sem útvarpsþátturinn Óskalög sjómanna var settur á svið.  Á Jónsmessuhátíð og á Síldarævintýrinu.  Í bæði skipti fyrir fullu húsi.

#  Lagði upp í sérstæða tónleikaferð þar sem leikið var á þremur tónleikum, í þremur byggðarlögum á einu kvöldi.  Daníel Pétur og Guito Thomas voru meðreiðarsveinar.  För þessi var farin til að halda upp á 30 ára tónlistarafmælið.


Fjallahnjúkar heimsóttu skemmtiferðaskip í Siglufjarðarhöfn og fluttu nokkur kvæðalög við frábærar undirtektir.

#  Kom fram 3 sinnum á ljóðahátíðinni Glóð.  Flutti m.a. ljóðleikinn Æskumyndir ásamt Loga bróður sínum.

#  Lék jólalög við nokkur tækifæri og frumflutti sitt árlega jólalag í kaffisamsæti starfsfólks Grunnskóla Siglufjarðar.

#  Árið endaði með sérlega skemmtilegum hætti þegar Þórarinn blés til Trúbadoraveislu á Allanum og síðan var haldinn dansleikur með skemmtikröftum kvöldsins sem mynduðu hljómsveitina Skyggni ágætt.  Úr varð frábær skemmtun.

 

Eins og sjá má á upptalningunni er fjölbreytninni fyrir að fara að vanda hjá okkar manni og þó vantar nokkuð inní.  T.d. afhentu Þórarinn og Magnús hjá Mogomusic Regnbogabörnum ágóðann af sölu Dyggðanna alls um 400.000 kr í júní, lag Þórarins sem hann samdi fyrir Loga bróður sinn á hljóbækur sem hann gefur út hefur nú verið notað á fjórar hljóbækur hans í alls um 1.000 eintökum og þeir bræður fengu styrk frá Menningarráði Vestfjarða til að setja saman ljóðaleikinn Þorpið eftir ljóðabók Jóns úr Vör, verður hann frumsýndur í sumarbyrjun.

 

Framundan er spennandi ár; klára að semja og frumsýna ljóðaleikinn Þorpið, Bíldudals grænar verða í ár, Græni bíllinn hugsar sér til hreyfings, Fjallahnjúkar eru komnir af stað á ný og margt fleira mætti nefna en hér verður látið staðar numið í bili.

 

Árið 2009, enn eitt fjörugt og fínt ár á tónlistarferlinum hjá Þórarni.  Verkefnin fjölbreytt að vanda, enda sjaldan sagt nei á þessum bænum.  Ljóðrænar sýningar, nýr sönghópur, hátíðarlag, útvarpsþáttur, bæjarhátíðir, frábær síldarkonsert og fleiri viðburðir koma við sögu þetta árið auk þess sem ný lög verða til þó engu þeirra sé þrykkt á disk að sinni.  Samdi hann þó ekki nema 7 ný lög og 4 texta.

 

Þórarinn kom fram alls 61 sinni á árinu til að flytja tónlist og hefur aðeins einu sinni komið fram oftar á einu ári en það var 2005.  Um 7200 manns urðu vitni að þessu, fyrir utan þá sem heyrðu til hans gegnum útvarpið, og er það mesti fjöldi sem Þórarinn hefur leikið fyrir á einu ári.  Við 29 tilefni voru flutt 40 frumsamin lög og flutti Þórarinn þau alls 132 sinnum.

 

#  Líkt og undanfarin ár var óskað eftir að Þórarinn flytti lög sín við ýmis tækifæri s.s. við afhendingu styrkja hjá Menningarsjóði Sparisjóðsins, við útnefningu íþróttamanns Siglufjarðar, í afmælum og öðrum veislum o.fl.

