Þórarinn Hannesson - Fréttir af listabrölti og ýmsar upplýsingar
   - flestar óþarfar

Færslur: 2024 Júní

28.06.2024 10:55

Þorpin þrjú - Spennandi verkefni fyrir vestan

Dagana 4. og 5. júlí tek ég þátt í skemmtilegu verkefni í Vesturbyggð í tilefni sameiningarinnar sem var þar á dögunum. Ég, Bílddælingurinn, og Ólafur Sveinn Jóhannesson, Tálknfirðingur, munum þar flytja dagskrá í tali og tónum þar sem við flytjum ljóð okkar og hugleiðingar um æskuárin fyrir vestan auk þess að flytja ljóð Jóns úr Vör úr bókinni Þorpið, sem fjallar að sjálfsögðu um Patreksfjörð. Sérstakur gestur á þessum viðburðum verður Birta Ósmann Þórhallsdóttir sem á dögunum var kjörin bæjarlistamaður Vesturbyggðar 2024 og mun hún flytja eigin ljóð.

Viðburðirnir verða í hverju þorpi sem hér segir:

Fimmtudag 4. júlí kl. 17.00 í Skriðu á Patreksfirði.

Fimmtudag 4. júlí kl. 20.00 í Dunhaga í Tálknafirði.

Föstudag 5. júlí kl. 21.00 á Vegamótum á Bíldudal.

Hver viðburður mun enda á spjalli við gesti um þorpin þrjú í þátíð, nútíð og framtíð.

Enginn aðgangseyrir verður að þessum viðburðum en Vesturbyggð styrkir framkvæmd þeirra og Ljóðasetur Íslands stendur auk þess að verkefninu.

 
 

 

22.06.2024 15:08

Íþróttir og tónlist

Löngum hafa íþróttir og tónlist spilað stórar rullur í mínu lífi og stundum togast á. Þar sem ég hef nú lagt keppnisíþróttirnar á hilluna þá er ekkert um árekstra á þessum sviðum lengur og hægt að einbeita sér meira að tónlistinni. Helstu afskipti af íþróttum eru nú í þjálfun og að stýra Ungmennafélaginu Glóa sem starfar á Siglufirði og í ár eru einmitt 30 ár frá því að við stofnuðum það. Á dögunum vorum við með okkar árlega 17. júní hlaup og í næstu viku stýri ég fyrri Ævintýraviku sumarsins hjá félaginu. Á fyrri myndinni sem fylgir er ég einmitt í hópi kátra krakka sem ég var að þjálfa í fyrra í íþróttaskóla Umf Glóa.

Eitt og annað er svo framundan í tónlistinni m.a. erum við Stulli, Sturlaugur Kristjánsson, bókaðir á nokkrum stöðum næstu vikurnar, ég mun koma fram með gítarinn á Ljóðasetrinu nokkrum sinnum í sumar og gítarinn verður einnig á lofti í ljóðaverkefni sem ég er að skipuleggja á Vestfjörðunum. Auk þess hefur verið óskað eftir mér suður að leika mín lög á listahátíð í Kópavogi og svo er náttúrulega alltaf hugmyndin að fara að taka meira upp af mínu efni. Já, þetta tínist til. Neðri mynd: Stulli og Tóti að spila við Segul 67 sumarið 2023. 

 
 

 

17.06.2024 12:17

Félagsheimili númer 53

Við Stulli spiluðum á dansleik á Melum í Hörgársveit sl. laugardag, mikið dansað og mikil gleði. Þá eru félagsheimilin sem maður hefur komið fram í orðin 53 talsins en hef auk þess flutt tónlist á 158 öðrum stöðum þ.e. ýmsum sölum, skólum, kirkjum, íþróttahúsum, samkomutjöldum, útisviðum, söfnum, veitingastöðum, dvalarheimilum o.fl. Alltaf gaman að koma fram á nýjum stöðum og sjálfsagt bætast einhverjir við á næstu vikum. 

