Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2007 Apríl

26.04.2007 10:55

Fundafargan, gítarinn og heilsuleysi

Það hefur verið í nógu að snúast í félagsmálunum undanfarna daga.  Á mánudag var ég með fund hjá Íþróttabandalaginu þar sem lokaundirbúningur fyrir ársþingið var á dagskrá og um kvöldið var svo fundur hjá meirihlutaráðinu hjá okkur hér í Fjallabyggð þar sem farið var yfir fundargerðir sem voru til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi daginn eftir.  Á þriðjudaginn var svo aðalfundur hjá okkur í Umf. Glóa og héldum við hann að þessu sinni í Þjóðlagasetrinu okkar glæsilega hér á Siglufirði.  Litlar breytingar á stjórn aðeins skipti á unglingunum en undanfarin ár höfum við haft það fyrir reglu að fá einn til tvo tilvonandi 10. bekkinga inn í stjórnina til að heyra þeirra sjónarmið.  Að loknum aðalfundi var svo blásið til Ljóðakvölds þar sem ég las m.a. úr ljóðabókinni minni Æskumyndum og frumflutti frumsamið lag, Hásæti lífsins heitir það.

Hef verið duglegur að fara með gítarinn á milli stofa hér í skólanum að undanförnu og sungið með börnunum.  Kenndi þeim eitt af lögunum um dyggðirnar en þau hafa mjög gaman af að syngja þessi lög.

Upptökumál öll að skýrast, stefnir allt í upptökur hjá okkur bílverjunum á Græna bílnum helgina 19.-20. maí í Sundlauginni hjá Sigurrós og Maggi kominn af stað með útsetningavinnu við barnadiskinn.  Maður kíkir fljótlega yfir heiðina og leggur á ráðin með honum.

Annars hefur verið nokkuð heilsuleysi á heimilinu, magapest hrjáði húsfreyjuna og Patrek og hafa þau verið alveg ómöguleg á þriðja sólarhring en eru loksins eitthvað að hressast.  Bless í bili

22.04.2007 13:41

Fallegur dagur, upptaka og undirbúningur

Þá er búið að fylgja afa Gesti, eins og börnin kölluðu hann ætíð, til grafar.  Jarðarförin var á föstudaginn og það var allt fallegt við þennan dag; veðrið var yndislegt, athöfnin falleg og söngur þeirra Gísla og Sigfúsar Áltagerðisbræðra var hreint dásamlegur en með þeim sungu einnig félagar úr karlakórnum Heimi.  Var vel við hæfi að kveðja söngmanninn Gest með þessum fögru tónum.  Jarðað var í kirkjunni að Barði í Fljótum en Siglufjörður var kvaddur með því að líkfylgdin fór fram hjá heimili Gests til margra ára, Steinaflötum og síðan hesthúsunum.  Það var svo táknrænt að þegar í Fljótin var komið þá hlupu tvö hestastóð að líkfylgdinni eins og þau vildu kveðja hestamanninn Gest. 

Annars hefur verið í ýmsu að snúast utan vinnunnar.  Búið að taka upp stefið fyrir hljóbókina hans Loga, leiðbeina í íþróttaskóla og undirbúa nokkra af hinum fjölmörgu fundum sem eru á dagskránni á næstunni.  Kláraði að ganga frá ársskýrslunni hjá Umf. Glóa en aðalfundurinn er á þriðjudag, fann nýja dagsetningu fyrir fræðslufund Skólastjórafélagsins hér á svæðinu og gekk frá komu fyrirlesara, húsnæði og mat og því sem þarf svo allt smelli saman.  Er svo að ganga frá dagskrá fyrir fund Íþróttabandalagsins á morgun, ég gegni þar tímabundið formennsku sem varaformaður en ársþingið er á næsta leyti.  Svo er verið að gera klárt fyrir næstu helgi en þá verður haldið á Íslandsmót öldunga í blaki sem fer fram í Garðabænum að þessu sinni.

Helgin var að öðru leyti róleg, afmælisboð, matarboð, spila og lesa með börnunum mínum yndislegu og fleira skemmtilegt.


19.04.2007 15:56

Gleðilegt sumar, upptökur, nýtt lag og meiri lestur

Gleðilegt sumar allir saman og við skulum vona að veðurguðirnir verði í sólskinsskapi þetta sumarið.  Enn einn frídagurinn í dag, þetta er ljúft.