#  Aðstoðaði við undirleik í skólanum við nokkur tilefni og stjórnaði tónlistarflutningi

#  Var beðinn um að taka að sér veislustjórn, auk þess að stjórna og leika undir fjöldasöng við nokkur tilefni.

#  Tók þátt í söngsýningunni Frá Óperu til Idol sjötta árið í röð.

#  Fór í sýningarferð um Vestfirði með ljóðaleikinn Þorpið ásamt Loga bróður sínum en þeir settu dagskrána saman.  Sýndur alls 6 sinnum.

#  Kom fram í stórkostlegri söngdagskrá í Bátahúsinu á Jónsmessuhátíð Síldarminjasafnsins og síðar á Síldarævintýri ásamt heimamönnum og sérstökum gestum Ragga Bjarna, Þorvaldi Halldórssyni og Þorgeiri Ástvalds.


Síldartónleikar með Ragga Bjarna og fleiri stórsöngvurum

#  Aðstoðaði Hemma Gunn að undirbúa þátt á Bylgjunni sem sendur var beint frá Siglufirði, var þar einnig í viðtali, flutti frumsamið lag og fleira.

#  Kom fram 8 sinnum á Bíldudals grænum ... Markverðust var endurkoma Brests 30 árum síðar!!  Hélt einnig tónleika að vanda og flutti Þorpið með Loga bróður sínum.


Trommað og sungið með Bresti 30 árum síðar

#  Kom fram þrisvar sinnum með kvæðamannahópnum Fjallahnjúkum.

#  Á Síldarævintýri fengu Þórarinn og Daníel óvænta gesti með sér á svið í Allanum, það var hljómsveitin Buff sem tók nokkra slagara með þeim.  Mikið gaman!!

#  Þórarinn varð meðlimur í nýjum sönghóp sem kom fram nokkrum sinnum undir lok ársins við góðan orðstýr, þarna voru samankomnir siglfirskir söngvarar úr sýningunni Meira salt ásamt Sturlaugi Kristjáns. 

#  Þórarinn kom einnig nokkrum sinnum fram með Kennarabandinu í jólaskapi í desember.

 

Já, enn eitt fjörugt árið og mikið um að vera á tónlistarsviðinu.  Auk þessa var Þórarinn fenginn til að semja hátíðarlag fyrir Bíldudals grænar ... Fékk það nafnið

Á Bíldudal er best og féll í mjög góðan jarðveg vestra og Logi bróðir hans hélt áfram að gefa út þjóðlegar hljóðbækur þar sem lag eftir Þórarin hljómar á milli kafla.

 

En framundan er árið 2010 með nýjum ævintýrum og eflaust fjölbreyttum verkefnum á tónlistarsviðinu.  Nýi sönghópurinn ætlar að láta meira að sér kveða, Fjallahnjúkar halda áfram æfingum, tónleikarnir Meira salt verða áfram á sumardagskrá Síldarminjasafnsins svo hlaðast lögin upp hjá Þórarni sem þurfa að fara að komast á fast form - kannski á þessu ári, hver veit!!



Árið 2010 runnið sitt skeið og enn er líf og fjör í tónlistarlífinu hjá Þórarni, reyndar sjaldan meira en þetta ár.  Fjölbreytt verkefni en skemmtanir með sönghópnum Gómum þó mest áberandi enda vann hópurinn sér góðan sess í tónlistarlífinu á Siglufirði og víðar þetta ár og kom fram með nokkrum stórsöngvurum og skemmtikröftum.  Ýmsir aðrir viðburðir voru á dagskránni, flestir á Siglufirði en óvenju lítið flutt af eigin efni og aðeins sett saman 5 lög og 2 textar.

Þórarinn kom fram alls 56 sinnum þetta árið og söng fyrir um 6.400 manns ásamt samferðarfólki sínu í tónlistinni.  Hefur hann aðeins einu sinni sungið fyrir fleira fólk á einu ári, en það var 2009 og aðeins þrisvar sinnum komið oftar fram á einu ári.  Einnig var hann tíður gestur á FM Trölli, útvarpsstöð sem starfrækt var á netinu í kringum Síldarævintýrið, og hafa margir heyrt til hans á þeim vettvangi.  Sem fyrr segir flutti Þórarinn lítið af eigin efni þetta ár, kom hann fram 15 sinnum í þeim tilgagni og flutti 27 frumsamin lög alls 47 sinnum.