 

14.06.2024 10:44

Ljóðaflutningur á Hlíð og ball um helgina

Var beðinn um að koma í heimsókn til ljóðaklúbbs sem starfræktur er á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri og kynna þar starfsemi Ljóðaseturs Íslands sem ég stofnaði og starfræki á Siglufirði, fyrir þá sem ekki vita. Auðvitað segir maður ekki nei við slíkri bón og ég renndi inn á Akureyri í gær og reyndi að segja eitthvað gáfulegt og vera skemmtilegur. Tókst held ég bara þokkalega til. Kynnti starfsemina, flutti nokkur af mínum ljóðum, kvað nokkrar stemmur og greip líka í gítarinn; svona sitt lítið af hverju. Um 20 manns hlýddu á  af athygli og til að gera stundina enn betri var Badda móðursystir mín í hópnum. 

Næsta verkefni í tónlistinni er dansleikur fyrir hressan hóp í Hörgársveit annað kvöld með honum Stulla, Sturlaugi Kristjáns. Það verður án efa mikið líf og fjör. 

 

11.06.2024 06:34

Bloggað á ný um hugðarefnin

Hef ákveðið að virkja heimasíðuna mína á ný til að segja tíðindi af ýmsum verkefnum sem ég er að sýsla við í tónlist, ljóðlist, ritlist, þjálfun, framkvæmdum og fleiru sem herjar á mann. Mun ég gera það í gegnum þetta blogg, sem ég sé að ég hef ekki notað síðan 2008; í 16 ár, já hratt flýgur stund. 

Undanfarin ár hef ég aðeins notað síðuna til að halda utan um og skrá ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur í þessum efnum eins og sjá má í ýmsum hlekkjum hér til hægri. Áhugaverðastur er líklega hlekkurinn Afrakstur, embætti .... þar sem teknar eru saman ýmsar tölulegar upplýsingar um ferla á ýmsum sviðum.

Hér að neðan er fyrsta færslan af fjörinu framundan; ljóðalestur, söngur og kynning á starfsemi Ljóðaseturs íslands á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri fimmtudaginn 13. júní.

Á næstunni er svo dansleikur á Melum í Hörgárdal, hlaup fyrir börnin á 17. júní, ýmsir viðburðir á Ljóðasetrinu, áframhaldandi skipulagning Síldarævintýris, útgáfa á afmælisriti Umf Glóa í tilefni af 30 ára afmæli félagsins, Ævintýravikur fyrir börn á Siglufirði, ljóðalestursrúntur á Vestfirðina o.fl. skemmtilegt. 

Mynd: Trölli.is

 

10.06.2024 17:38

Ljóðaflutningur á Hlíð

Ljóðaflutningur og kynning á Ljóðasetrinu í Hlíð á Akureyri

Um hríð hefur verið starfandi ljóðaklúbbur í tengslum við félagsstarfið á Hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Það eru þau Rakel Hinriksdóttir og Arnar Már Arngrímsson sem standa fyrir þeirri starfsemi en bæði hafa sinnt ritun af ýmsu tagi undanfarin ár.

Ég, sem forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, fékk boð um að heimsækja klúbbinn á þeirra vikulegu stund í Hlíð, segja frá setrinu og flytja ljóð og var að sjálfsögðu sagt já við þeirri góðu bón.

Næstkomandi fimmtudag, 13. júní kl. 13.30, mun ég því taka hús á þessum flotta félagsskap, kynna starfsemi Ljóðasetursins, flytja nokkur ljóð og grípa gítarinn með mér til að krydda stundina. Velkomið er fyrir áhugasama utan úr bæ að koma og hlýða á.

 

Mynd: Hlíð á Akureyri

  • 1
Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 293
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 96181
Samtals gestir: 24342
Tölur uppfærðar: 18.1.2025 02:34:48