Jæja, þá eru upptökumál vegna barnadisksins komin á hreint í grófum dráttum.  Búinn að fá leyfi til að nota textana og Maggi komin af stað í að útsetja.  Við ákváðum að hafa þetta allt einfalt í smíðum og sem mest órafmagnað og helst að fá nokkra krakka til að syngja eitthvað af þessum lögum inn með mér.  Maður skellir sér í austurbæinn (Ólafsfjörð) fljótlega og skoðar þetta með Magga annars notum við tæknina mikið við þetta og sendum hugmyndir á milli tölvuapparata.

Eins og kemur fram í nýjustu fréttinni hjá mér samdi ég lokalagið á þennan disk í gær.  Það kom hratt og örugglega, ég settist niður með gítarinn með textann fyrir framan mig og sló C-hljóminn og lagalínan kom svona í megindráttum í framhaldi.  Einfalt þriggja hljóma lag C-F-G var niðurstaðan 10 mínútum seinna eða svo, þau þurfa ekki alttaf að vera flókin til að virka.

Var við opnun kosningaskrifstofunnar hjá okkur Sjálfstæðismönnum hér á Siglufirði í gær og heyrði í frambjóðendum okkar.  Kraftur og hæfileg bjartsýni ríkjandi í hópnum og fólk tilbúið að leggjast á árarnar.

Hef verið duglegur, kannski aðeins of, við lesturinn að undanförnu.  Kláraði Líffærameistarann eftir Federicho Andahazi í gær og byrjaði síðan á Gamli maðurinn og hafið eftir Hemingway uppúr miðnætti og lét hana ekki frá mér fyrr en ég hafði lokið henni, um klukkan 2.30.  Ævisaga leikkonunnar Ingrid Bergman er nú komin á náttborðið.

Annars er mikið um að vera í gleði og sorg í dag.  Í kvöld verður kistulagning afa hennar Stínu minnar og jarðarförin er á morgun.  Þar kveðjum við góðan mann.  Vestur á Bíldudal ætlar bróðir minn Elfar Logi að frumsýna nýjan einleik sem hann hefur samið í samstarfi við Pétur Eggertz úr Möguleikhúsinu sem leikstýrir.  Ber einleikurinn nafnið Skrímsli og er hann m.a. tilkominn vegna aðkomu okkar bræðra að undirbúningi Skrímslaseturs á Bíldudal sem vonandi kemst á koppinn í sumar.  En fyrir þá sem ekki vita er Arnarfjörður þekktasti skrímslafjörður landsins því þaðan koma flestar sagnir af sjóskrímslum og ýmsum kvikindum.  Það verður gaman að sjá þetta stykki.  Tu, tu Logi. 
 

17.04.2007 21:46

Upptökur, eyrnalokkar, Njála og glíma !

Já, maður kemur víða við í bloggi dagsins eins og sjá má á titlinum. 
Fyrst er frá því að segja að skólastarfið er komið vel af stað eftir páskafríið og mikið líf og fjör hjá okkur í skólanum.  Í dag fengu nemendur m.a. kynningu á þjóðaríþróttinni íslenskri glímu og höfðu gaman af.  Kennari var Oddbjörn nokkur Magnússon sem er nýfluttur í bæinn og er vel að sér í glímufræðunum og vonandi fáum við að njóta krafta hans áfram á þessum vettvangi.  Gaman er frá því að segja að hann er afskaplega ánægur með móttökur Siglfirðinga þessar fyrstu vikurnar hér í bæ, íbúarnir elskulegir og boðnir og búnir til aðstoðar ef eitthvað er, heilsa á götum bæjarins og mannlífið gott.  Þetta er einmitt sú tilfinning sem ég fékk fyrir Siglufirði þegar ég kom hingað fyrir nærri 14 árum og gott að vita að andinn hefur ekki breyst.

Yngsta dóttirin, hún Amalía þriggja ára, er komin með eyrnalokka og fannst það nú ekki mikið mál.  Labbaði sér inn í Siglósport með mömmu sinni og kveinkaði sér ekki einu sinni þegar skotið var í gegn fyrst öðrum megin og svo hinu megin, þetta er hörkutól.  Það fór ekki fyrir henni eins og pabbanum þegar hann fékk gat í eyrað og lá við yfirliði, mikill kappi !!  Reyndar voru aðfarirnar nokkuð aðrar; stoppunál vætt upp úr rakspíra og eyrað kælt með ísmola ef ég man rétt.  Þetta var á unglingsárunum í Reykholti, sællrar minningar.  Ég skellti reyndar lokk í eyrað til að vera í stíl við dótturina en henni leist ekkert á það svo hann stoppaði ekki lengi.