# Eins og fram kemur hér að ofan kom Þórarinn oft fram með félögum sínum í Gómum á árinu, alls 23 sinnum.  Sungið var með Ragga Bjarna og Þorgeiri Ástvalds nokkrum sinnum, einnig Bogomil Font og svo Ómari Ragnarssyni í tilefni af 70 ára afmæli hans, fyrst í Bátahúsinu á Sigló og síðan Í Salnum í Kópavogi nokkrum sinnum.  Var þetta áhugaverð lífsreynsla!

# Kom nokkrum sinnum fram í hópi vina hjá kennurum og blökurum. Lék undir og stjórnaði fjöldasöng við ýmis tilefni með þessu góða fólki.
#  Var beðinn um að koma fram og flytja eigið efni við nokkur tilefni   t.d. við útnefningu á íþróttamanni ársins á Siglufirði, við opnun Héðinsfjarðarganga, á styrktartónleikum o.fl.
#  Kom nokkrum sinnum fram á Síldarævintýri; einn, með Danna, með Gómunum og í útvarpi FM Trölla.

#  Hélt aðeins eina tónleika með eigið efni þetta árið.
#  Kom fjórum sinnum fram með Fjallahnjúkum þar sem sungið var fyrir gesti af ýmsu þjóðerni.
#  Tók þátt í upptöku á nokkru síldarlögum sem leikin voru á FM Trölla.
#  Lék tvisvar sinnum frumsamin lög í tilvonandi Ljóðasetri þegar listgöngur fóru um bæinn.

Já, mikið um að vera hjá Þórarni en söngur með Gómunum yfirgnæfandi þetta árið.  Ekki er ólíklegt að svo verði áfram næstu ár því þegar eru nokkrar skemmtanir ákveðnar hjá hópnum árið 2011 og mikil stemning í mannskapnum.  Lítið fór fyrir eigin efni og lagasmíðar í lágmarki.  Það kom nokkuð á óvart að í annað sinn var lag Þórarins Bíldudalur bærinn minn flutt við jarðarför fyrir vestan og hugar hann nú að því að taka lagið upp í nýrri og rólegri útsetningu, með nýjum texta að hluta svo það hæfi betur slíkum athöfnum.

En árið 2011 er nýhafið og allt að fara á fullt í tónlistinni eina ferðina enn.  Margir spennandi viðburðir framundan og aldrei að vita nema tónlistin verði enn meira áberandi í lífi Þórarins þetta árið en undanfarin ár, sjáum hvað setur.  Gómarnir eru komnir á fullt, Fjallahnjúkar að hefja aftur æfingar, Ljóðasetrið opnar í sumar og þar verður tónlistin snar þáttur í starfseminni, hugmyndir að upptöku nýs efnis eru að velkjast um í kollinum á kalli og svo mætti áfram telja.  Hvað eru aftur margir klukkutímar í sólarhringnum?

 

Árið 2011 var viðburðarríkt í tónlistinni hjá Þórarni, eins og undanfarin ár. Sönghópurinn Gómar var yfir og allt um kring og kom alls fram 20 sinnum á árinu en Þórarinn vantaði í tvö skipti þar sem hann var erlendis. Vakti hópurinn mikla athygli fyrir góðan söng og hressilega framkomu og hefur getið sér mjög gott orð á þessum rúmu tveimur árum sem hann hefur verið starfandi. Þetta hefur þó ekki gerst af sjálfu sér því mikið hefur verið lagt í æfingar.  En það var ýmislegt annað um að vera en að koma fram með Gómunum og verkefnin fjölbreytt og skemmtileg. Óvenju rólegt var þó yfir flutningi á eigin efni og lagasmíðum, og aðeins urðu til 4 lög og 4 textar.

