Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

26.04.2007 10:55

Fundafargan, gítarinn og heilsuleysi

Það hefur verið í nógu að snúast í félagsmálunum undanfarna daga.  Á mánudag var ég með fund hjá Íþróttabandalaginu þar sem lokaundirbúningur fyrir ársþingið var á dagskrá og um kvöldið var svo fundur hjá meirihlutaráðinu hjá okkur hér í Fjallabyggð þar sem farið var yfir fundargerðir sem voru til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi daginn eftir.  Á þriðjudaginn var svo aðalfundur hjá okkur í Umf. Glóa og héldum við hann að þessu sinni í Þjóðlagasetrinu okkar glæsilega hér á Siglufirði.  Litlar breytingar á stjórn aðeins skipti á unglingunum en undanfarin ár höfum við haft það fyrir reglu að fá einn til tvo tilvonandi 10. bekkinga inn í stjórnina til að heyra þeirra sjónarmið.  Að loknum aðalfundi var svo blásið til Ljóðakvölds þar sem ég las m.a. úr ljóðabókinni minni Æskumyndum og frumflutti frumsamið lag, Hásæti lífsins heitir það.

Hef verið duglegur að fara með gítarinn á milli stofa hér í skólanum að undanförnu og sungið með börnunum.  Kenndi þeim eitt af lögunum um dyggðirnar en þau hafa mjög gaman af að syngja þessi lög.

Upptökumál öll að skýrast, stefnir allt í upptökur hjá okkur bílverjunum á Græna bílnum helgina 19.-20. maí í Sundlauginni hjá Sigurrós og Maggi kominn af stað með útsetningavinnu við barnadiskinn.  Maður kíkir fljótlega yfir heiðina og leggur á ráðin með honum.

Annars hefur verið nokkuð heilsuleysi á heimilinu, magapest hrjáði húsfreyjuna og Patrek og hafa þau verið alveg ómöguleg á þriðja sólarhring en eru loksins eitthvað að hressast.  Bless í bili
Flettingar í dag: 271
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 284
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 59625
Samtals gestir: 16435
Tölur uppfærðar: 17.7.2024 22:13:47