Lestri á Njálu er lokið og féllu þar margir góðir drengir á skrautlegan hátt.   Byrjaði á nýrri bók í gærkvöldi Líffærameistarinn heitir hún eftir argentískan höfund og vakti hún nokkrar deilur í heimalandinu vegna bersögulla lýsinga.  Ágætis bók, ætli ég klári hana ekki í kvöld.

Að lokum er frá því að segja að upptökumálin í tónlistinni eru öll að skýrast.  Græni bíllinn búinn að fá tilboð frá upptökuveri Sigurrósar í Mosfellsbænum uppúr miðjum maí og allar líkur á að við skellum okkur á það.  Textamálin vegna barnaplötunnar eru líka að komast á hreint svo nú fer allt að verða vitlaust að gera á þessum vettvangi !!

Bless að sinni, nær og fjær.

15.04.2007 15:15

Íþróttaæfingar, myndir á heimasíðu, róleg helgi

Jæja, þá eru íþróttaæfingarnar hafnar aftur eftir páskafrí.  Var með tvær æfingar á föstudaginn í frjálsum og síðan íþróttaskóla á laugardagsmorgun.  Það er alveg frábært að vinna með þessum krökkum, sérstaklega þessum yngstu í íþróttaskólanum þar er allt svo spennandi og áhuginn skín úr hverju andliti.  Fullt af efnilegum íþróttakrökkum hér að Siglufirðri og iðkendur mínir í frjálsum eru að gera góða hluti.  Vekja alltaf eftirtekt fyrir góðan árangur þegar við förum á mót.
Hef verið að vinna töluvert við heimasíðuna þessa helgi sem er óvenju róleg verð ég að segja.  Fann út hvernig á að setja myndir inn í myndaalbúmin og hef bætt töluverðu við þar.  Skemmtilegar myndir af fjölskyldumeðlimum og síðan myndir úr tónlistarlífinu, þó sérstaklega af stórhljómsveitinni Græna bílnum hans Garðars.  M.a. skemmtilegar myndir frá félaga Matta síðan við vorum í Geimsteini að taka upp Endalaust.
Svo er verið að undirbúa eitthvað af þessum fjölmörgu fundum sem eru framundan og leggja á ráðin með næstu vikur sem verða nokkuð annasamar sýnist mér.

12.04.2007 17:51

Öðlingur kveður þennan heim

Undanfarnir dagar hafa verið nokkuð erfiðir hjá fjölskyldunni því í nótt kvaddi afi hennar Stínu minnar, heiðursmaðurinn Gestur Frímannsson, þennan heim eftir nokkura daga legu á sjúkrahúsinu hér á Siglufirði.  Þó sálin hafi verið nokkuð hress hjá þeim gamla og lundin létt sem fyrr þá var líkaminn lúinn og hvíldinni feginn.  Fæturnir, sem áður báru hann létt um fjöll og dali á eftir skjátunum eða á gönguskíðum yfir heiðar sem og í landskeppnum, báru hann varla lengur.  Röddin sem hljómaði svo fallega í áratugi um sali og torg með karlakórnum Vísi var ekki sú sama og hjarta og lungu á helmingsafköstum.  En eitt var það sem aldrei breyttist og það var hjartagæskan og hin létta lund sem ætíð einkenndi þennan höfðingja.  Manni leiddist aldrei í návist þessa sögumanns af Guðs náð, gamansögur úr sveitinni, vísur og smitandi hlátur sem engin stóðst.  Það hafa án efa verið fagnaðarfundir þegar hann hitti aftur hana Lillu sína, Bjössa bróður sinn og fleiri ættingja og vini sem tóku á móti hinum hinumegin.  Minningin um góðan mann lifir.

En lífið heldur áfram og hér er allt að falla í fastar skorður eftir páskafrí við foreldrarnir komin aftur til starfa í skólanum, en fyrir þá sem ekki vita starfa ég sem deildarstjóri og íþróttakennari við grunnskólann hér á Siglufirði og frúin sem skólaliði.  Börnin sömuleiðis mætt til sinna starfa, að mennta sig og þroskast á ýmsa lund, innan skólans sem utan. 

Nóg að gera í félagsmálunum að vanda verið að undirbúa eina tvo aðalfundi, einn fræðslufund, félagsfund, stjórnarfund, nefndarfund o.fl.  Svo er meiningin að setja allt af stað í tónlistarútgáfu fljótlega nánar af þeim málum seinna.  Bið að heilsa í bili.