Þórarinn kom fram alls 52 sinnum á árinu og söng og lék fyrir um 5400 manns ásamt félögum sínum í tónlistinni. Eru þessar tölur svona í meðallagi miðað við síðustu ár.  Lítið var þó flutt af eigin efni en Þórarinn kom þó fram 20 sinnum til að flytja eigin lög og flutti alls 21 lag 43 sinnum.

#  Eins og fyrr segir kom Þórarinn 18 sinnum fram með sönghópnum Gómum á árinu. Stóð hópurinn fyrir glæsilegu 80´ showi um páskana og sungið var á sjómannadaginn í Reykjavík, bæði á sviði á Grandagarði og síðan hjá HB Granda fyrir mörg hundruð manns. Að venju hélt hópurinn tónleikana Meira salt á Síldarævintýrinu og að þessu sinni voru Helena Eyjólfsdóttir og Björn Jörundur gestasöngvarar. Einnig kom hópurinn fram með Helenu á Strandmenningarhátíð á Húsavík. Sungið var nokkrum sinnum á Kaffi Rauðku fyrir hina ýmsu hópa, sungið þrisvar sinnum á jólahlaðborðum á Sauðárkróki, á styrktartónleikum og við fleiri tilefni.

Hópurinn og gestasöngvarar fyrir tónleikana Meira salt

#  Fjallahnjúkarnir komu fram 8 sinnum á árinu og sungu aðallega fyrir erlenda ferðamenn. Vöktu íslensku þjólögin óskipta athygli sem fyrr.

#  Nokkrum sinnum var sungið og spilað í hópi blakara.

# Var beðinn um að koma fram og flytja eigin lög við nokkur tækifæri t.d. við val á íþróttamanni ársins á Siglufirði og svo í Fjallabyggð, á söngvakeppni Menntaskólans á Tröllaskaga, á styrktartónleikum og við fleiri tilefni.

Sungið á frábærum styrktartónleikum í Siglufjarðarkirkju

#  Við nokkur tilefni lék Þórarinn eigin lög og annarra á hinu nýja Ljóðasetri Íslands sem hann setti á fót á Siglufirði sumarið 2011.

# Kom nokkrum sinnum fram á Síldarævintýrinu, bæði einn með gítarinn sem og með Gómunum.

# Var í góðu spjalli á Útvarpi FMTrölla á Síldarævintýrinu  og flutti þar m.a. eigin lag.

# Þá er ótalið söngur og spilerí á árshátíð KSNV, í grillveislu SPS fyrir bæjarbúa, spilamennsku og söng á Þorrablóti í skólanum o.fl.

# Kom tvisvar sinnum fram í pöbbaspileríi á Kaffi Rauðku í lok árs.

Svona var árið 2011 í grófum dráttum hjá tónlistarmanninum Þórarni. Þó á eftir að segja frá þeim gleðilega viðburði að texti eftir hann fór á geisladisk sem gefin var út til styrktar björgunarsveitunum í landinu. Diskurinn kom út í lok árs og m.a. voru 1000 eintök af honum gefin til Færeyja til björgunarsveitanna þar. Lagið heitir Þessi þrá og er eftir Bjarna Þór, frænda og félaga Þórarins, og sendi hann það inn í Eurovisionkeppnina árið 2010 en það komst ekki áfram þar. 

Reikna má með að árið 2012 verði í svipuðum dúr og árið sem er nýliðið. Gómarnir eru enn í fullu fjöri, eru þegar bókaðir á nokkrar skemmtanir á árinu og stefna á frekari landvinninga. Tónlistin mun hljóma á Ljóðasetrinu og Þórarinn mun áfram verða með gítarinn við höndina við ýmis tækifæri. Svo er náttúrulega löngu kominn tími á að fara aftur í hljóðver! 

 

 

Flettingar í dag: 33
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 121
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 83741
Samtals gestir: 22073
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:18:15