Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

22.04.2007 13:41

Fallegur dagur, upptaka og undirbúningur

Þá er búið að fylgja afa Gesti, eins og börnin kölluðu hann ætíð, til grafar.  Jarðarförin var á föstudaginn og það var allt fallegt við þennan dag; veðrið var yndislegt, athöfnin falleg og söngur þeirra Gísla og Sigfúsar Áltagerðisbræðra var hreint dásamlegur en með þeim sungu einnig félagar úr karlakórnum Heimi.  Var vel við hæfi að kveðja söngmanninn Gest með þessum fögru tónum.  Jarðað var í kirkjunni að Barði í Fljótum en Siglufjörður var kvaddur með því að líkfylgdin fór fram hjá heimili Gests til margra ára, Steinaflötum og síðan hesthúsunum.  Það var svo táknrænt að þegar í Fljótin var komið þá hlupu tvö hestastóð að líkfylgdinni eins og þau vildu kveðja hestamanninn Gest. 

Annars hefur verið í ýmsu að snúast utan vinnunnar.  Búið að taka upp stefið fyrir hljóbókina hans Loga, leiðbeina í íþróttaskóla og undirbúa nokkra af hinum fjölmörgu fundum sem eru á dagskránni á næstunni.  Kláraði að ganga frá ársskýrslunni hjá Umf. Glóa en aðalfundurinn er á þriðjudag, fann nýja dagsetningu fyrir fræðslufund Skólastjórafélagsins hér á svæðinu og gekk frá komu fyrirlesara, húsnæði og mat og því sem þarf svo allt smelli saman.  Er svo að ganga frá dagskrá fyrir fund Íþróttabandalagsins á morgun, ég gegni þar tímabundið formennsku sem varaformaður en ársþingið er á næsta leyti.  Svo er verið að gera klárt fyrir næstu helgi en þá verður haldið á Íslandsmót öldunga í blaki sem fer fram í Garðabænum að þessu sinni.

Helgin var að öðru leyti róleg, afmælisboð, matarboð, spila og lesa með börnunum mínum yndislegu og fleira skemmtilegt.


Flettingar í dag: 241
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 284
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 59595
Samtals gestir: 16433
Tölur uppfærðar: 17.7.2024 21:52:45