08.04.2007 14:01

Eitt og annað skemmtilegt

Það hefur verið í ýmsu að snúast síðustu tvo sólarhringana.  Sígur á seinni hlutann á páskafríinu svo það er um að gera að njóta þess.  Gunnar var veginn í fyrrinótt, þ.e.a.s. að ég er kominn þar í Njálu að hinn mikli kappi Gunnar á Hlíðarenda var veginn en það var nú aldeilis ekki baráttulaust því þeir lágu einir 16 í valnum þegar Gunnar loks féll.  En, hvað um það. 
Á föstudaginn var haldin hér afmælisveisla þar sem hún Amalía átti þriggja ára afmæli, ótrúlegt hvað tíminn flýgur, þar var nokkrum hnallþórunum hesthúsað.  Ég fór í kirkjuna og las tvo Passíusálma en hélt síðan veisluhöldum áfram með gestum okkar þar til við fórum í pizzuveislu til Jónu og Danna eins og svo oft á föstudagskvöldum.
Laugardagurinn var rólegur framan af, Stína fór með eldri börnin á skíði og ég og Amalía skelltum okkur í göngutúr og sund á meðan.  Seinni partinn fór ég í Bátahúsið til að vera viðstaddur undirritun samnings á milli Síldarminjasafnsins og Fjallabyggðar en hann hljóðar upp á 6 milljón króna styrk á ári frá sveitarfélaginu til reksturs safnsins.  Á móti fær sveitarfélagið afnot af Bátahúsinu fyrir ýmsar móttökur og svo fá allir íbúar þess frítt inn á safnið meðan samningurinn gildir.  Svo nú er um að gera að vera dugleg að mæta með gesti sína á safnið næsta sumar.  Eftir læri og ís hjá tengdó um kvöldið var farið niður á Alla þar sem sungið var fram eftir kvöldi í S'yningunni Allt frá Óperu til Idol og heppnaðist það frábærlega vel.  Fullur salur af hressu fólki og allir í stuði, líka undirritaður.

06.04.2007 17:08

Ný rúða, fundur og fjör

Enn nýtur maður þess að vera í fríi en dagarnir fljúga áfram.  Vakið fram á nótt við skriftir, sjónvarpsgláp og lestur.  Er að lesa sjálfa Njálu í annað sinn, stórkostleg bók ef maður lætur ekki ættartölu upptalningu trufla lesturinn of mikið.  Þvílíkir kappar og ekkert verið að tvínóna við hlutina.  Sofið fram eftir og leikið við börnin.  Setti nýja rúðu í útidyrahurðina með tengdapabba þúsundþjalasmið áður en farið var á enn einn fundinn.  Að þessu sinni var það mjög áhugaverður kynningarfundur Siglfirðingafélagsins á starfsemi þess og framtíðarplönum.  Umræðan fór fljótt yfir í ferðamál og kynningu á Siglufirði sem útivistarparadís sem staðurinn svo sannarlega er.  Þarna var tekið undir margt af því sem við í Menningarnefnd Fjallabyggðar höfum verið að ýta á eftir t.d. að ráða menningar/markaðsfulltrúa fyrir sveitarfélagið og gera stórátak í þeim málum svo við verðum klár í slaginn þegar sá stóri dagur rennur upp að Héðinsfjarðargöngin verða opnuð. 

Siglufjörður hefur upp á svo ótlamargt að bjóða í þessum efnum en okkur vantar að koma því betur á framfæri; glæsileg söfn, ótrúlega náttúru með fjölmörgum gönguleiðum, stórkostlegt skíðasvæði, iðandi menningarlíf og svo mætti lengi telja.

Um kvöldið söng ég síðan nokkur lög í sýningunni Frá Óperu til Idol á skemmtistaðnum Allanum og varð úr þess hin besta skemmtun.  Fínn salur og söngvararnir og hljómsveitin í fínu formi.

05.04.2007 02:34

Unnið við síðuna og fundað meira

Já, maður hefur verið að dunda við að setja inn eitthvað af myndum á síðuna og fleiri upplýsingar.  Setti m.a. inn nýtt á Topp 20 listana, uppáhalds kvikmyndirnar, en ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um kvikmyndir og ýmislegt sem þeim við kemur.  Rakst á stórskemmtilega síðu fyrir kvikmyndaáhugamenn á netinu og bætti henni inn á tenglasíðuna hér til hliðar, um að gera að skoða.  Var næstum búinn að gleyma að setja myndina Rain Man á listann en hún datt inn á síðustu metrunum.  Svo þegar ég af rælni kveikti á kassanum um miðnætti var hún á dagskránni, skemmtileg tilviljun.  Dustin Hoffmann fer náttúrlega á kostum í þessari mynd sem hinn einhverfi Raymond Babbitt, stórkostlegur leikur hjá kappanum.

Skellti mér í blak með hinum eldhressu og síungu félögum mínum í blakklúbbnum Hyrnunni, alltaf fjör þar.

Eftir kvöldmat sat ég svo enn einn fundinn, í þetta sinn hittumst við stjórnarfólk hjá Glóa og Leikfélaginu á fyrsta undirbúningsfundi vegna hátíðarhaldanna fyrir 17. júní.  Allir klárir í slaginn og ákveðnir í að gera vel.  Vonum að veðurguðirnir verði með okkur.

Að öðru leyti gat maður notið dagsins með fjölskyldunni þar sem maður er í páskafríi og það er ósköp notalegt.

04.04.2007 11:35

Fyrstu færslur

03.04.2007  Dyttað að og pólitík
Við frúin vorum að skoða hvaða framkvæmdir þyrfti að fara í á heimilinu.  Skelltum okkur til Bjarna málara sem á flísar í tonnatali á ótrúlegu verði - aðeins 1.200 kall fermeterinn - baðherbergin bæði eru í sigtinu, spurning hvenær hægt er að vaða í þau.  Börnin una sér vel í frjálsræðinu og vorblíðunni eins og sjá mátti á síðunni hjá Steingrími sem myndaði þau við leik sunnan við Síldarminjasafnið.
Fundur hjá Sjálfstæðismönnum seinni partinn, kosningabaráttan að fara af stað.

02.04. 2007 Fundur í Ólafsfirði
Dagurinn fór m.a. í það að undirbúa fund Menningarnefndar Fjallabyggðar sem hittist í Ólafsfirði kl. 17.00.  Skoðuðum við hið glæsilega, en vel geymda -uppá 3. hæð í Sparisjóðnum, Náttúrugripasafn í Ólafsfirði og ræddum um hvernig væri hægt að auka veg þess og virðingu og ekki síður að fjölga heimsóknum.  Síðan voru fleiri mál rædd.  Láheiðin var skelfileg á köflum, ég veit ekki hvaða efni þeir hafa notað í nýja veginn niður Ólafsfjarðar megin en það fer alla vega ekki vel saman með vatni því þarna tók hvert drullusvaðið við af öðru, á nýjum veginum!!
Um kvöldið var æfing fyrir Óperu til Idol dæmið.  Þetta er allt að smella saman og kominn fiðringur í mannskapinn. 

01.04.2007  Allir í sund
Þetta var sannkallaður fjölskyldudagur.  Fjölskyldan skellti sér saman í sund og allir höfðu gaman af.  Gaman að sjá hvað nýja sunnudagsopnunin er að virka vel í sundlauginni, um 100 gestir í dag sem er bara frábært.  Gestir úr ýmsum áttum; fjölskyldufólk, Tékkarnir sem vinna við göngin og gestir bæjarins sem eru komnir til að njóta þess sem hér verður boðið uppá um páskana og stunda skíði.
Undir miðnætti kom svo mín elskulega dóttir Hrefna með tengdaforeldrum mínum að sunnan og ætlar að dvelja hjá okkur í páskafríinu.  Góður dagur !

29.03.2007
  Páskafrí á næstu grösum
Þá fer páskafríðið að skella á hjá okkur kennurum og nemendum í Grunnskóla Siglufjarðar og verða margir hvíldinni fegnir.  Vona að allir njóti dagana framundan sem best og komi endurnýjaðir til leiks eftir páska.

27.03.2007  Síðan í loftið
Jæja þá eru fyrstu drög að síðunni orðin klár eftir töluverða vinnu síðustu daga að koma henni heim og saman.  Enn vantar þó inn mikið að efni sem á eftir að leggja lokahönd á áður en það verður birtingarhæft.  Spennandi verður að sjá og heyra viðbrögð við þessari vitleysu.  En maður er nú barasta fæddur með þessum ósköpum að ef manni dettur í hug að gera eitthvað þá vill maður fara alla leið og gera það almennilega !!
  • 1
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48